Unaðsleg kvöldstund á Blönduósi í veislu hjá Hinu frjálsa kótilettufélagi Austur-Húnavatnssýslu. Við mæltum okkur mót þarna fjórir gaurar sem Tryggvi Gíslason útskrifaði úr Menntaskólanum á Akureyri 17. júní 1974, alt svo fyrir 45 árum. Það sést hins vegar ekki á okkur aldurinn, alla vega úr fjarlægð.

Kótilettur með raspi, brúnaðar kartöflur, grænar baunir, rauðkál & sulta. Ekki séns að biðja um betra í góðum hópi. Meira að segja í matarlandinu Ítalíu er þessi veislukostur skráður á spjöld matseðla á betri veitingahúsum: cotoletta alla milanese. Við þurftum hins vegar ekki að fara lengra en á Blönduós.

Valdimar Guðmannsson, fyrrverandi verkalýðsleiðtogi á Blönduósi, er upphafsmaður og driffjöður Frjálsa kótilettufélagsins. Strax vekur athygli að kótiletturnar eru meira en þverhandarþykkar en það er víst ekki húnversk sérviska í kjötiðn heldur skrifast á þingeysk áhrif, innflutt í Austur-Húnavatnssýslu frá KótilettufélagI Íslands á Húsavík.

Valdi vildi reyndar gera betur og hafa kótiletturnar á sínum borðum enn þykkari og feitari en hjá Þingeyingum. Hann er líka í góðri stöðu til að velja kjötið og þykktina, starfandi sjálfur í kjötvinnslu SAH afurða ehf. sem Kjarnafæði rekur á Blönduósi.

Hann segir það vera frumskilyrði að berja sneiðarnar duglega með kjöthamri og velta þeim vel upp úr raspi fyrir steikingu í smjöri. Þetta er sem sagt alvöru trukkafæði en alls ekki fyrir grasætur, veganista og aðra sértrúarsöfnuði í fæðuvali.

Frjálsa kótilettufélagið í Austur-Húnavatnssýslu fagnar 5 ára afmæli í haust og slær þá að sjálfsögðu upp veislu. Á fjórða tug manna hefur þegar pantað borð og ætla ekki að missa af neinu.

Kótilettukvöldin hafa í seinni tíð verið fimm sinnum á ári, fjórum sinnum hjá Birni Þór í Eyvindarstofu, mikils velunnara þessara mannamóta, og svo einu sinni á ári í félagsheimilinu á Húnavöku. Þá mæta um 250 manns til veislu!

Á fyrsta kótilettukvöldið fyrir tæplega fimm árum mættu 27 manns en gestum fór fjölgandi og í fyrra varð sprenging í aðsókinni. Það er nú engin furða.

Valli kótilettukarl á Blönduósi vill að sem flestir fái að njóta matarins og félagsskaparins. Kótilettufélagið á Húsavík er víst allt öðru vísi hugsað. Það er fámennur, þrællokaður karlaklúbbur og ögn snobbaður líka. Þannig var því alla vega lýst um helgina á Blönduósi og ekki ljúga Húnvetningar að gestum sínum sem keyra yfir 400 kílómetra í matinn.

Fólk kemur reyndar alls staðar að á kótilettukvöld á Blönduósi. Til dæmis hefur tíu manna hópur boðað komu sína frá Seyðisfirði við fyrsta mögulega tækifæri.

Gísli Geirsson, bóndi á Mosfelli, var veislustjóri á laugardagskvöldið var og feðgaband spilaði og söng sérhannaða kótilettuslagara og fleira. Upptökur af þeirra framlagi er að finna neðst á þessari síðu. Í bandinu voru Benedikt Blöndal frá Brúsastöðum með gítarinn og synir hans, Björn og Lárus.

Vilji menn svo þreifa fyrir sér í kótilettufræðum í eldhúsum heima má prófa uppskrift og leiðbeiningar Kjarnafæðis. Hægt að komast langt með þann vegvísi innan seilingar og til að tryggja Blönduósgæði er vissara að biðja um kótilettur í flokki E3plús. Þá verður enginn svikinn, hvorki af vöðvum né fitu.