Vefsíður

Þessi vefur, sysl.is, er settur upp í WordPress-vefumsjónarkerfinu, sem er hið útbreiddasta sinnar tegundar í veröldinni og það ekki að ástæðulausu!

Vefurinn Svarfdælasýsl, sem er ættarmeiður Sýslarafjölskyldunnar, er sömuleiðis settur upp í WordPress. Framkvæmdavefur ferðaþjónustunnar í Kerlingarfjöllum er annað dæmi um tiltölulega einfaldan en skilvirkan WordPress-vef sem Atli Rúnar bjó til að öllu leyti.

Þegar einfaldar lausnir duga ekki liggur beint við að leita til þeirra sem sérhæft hafa sig í að vefa, forrita og hýsa vefi. Sægreifavefurinn, sem fór í loftið haustið 2016, er dæmi um samvinnuverkefni Atla Rúnars og Kaliber/Sigurðar G. Sigurðarsonar í WordPress-kerfinu. Þeir hafa annars sýslað saman í mörgum verkefnum undanfarin ár og sumum umfangsmiklum.

Nýr vefur Hvalfjarðarganga  (fór í loftið í lok nóvember 2016) er hins vegar samstarfsverkefni Athygli/Atla Rúnars og  Elanmultimedia.com/Eddu Langworth í Joomla-vefumsjónarkerfinu.

Atli Rúnar hefur unnið með og vinnur í fleiri vefumsjónarkerfum en þessum tveimur en kann afar vel við sig í WordPress-umhverfinu, engin launung á því!

WP-vefirnir eru léttir í vinnslu og margt í þeim auðveldara að læra og nota en í ýmsum öðrum kerfum. Siggi í Kaliber segir að WP-kerfið hafi  þá ótvíræðu kosti að þar séu engin leyfisgjöld, auðvelt að uppfæra vefina, einfalt viðmót og auðvelt að kenna fólki að nota kerfið – vera sjálfbjarga. Kaliber hugbúnaðarhús hýsir vefi viðskiptavina sinna, ef svo ber undir.

Sigurður G. Sigurðsson við tölvuskjána sína í Kaliber á Grandagarði.