Svarfdælasýsl


Vefurinn Svarfdælasýsl fór í loftið í mars 2012 sem hjáverka- og heimilisiðnaður Atla Rúnars, vefur sem hann stofnaði og setti sjálfur upp í WordPress-umsjónarkerfinu, ritstýrir og fóstrar að öllu leyti. Yfirlýst ritstjórnarstefna
 var að sinna Svarfdælingum sunnan heiða en leikurinn gæti borist líka norður í Dalinn eina eða út í heim eftir atvikum.  Mátulega opið og teygjanlegt, með öðrum orðum.

Sýslið hefur fengið heimsóknir frá 54 ríkjum um víða veröld á árinu 2016 og yfir 90 ríkjum frá upphafi.

  • Svarfdælasýsl færir út kvíar árið 2017 þegar gefin verður út bók um síðari tíma svarfdælsk málefni, skrifuð í anda blaðamennskusagnfræði. Ef vel gengur má gera ráð fyrir að önnur bók í sömu ritröð sé skammt handan við hornið.

Að útgáfunni standa Jarðbrúarsystkin öll, Atli Rúnar, Jón Baldvin, Helgi Már, Óskar Þór, Jóhann Ólafur og Inga Dóra Halldórsbörn og Ingibjargar.

Bókaútgáfan er sjálfstætt framtak en andlega skyld Svarfdælasýsli og það er undirstrikað með því að nota „vörumerkið“ sem vefurinn hefur plægt akurinn með undanfarin ár.

Í fyrstu bókinni verður meðal annars fjallað um þátt Svarfaðardals og Svarfdælinga í íslenska kvikmyndavorinu, tímamót sem talað er um að Land og synir hafi markað. Sú kvikmynd eftir sögu Indriða G. Þorsteinssonar var tekin upp í Svarfaðardal 1979 og frumsýnd í Austurbæjarbíói, að viðstöddum meðal annars Svarfdælingnum Kristjáni Eldjárn, forseta Íslands.

Sigríður Hafstað á Tjörn og stórleikarinn Jón Sigurbjörnsson léku hjónin í Gilsbakkakoti í Landi og sonum, Guðrúnu og Tómas. Atli Rúnar kom á endurfundum þeirra á Hrafnistu í desember 2016 í tilefni af umfjöllun í væntanlegri bók. Sú stund var mögnuð og eftirminnileg og þau duttu meira að segja inn í hlutverkin sín um stund og töluðu saman sem Guðrún og Tómas!