• „Svipmótið er líkt, þær hljóta að vera amma, dóttir og dótturdóttir!“
  • „Umhverfið er svo „útlent“ að sjá. Fyrirsæturnar hljóta því að vera útlendingar og myndirnar ábyggilega keyptar úr einhverjum alþjóðlegum myndabanka.“

Já, margir velta fyrir sér „andlitum lífeyrissjóðanna“, konunum glæsilegu sem sáust fyrst bregða fyrir í ímyndarauglýsingum lífeyrissjóðanna á sjónvarpsstöðvunum í fyrra. Þær eru áberandi á vefnum Lífeyrismál.is, prýða líka kápu nýlegrar ársskýrslu Landssamtaka lífeyrissjóða fyrir árið 2016 og munu heiðra okkur með nærveru sinni enn um sinn.

Hverjar eru fyrirsæturnar þrjár?

Þeir sem velta því fyrir sér fá svarið hér og þótt fyrr hefði verið. Konurnar eru fulltrúar þriggja kynslóða.

  • Jóhanna Ósk Sigfúsdóttir er „amman“ í hópnum. Hún er sjúkraliði á eftirlaunum og starfaði síðast á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi.
  • Ósk Sigurðardóttir er „mamman“ í hópnum, iðjuþjálfi og verkefnastjóri á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi. Hún er dóttir Jóhönnu Óskar í raun og veru!
  • Sunneva Líf Albertsdóttir er „barnabarnið“ í hópnum, nemi í Menntaskólanum við Hamrahlíð og útskrifast þaðan á komandi jólaföstu. Hún er ekkert skyld mæðgunum Ósk og Jóhönnu Ósk. Ófáir hafa samt þóst greina ótvíræðan ættarsvip með þeim þremur, jafnvel talið líklegt að Sunneva Líf sé dóttir Óskar! Svo er nú aldeilis ekki.

Fyrirsæturnar okkar eru sammála um að það hafi bæði verið skemmtileg reynsla og upplifun að taka þátt í fyrirsætuverkefnunum.

Jóhanna Ósk og Ósk léku í myndbandinu sömu konuna á mismunandi æviskeiðum og einmitt þess vegna var leitað að líkum mæðgum í útliti í hlutverkin. Atriðin voru tekin upp á Austurlandi. Dagur Hilmarsson gerði handrit myndbandsins og Lalli Jonsson leikstýrði. Framleiðandi: Republik.

Sunneva Líf kom ekki við sögu myndbandsins en var með á ljósmyndunum sem teknar voru í Reykjavík. Móðir hennar, Fríða María Harðardóttir, vann við að farða fyrirsæturnar. Þegar upp kom sú hugmynd að bæta við fulltrúa ungu kynslóðarinnar í hópinn var ekki farið yfir lækinn til að sækja vatn. Sunneva Líf var sannarlega liðsauki sem smellpassaði í skarðið sem fylla þurfti!

Jóhanna Ósk

„Ég hafði aldrei gert neitt þessu líkt áður og sagði engum frá uppátækinu en um leið og við sáumst fyrst í sjónvarpinu var byrjað að hringja og spyrja: Varst þetta þú í auglýsingunni áðan? Mér fannst óttalega skrítið að sjá mig á sjónvarpsskjánum í fyrstu en það vandist! Mikið ævintýri og gaman að fá að taka þátt í þessu.“

Ósk:

„Umhverfið okkar á ljósmyndunum vekur athygli margra. Það var ma ljósmyndari sem spurði hvar í veröldinni við hefðum verið við myndatökurnar, náttúran væri svo sérstök og falleg. Ég svaraði að ekki væri sérlega langt að fara því myndirnar væru úr Öskjuhlíð í Reykjavík!

Myndbandið var frumsýnt í RÚV fyrir leik Íslands og Portúgals í Evrópukeppninni í fótbolta karla í júní í fyrra og öll þjóðin límd við sjónvarpsskjáinn. Svo var það sýnt nokkrum sinni á meðan á keppninni stóð og ekki stóð á viðbrögðunum í símtölum, skilaboðum og tölvupóstum!

Mér fannst afskaplega gaman að vera með í verkefninu, frábært fólk sem stóð að þessu öllu og sérstaklega skemmtilegt að gera svona nokkuð með mömmu minni. Þetta vekur eingöngu góðar minningar.

Sunneva Líf Albertsdóttir (stödd í Þórshöfn í Færeyjum):

„Ég var fengin í þetta eftir ábendingu frá vinkonu hennar mömmu og hafði lítið gert af því áður að sitja fyrir í myndatökum. Mjög skemmtilegt að fá að vinna við þetta verkefni í góðum félagsskap.

 

Núna vinn ég á kaffihúsi í Þórshöfn fram í júlí og í haust byrjar lokaönnin í MH. Ég hef ekkert ákveðið um framhaldið eftir stúdentspróf.

Ég á færeyska ömmu og fleiri skyldmenni hér í Færeyjum. Færeyingar og Íslendingar eru líkir að flestu leyti, þó búa Færeyingar yfir mun meiri náungakærleik, að minnsta kosti miðað við reynsluna af því að vinna á kaffihúsum í Reykjavík og í Þórshöfn. Íslenskir viðskiptavinir eru margir hverjir mjög gagnrýnir og óþolinmóðir en Færeyingar hafa ekki lært að vera kröfuharðir, heldur nægjusamir og rólegir. Ég kem aldrei jafnþreytt heim úr vinnu hér og heima á Íslandi!“

Texti: Atli Rúnar Halldórsson

Birtist fyrst í Lífeyrismál.is