Svarfdælasýsl forlag sf. er með þrjár bækur á bókamarkaðinum mikla sem stendur yfir í Laugardal.

Allar eru þær áhugavert lesefni á tombóluprísum.

Opið daglega frá kl. 10 til 21 til og með sunnudags 17. mars.

 

Lífshlaup athafnamanns – útgefin í ágúst 2020.

Saga Péturs Péturssonar sem sat á Alþingi fyrir Alþýðuflokkinn á öldinni sem leið og kom líka víða við sögu í athafnalífi landsmanna og samningum um viðskipti Íslendinga við stjórnvöld ríkja í Austur-Evrópu. Hann starfaði í Landssmiðjunni, var forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins, framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar, Álafoss og Norðurstjörnunnar,  starfsmannastjóri við Sigölduvirkjun og liðtækur í að reisa við fyrirtæki sem illa stóðu rekstrarlega.

Magnús Pétursson skráði og tileinkar bókina Pétri Óla, bróður sínum. Þeir ólust upp á Vindheimum í Skagafirði eftir skilnað foreldra sinna. Magnús er þjóðkunnur fyrir störf sín. Hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, síðar forstjóri Landspítala og loks ríkissáttasemjari.

Magnús er annars ekki maður einhamur. Á árinu 2023 kom út Ferðabók Feita-Jarps 1993-2018 sem hann skráði og gaf út ásamt Jóni Bjarnasyni. Feiti-Jarpur var ferðahópur nokkurra hestamanna sem fóru um landið sumar eftir sumar sér til fróðleiks, ánægju, skemmtunar og upplifunar.

 

Beckmann – útgefin í september 2020.

Saga tréskurðarmeistarans og jafnaðarmannsins Wilhelms Ernst Beckmanns sem kom til Íslands sem flóttamaður frá Þýskalandi vorið 1935 eftir að nasistar bönnuðu Jafnaðarmannaflokk Þýskalands. Werner Gerlach, aðalræðismaður Hitlers-stjórnarinnar á Íslandi tróð illsakir við Beckmann og kvaddi þennan landa sinn til skráningar á ræðismannskontórnum. Beckmann gaf skít í Beckmann og lét ekkert færi ónotað til að opinbera andstyggð sína og fyrirlitningu á ræðismanninum og nótum hans. Bretar létu verða sitt fyrsta verk að handtaka Gerlach á hernámsdaginn 10. maí 1940 og flytja í tugthús í Englandi.

Atli Rúnar Halldórsson var ritstjóri og umsjónarmaður útgáfunnar í samstarfi við Stofnun Wilhelms Beckmanns.

Eftir Beckmann liggja listilega gerðir skírnarfontar, altaristöflur og fleiri munir í að minnsta kosti 12 kirkjum á íslandi. Hann skar líka út margvíslega nytjahluti, málaði og teiknaði og hannaði meðal annars merki Hótels Borgar í Reykjavík árið 1946, merki sem hótelið notar enn þann dag í dag (en eigendur þess höfðu enga hugmynd um hönnuð merkisins fyrr en bókin kom út!).

Að gefnu tilefni um heimildavinnu og lánsfjaðrir

Heimildamynd um Beckmann, Hér er mitt Frón, var sýnd í RÚV í tvígang í febrúar 2024. Kveikjan að henni og hryggjarstykkið í handritinu var bókin um Beckmann en þess var í engu getið. Atli Rúnar Halldórsson:

„Ég hafði aldrei heyrt á Wilhelm Beckmann minnst þegar stjórn Stofnunar Wilhelms Beckmanns óskaði eftir því að ég tæki að mér að vinna að bók um manninn. Verkefnið reyndist umfangsmikil heimildavinna, ekki síst að fá prenthæfar myndir af verkum hans úr mörgum áttum eða taka þær, þýða texta, skrifa frumtexta og ritstýra efni meðhöfunda þannig að úr yrði aðgengilegt heildarverk um þennan merkilega mann sem afar fáir vissu hver var og hvað gert hefði um dagana.

Aðstandendur heimildarmyndarinnar Hér er mitt Frón höfðu heldur aldrei heyrt um Wilhelm Beckmann fyrr en þeir fengu bókina okkar, Beckmann, í hendur og skrifuðu frumhandritið upp úr henni – sem var hið besta mál svo langt sem það náði og með samþykki mínu og samþykki/stuðningi Stofnunar Wilhelms Beckmanns.

Heimildamyndin er vel heppnuð og ágætlega gerð. Myndefnið var vissulega af skornum skammti og kvikmyndamennirnir notuðu ríkulega ljósmyndir sem ég úðaði í þá, sumar skannaði ég og vann sérstaklega til síns brúks hjá þeim. Sjálfur saknaði ég þess reyndar að í sjónvarpsmyndinni væri sá pólitíski broddur sem Beckmann á skilið að haldið sé á lofti. Vísa til þess að þar var ekki getið um þann kjark hans og áræðni að standa uppi í hári nasistakleprans Gerlachs. Þeirri hlið mannsins má hins vegar kynnast í bókinni.

Í kredítlista heimildamyndarinnar er bókarinnar um Beckmann hvergi getið og því síður forlagsins og ritstjórans/umsjónarmanns útgáfunnar. Ekki orð um bókina heldur í kynningarávörpum fyrir forsýningar íslensku útgáfunnar í Bíó Paradís og þýsku útgáfunnar í samkomusal norrænu sendiráðanna í Berlín. Og ekki eitt orð um uppruna heimildamyndarinnar í heilsíðuviðtali í Fréttablaðinu sáluga!

Sjálfur var ég viðstaddur sýninguna í Berlín og hafði með mér 20 bækur í ferðatösku sem ég lagði á borð í teiti að sýningu lokinni og gaf þeim er hafa vildu. Taskan tæmdist.

Sumir viðtakendur sáu ástæðu til að hrósa mér aldeilis óverðskuldað fyrir athafnasemi og snör vinnubrögð. Þeim þótti giska vel af sér vikið að koma út bók um Beckmann samtímis frumsýningu heimildamyndarinnar (!). Man ég best eftir konum tveimur, báðum af akademískum meiði í Þýskalandi. Þær voru gáttaðar á að fá staðfest að bókin hefði verið kveikja að myndinni sem þær höfðu séð og lýstu mikilli ánægju með en jafnframt að bókin – sjálf frumheimildin – hefði ekki verið nefnd einu orði, hvorki í kredítlista né í ávarpi fyrir sýninguna. Og það með ritstjóra/útgefanda bókarinnar meðal gesta í salnum.

Þessu vil ég halda til haga að gefnu tilefni eftir spurningar og athugasemdir sem ég fékk eftir sýninguna í RÚV. Ég hef til að mynda þurft að svara því oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hvort ég hafi ekki vitað af því við bókarskrifin að verið væri að vinna á sama tíma að kvikmynd um Beckmann!

Ég hef líka þurft að svara því hvort ég hafi búið til bókina með heimildamyndina sem helstu heimild. Von að að spurt sé.

Til er nokkuð sem heitir höfundarréttur og til er líka nokkuð sem heitir sæmdarréttur. Og svo er auðvitað til í þriðja lagi nokkuð sem einfaldlega kallast mannasiðir og kurteisi í samskiptum.

Sjálfur legg ég mikið upp úr því að sýna heimildamönnum og samstarfsfólki þá sæmd og virðingu í verkefnum á mínum vegum sem sjálfsagt er og eðlilegt.

Ég er stoltur af bókinni okkar um Beckmann og í henni er meira að segja vönduð heimildaskrá. Sama á við um annað sem við höfum gefið út og munum gefa út.

Við fljúgum ekki á lánsfjöðrum og því síður á stolnum fjöðrum.“

 

Hittumst á Horninu – útgefin í október 2021.

Saga veitingastaðarins Hornsins í Reykjavík og fjölskyldunnar sem hefur átt hann og rekið frá upphafi, sumarið 1979.

Atli Rúnar Halldórsson skráði og sá um útgáfuna.

Hornið var fyrsta pizzerían á Íslandi, matar- og menningarhús í einu af elstu húsum gamla miðbæjarins í höfuðborginni.

Sæmdarhjónin Jakob H. Magnússon og Valgerður Jóhannsdóttir hafa átt og rekið Hornið frá upphafi ásamt sínu fólki. Oft kemur fyrir að fulltrúar þriggja kynslóða stórfjölskyldunnar standa vaktina saman í eldhúsi og sal.

Fastagestir skipta þúsundum og vilja ganga að uppáhaldsréttunum sínum vísum á matseðli þó líði ár og öld.

Saga Hornsins er mikilvægur þáttur í sögu veitingareksturs á Íslandi og um leið hluti af byggða- og atvinnusögu Reykjavíkur.