Atli Rúnar Halldórsson er ekki dauður, ekki aðframkominn í COVID og hvorki sérlega hrumur né elliær. Getgátur eru uppi um þessa möguleika eftir að ég gufaði upp á Fésbók 20. maí 2022 eða þar um bil. Atburðarásin var þessi:

1
Ég fékk tölvupóst frá glæpamönnum sem sögðust hafa náð aðgangsorðinu mínu í tölvupóstkerfinu, komist inn í tölupóstinn minn og náð gögnum sem þeir myndu dreifa um allar jarðir ef ég ekki borgaði „lausnargjald“. Þannig kæmist ég til að mynda hjá birtingu „óþægilegra mynda“ af mér í vafasömum athöfnum.

2
Ég hunsaði auðvitað erindið en var að því kominn að biðja þrjótana um að birta endilega þessar myndir. Spennandi að sjá sjálfan sig á Vefnum sig í „óþægilegum athöfnum“.

3
Fleiri sendingar fylgdu á eftir. Næst kom falsaður póstur í nafni Microsoft og þar næst virðulegt bréf á silkitærri íslensku. Boðskapurinn var í báðum tilvikum sá bjóða mér þjónustu gegn greiðslu vegna rökstudds gruns um að ég glímdi við aðför að tölvupóstkerfinu mínu (bófarnir brutust inn hjá mér og buðu mér svo sérfræðiaðstoð gegn tölvuárásum, stærra pósthólf og fleira slíkt gegn því að borga og borga).

4
Fljótlega hvarf Fésbókin mín af Vefnum og allar tilheyrandi tengingar mínar við samfélagsmiðla á vegum þess sómafyrirtækis. Mér var jafnframt tilkynnt að ég hefði gert mig sekan um barnaníð og slík fól ættu ekki heima á Fésbók. Það virðist svo sem glæponarnir hafi látið rigna yfir Fésbók tilkynningum um að ARH væri barnaníðingur og Fésbók bitið á agnið.

Öllum fésbókarsamskiptum mínum var lokað samstundis og þannig er staðan enn. Ég kemst ekki einu sinni í samband við liðið sem stýrir Fésbók því IP-tölur á tækjunum mínum, tölvu + síma, eru skráðar þar á bæ. Erindum sem frá mér berast er sjálfkrafa vísað frá.

5
Ég hef ekki borgað tölvuþrjótunum svo mikið sem krónu/dollar/evru og mun aldrei gera. Öll gögn mín sem máli skipta hef ég alltaf vistað og geymt á vísum stöðum. Árásin misheppnaðist að þessu leyti líkt og árás Pútíns á Úkraínu.

6
Engum óska ég þess að lenda í tölvuárás. Hver er tilgangurinn í mínu tilviki? Ekki hugmynd. Ég hef verið spurður hvort ég vinni fyrir íslensk stjórnvöld eða hafi föndrað með íslensk ríkisleyndarmál í vinnunni minni! Kannast ekki við það.

7
Microsoft beit líka á agn tölvuþrjóta og lokaði reikningum mínum hjá því fyrirtæki sem ég hef haft farsælt viðskiptasamband við í 27 ár. Microsoft og Facebook treysta betur tölvuglæponum en viðskiptavinum sínum og notendum þjónustu sinnar.

Lærdómurinn af þessu veseni er annars vegar sá að ég hefði átt að vera meira á verði og skipta um aðgangsorð og það oft.

Lærdómurinn er hins vegar sá að gæta þess að vista gögn á lausum diskum, ótengdum Netinu, til að tölvuþrjótar nái ekki tangarhaldi á manni ef þeim lukkast að brjótast inn. Í mínu tilviki hefðu glæponarnir geta valdið ómældum skaða, til að mynda með því að stela eða eyðileggja bókarverkefni sem ég unnið að frá því í febrúar 2021. Það lukkaðist þeim ekki.

Sá lærir er lifir.