Óli Samró glaðhlakkalegur með bókina sína og Hjörtur Gísla t.h. Aftan við er bílstjórinn sem kom með bókina ferska til Grindavíkur af Keflavíkurflugvelli. Hún var prentuð í Kaupmannahöfn.

Vinnuvikurnar eru gjarnan hver annarri líkar en sumar skera sig úr, til dæmis sú nýliðna. Hún hófst í Grindavík og Vestmannaeyjum á sjómannadaginn. Þar var ég á ferð með Óla Samró, færeyskum hagfræðingi og stórsnillingi. Hann skrifaði stórmerkilega bók um fiskveiðistjórnun og tengd mál um víða veröld en með megináherslu á Ísland, Færeyjar og Falklandseyjar (einu löndin í veröldinni sem hafa sjávarútveg sem helsta atvinnuveg sinn).

Hjörtur Gíslason þýddi bókina og hún er nú komin út á íslensku: Fiskveiðar, fjölbreyttar áskoranir. Hjörtur er ritstjóri vefsins kvotinn.is og hefur skrifað um sjávarútvegsmál í fjóra áratugi. Hann var á sínum tíma knattspyrnuþjálfari í Færeyjum í tvö ár og lærði færeysku. Hjörtur var því réttur maður á réttum stað sem þýðandi bókarinnar hans Óla. Svo skemmir ekki fyrir að hann er Svarfdælingur, sonur Gísla Jónssonar Gíslasonar á Hofi.

Bókin var kynnt í Grindavík og Óli fer í heimsókn í sjávarútvegsfyrirtækin þar í vikunni sem nýhafin er. Hann kynnti bókin í Pálsstofu í Eyjum og fór í fyrirtæki þar í sama tilgangi. Nú er kappinn í hringferð um landið með skottið í bílnum fullt af bókum …

X

Hrafnhildur kvikmyndagerðarmaður, Ásthildur förðunarfræðingur, Sirrý og Atli Rúnar: harðsnúið teymi í þjálfun fólks sem þarf starfa sinna vegna að hafa samskipti við fjölmiðla …!

Í nýliðinni vinnuviku vorum við Sirrý með heilsdagsnámskeið um fjölmiðla og framkomu í fjölmiðlum. Afskaplega gefandi og skemmtilegt verkefni.

X

Svo sat ég drjúgt yfir kaflanum um Húsabakkaskóla í bókinni Svarfdælasýsl sem áformað er að komi út 1. október. Hreint með ólíkindum hve bróður mínum og bókarhöfundi, Óskari Þór Halldórssyni, hefur tekist að sópa saman af upplýsingum og fróðleik. Unaðslegt að lesa og spennandi að gefa út!

Búið er að brjóta um kaflann um Göngustaðaættina og hinn magnaði grafíski hönnuður, Þorleifur Rúnar Örnólfsson – Setjarinn, er kominn með kaflann um Land & syni í umbrot.

Firnagott teymi í útgáfu: Sýslarinn & Setjarinn!

Svarfdælasýsl verður ekkert smákver, heldur alvöruskrudda upp á meira en 500 blaðsíður.

Útgefandi: Svarfdælasýsl forlag sf. sem er í eigu okkar sex systkina frá Jarðbrú. Meira síðar en spenna vaxandi …

X

Már og Sólrún, vaktmenn í gjaldskýli Hvalfjarðarganga.

Skíðamenn í Húsabakkaskóla veturinn 1959-1960. Mynd sem Júlíus Jón Daníelsson tók. Við höfum notið fádæma velvildar við vinnslu bókarinnar og að okkur hefur borist heill hellingur ljósmynda úr skólastarfinu frá upphafi 1955. Gamlir Húsbekkingar eiga eftir að ylja sér vel við minningarnar þegar þeir hafa fengið í hendur skrudduna Svarfdælasýsl!

Í vikunni fól ég Svansprenti að prenta 2.000 stykki af gjaldskrárbæklingi Hvalfjarðarganga og skilaði upplaginu í gjaldskýlið í gærkvöld, á sjálfan þjóðhátíðardaginn.

Már og Sólrún stóðu vaktina og höfðu í nógu að snúast. Mikil umferð og margar framandi tungur.

Túristarnir borga fyrir stakar ferðir og þúsundkallarnir skipta ört um eigendur við lúgurnar á norðurströnd Hvalfjarðar.

Þannig er Ísland í dag eða alla vega í liðinni viku.