Kerlingarfjöll – Whitch Mountains suðvestur af Hofsjökli eru sannkölluð náttúruperla á hálendi Íslands, sérstæður, fjölbreyttur og fagur fjallabálkur sem stendur til að friðlýsa núna sumarið 2016 svo tryggja megi að komandi kynslóðir fái notið náttúrunnar í þeirri mynd sem hún er nú.

Kerlingarfjöll eru kjörinn staður göngufólks en líka allra annarra sem vilja upplifa eitthvað alveg sérstakt í íslenskri náttúru, að ekki sé talað um þá sem koma til Íslands vegna sérstaks áhuga á jarðfræði.

Ferðaþjónustan í Kerlingarfjöllum hefur aðallega verið rekin að sumarlagi en nú standa yfir framkvæmdir sem miða að því að hægt sé að veita gestum þjónustu árið um kring. Dvöl að vetrarlagi er ekki síðri upplifun en á sumrin, í snjó og kyrrð með norðurljós dansandi á himinhvolfinu yfir sér.

Hálendismiðstöðin í Kerlingarfjöllum hefur sjálfbærni og nýtingu umhverfisvænna orkugjafa að leiðarljósi. Öll raforka er framleidd í eigin vatnsaflsvirkjun, heitt vatn til upphitunar húsa kemur úr eigin borholu en drykkjarvatn fæst allt árið úr brunni á svæðinu.

Umhverfisráðherra Íslands staðfestir fljótlega friðlýsingu Kerlingarfjalla ásamt sveitarfélögum sem sveitarfélögum sem fara með forræði svæðisins.

Hildur Vésteinsdóttir, teymisstjóri Umhverfisstofnunar, segir að verndargildi Kerlingarfjalla byggist aðallega á jarðfræðilegri sérstöðu, sérstöku og fögru landslagi og einstakri stöðu sem útivistarsvæðis.

  • Kerlingarfjöll eru að mestu ósnortið víðerni sem einkennist af stórbrotnu og litríku landslagi, tignarlegum fjöllum úr líparíti og öðrum lægri úr móbergi. Þarna eru líparítstapar sem fágætir eru á heimsvísu.
  • Kerlingarfjöll eru háhitasvæði og á einum stað (í Hverabotni ) er öflugur hver í lækjargili. Þar hefur mælst hiti 145-150°C hiti, sá hæsti sem skráður er á Íslandi.
  • Mikil samfelld ummyndun í berg- og jarðgrunni einkennir hverasvæðin og algengustu hverirnir eru gufuaugu, gufuhverir, soðpönnur og leirhverir. Gera má ráð fyrir að í hverunum þrífist sérstætt lífríki örvera.

Texti & mynd: Atli Rúnar – birtist fyrst (á ensku) í Outdoors 2016