Vatnajökulsþjóðgarður innheimtir hóflegt þjónustugjald í Skaftafelli frá og með miðvikudegi 9. ágúst 2017. Tekjunum verður varið til að styrkja helstu innviði þessa fjölsótta ferðamannastaðar Vatnajökulsþjóðgarðs með því til dæmis að viðhalda bílastæðum, leggja göngustíga, efla gæslu og auka öryggi gesta.

600 krónur á sólarhring fyrir algengustu heimilisbíla

Á háannatíma sumarsins koma daglega í Skaftafell um 4.500 manns á um 1.300 bílum. Slík umferð kallar á aukna þjónustu af flestu tagi og eðlilegt er að innheimta gjald til að standa sem best að henni.

Í reglugerð frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu sem dagsett er 14. júlí 2017 er þjóniustugjaldið heimilað og kveðið á um upphæð þess á sólarhring (frá miðnætti til miðnættis):

* 600 kr. algengustu heimilisbílar, 5 manna eða færri

* 900 kr. stærri fólksbílar og jeppar, 6-9 manna

* 1.800 kr. minni rútur, 10-18 manna

* 3.600 kr. stærri rútur, 19 manna eða fleiri

* 300 kr. bifhjól

Innheimta með nýrri tækni, einfaldara eftirlit og umsjón

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Computer Vision ehf. hannar, setur upp og rekur sjálfvirka innheimtukerfið myParking í Skaftafelli á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs. Samningur þar að lútandi var undirritaður í kjölfar verðkönnunar Ríkiskaupa.

Kerfið myParking er íslensk lausn og nýmæli hérlendis. Það einfaldar mjög og auðveldar framkvæmdina og tengist ökutækjaskrá Samgöngustofu, greiðslukortalausnum og Reiknistofu bankanna. Kerfið styðst við gervigreind að hluta og „les“ með myndavélum skráningarnúmer bíla sem í Skaftafell koma og þaðan fara. Það skráir dvalartíma bíls á gjaldskyldum bílastæðum, reiknar út gjaldið og býður upp á nokkra möguleika fyrir eiganda/umsjónarmann bíls til að borga.

Unnt verður að greiða bílastæðagjaldið í Skaftafelli

Sé ekki greitt innan hálfs sólarhrings frá því gestur í Skaftafelli fer þaðan stofnast krafa í heimabanka eiganda ökutækis eða sendur er út reikningur. Þá bætist við innheimtukostnaður.

Umsjónarkerfið geymir aðeins upplýsingar um þá sem ekki borga strax (innan tólf klukkustunda frá því farið er úr Skaftafelli).

Stórnotendum bílastæða í þjóðgarðinum, svo sem rútufyrirtækjum og bílaleigum, býðst að forskrá ökutæki sín í kerfinu og gera upp gjaldið vikulega eða vera í reikningsviðskiptum.

Meðferð persónuupplýsinga í samræmi við lög og reglur

Skilyrt er að farið sé með allar upplýsingar í innheimtukerfinu í samræmi við kröfur Persónuverndar og fylgt í hvívetna ákvæðum laga og reglna um meðferð persónuupplýsinga og rafræna vöktun.

Gjaldið er kynnt á áberandi upplýsingaskilti í Skaftafelli til að vekja athygli bílstjóra á innheimtunni og rafrænu eftirliti sem henni fylgir.