Af Suðurflugi handan Silfurhliðsins

Suðurflug – South Air Iceland er býsna umfangsmikið fyrirtæki í starfsemi Keflavíkurflugvallar og í íslenskri ferðaþjónustu. Starfsemin er samt á sinn hátt vel varðveitt leyndarmál hérlendis, án þess aðstandendur félagsins missi svefn yfir því. Viðskiptavettvangurinn er nefnilega veröldin öll utan Íslands og Suðurflug kynnir sig einvörðungu og myndar viðskiptatengsl á erlendum sölusýningum, í fagtímaritum og af orðsporinu úti í hinum stóra heimi.

Núna í júlíbyrjun 2016 urðu kaflaskipti í starfseminni þegar Suðurflug var flutt úr alltof litlu og óhentugu húsi, sem í var afgreiðsla N1 áður, í byggingu sem fyrst var flugstöð Bandaríkjahers og síðar aðsetur herlögreglunnar.

Flutningurinn var langþráður og starfsmenn Suðurflugs unnu baki brotnu á frívöktum með iðnaðarmönnum vikum saman að því að mölva niður veggi, reisa nýja og standsetja væntanlegan vinnustað sinn. ISAVIA á húsið en Suðurflug leigir það allt og hyggst endurleigja að hluta – ekki samt flugturninn. Hann verður gerður upp síðar sem betri stofa fyrir gesti Suðurflugs. Það er punkturinn yfir i-ið.

Kóngarnir Clapton og Haraldur

Suðurflug er hvorki flugfélag né ferðaskrifstofa heldur þjónustufyrirtæki fyrir 80% af annarri umferð á Keflavíkurflugvelli en farþegaflugi. Þar er átt við viðskiptajöfra á einkaþotum, ferjuflug, sjúkraflug milli heimsálfa, hervélar og síðast en ekki síst þjóðhöfðingja og ýmis önnur stórmenni, heimsþekkta rokktónlistarmenn og kvikmyndastjörnur; ríka og fræga fólkið yfirleitt. Allir þessir viðskiptavinir ganga um hlað og gólf Suðurflugs í friði og ró innan flugvallargirðingar, fjarri heimsins glaumi, skríkjandi aðdáendum og ljósmyndurum með aðdráttarlinsur. Enginn óviðkomandi kemst að þessum gestum þarna.

  • Haraldur Noregskóngur og Eric Clapton rokkkóngur hittust til dæmis á Íslandi, þökk sé Suðurflugi, ræddu málin og hrifust mjög hvor af öðrum.
  • Margrét Danadrottning rennir svo oft í hlað á leið yfir Atlantshafið að hún þekkir starfsmenn Suðurflugs vel og heilsar þeim með fornafni.
  • John Travolta flýgur sjálfur og lendir margsinnis í Keflavík. Engum sérstökum tíðindum sætir að rekast á hann við kaffikönnuna í móttökusal Suðurflugs.
  • Ítalski tenórinn Andrea Bocelli millilenti til að rétta úr sér og spurði hvort Suðurflug gæti útvegað sér eitthvað til að liggja á og hvílast á gólfi þotunnar sinnar. Starfsmaður reddaði dýnu úr Rúmfatalagernum og stórsöngvarinn hélt glaður áfram ferð sinni yfir hafið.

Ný landamærastöð opnuð í nóvember – Silfurhliðið

„Við flutning í nýja flugstöðvarhúsið fengum við loksins fast land undir fætur og núna 15. nóvember verða önnur tímamót á sama árinu þegar ISAVIA flytur flugvallarhliðið í bygginguna við hlið okkar og tengda starfsemi í hluta neðri hæðar byggingarinnar þar sem eru höfuðstöðvarnar okkar. Þetta fyrirkomulag verður til mikilla þæginda fyrir starfsemi okkar og annarra sem þurfa að fara um landamærastöðina inn og út af flugvellinum. Við tölum gjarnan um „Gullna hliðið“, aðalhlið flugvallarins við Leifsstöð. „Silfurhliðið“ er hins vegar það sem við fáum sem granna í nóvember,“ segir Davíð Jóhannsson, framkvæmdastjóri og aðaleigandi Suðurflugs. Hann tók við rekstri félagins í ársbyrjun 2000, keypti

90% í félaginu 2007 en á nú tæplega helming á móti tveimur öðrum yfirmönnum hjá Suðurflugi, Birni Stefánssyni og Kristbirni Albertssyni; Arngrími Jóhannssyni flugstjóra, bróður sínum; og Hermanni Friðrikssyni framkvæmdastjóra.

Hlýlegt viðmót er besta kynningin

„Við komumst í gegnum bankahrun með félagið og síðan eldgos í tvígang og lifum af samdrátt í starfseminni í öll skiptin. Umsvifin hafa aukist síðan þá ár frá ári en samt ekki náð því sem var fyrir hrun. Við höfum öflugt og reynt starfsfólk með margra ára starfsreynslu að baki og það veður nánast eld og brennistein til að við náum þeim árangri sem raun ber vitni um! Íslandsbanki sýnir okkur traust og stendur með okkur og samstarf við Park Inn hótel í Keflavík skiptir miklu máli líka.

Viðskiptin byggjast á persónulegu trausti og trúnaði. Við höfum skipt við sömu fyrirtækin árum saman og hingað koma sömu flugmennirnir með sömu áhafnirnar aftur og aftur. Það breytir öllu að þeir hitti alltaf fyrir fólk hér sem þeir þekkja og treysta. Við settum upp aðstöðu á Akureyrarflugvelli líka að ósk viðskiptavina sem vildu geta farið þangað beint, til dæmis í veiði að sumarlagi eða á skíði að vetri til. Sömuleiðis höfum við leyfi til að taka á móti viðskiptavinum á Egilsstaðaflugvelli.

Í þessum bissness er þjónustulundin aðalatriðið. Við kappkostum að sýna viðskiptavinum okkar áhuga og virðingu, þjóna þeim hlýlega og aðstoða á alla lund. Slíkt viðmót er verðmætasta kynningin sem við fáum þegar upp er staðið.“

Davíð Jóhannsson framkvæmdastjóri og Þórdís Sigtryggsdóttir fjármálastjóri, hjón og stærstu eigendur Suðurflugs til vinstri. Til hægri Björn Stefánsson, vaktstjóri og einn af eigendum félagsins.

Texti & myndir: Atli Rúnar – birtist fyrst í Sóknarfæri í nóvember 2016