„Ég útskrifast í vor með A og B-námsstig í vélfræði og stúdentspróf sömuleiðis frá Framhaldsskóla Vestmannaeyja og fer þá til Reykjavíkur í framhaldsnám. Hugsanlegt er að bæta við sig C og D-gráðum í vélfræði í Tækniskólanum en eiginlega er ég hrifnari af stálsmíði. Mér finnst gaman að skapa eitthvað í vinnunni. Rafsuða og rennismíði eru heillandi greinar og koma vel til greina í sérnámi.“

Linda Petrea Georgsdóttir, vélfræðinemi í Hafnareyri, er á vinnustað sem hefur þá stöðluðu ímynd að hæfa frekar körlum en konum en hún blæs kröftuglega á slíkt tal og segist sjálf vera komin á rétta hillu í atvinnulífinu. Ungt fólk eigi hiklaust að horfa til þessara iðngreina þá ekki síður stelpur en strákar. Sjálf var Linda alls óráðin í námsvali á sínum tíma en þá var það pabbi hennar, Georg Rúnar Ögmundsson, sjúkraþjálfari í Eyjum, sem benti henni á réttu hilluna. Hann „las“ dótturina hárrétt, aflraunamaðurinn mikli sem hampaði titlinum Sterkasti maður Íslands árið 2014 og keppti í hópi þeirra sem hafa margfalt meiri krafta í kögglum en fólk flest.

Mun betra að byggja en beygja hest

„Pabbi sagði að ég hefði sem smákrakki sífellt dundað við byggja og búa eitthvað til bæði inni og úti. Í barnaskóla gekk mér mjög vel í stærðfræði og var listræn í mér en hins vegar afskaplega léleg í íslensku. Ég gat smíðað eitt og annað en mér gekk bölvanlega að beygja orðið hestur!

Pabbi taldi að vélfræðin myndi henta mér. Sjálf vissi ég ekkert um vélfræði og hafði aldrei spáð í slíkt nám en ákvað að slá til. Fljótlega kom í ljós að þar átti ég heima.

Sumir halda að vélfræði sé aðallega verklegt nám og ég veit um nokkra stráka sem byrjuðu í námi en hættu við þegar þeir komust að því að þar er mikið og erfitt bóknám líka. Mikið þarf til dæmis að hafa fyrir eðlisfræði, rafmagnsfræði, grunnteikningum og fleiru í grunnnáminu.“

Einungis fjórir vélfræðinemar í Eyjum

„Vélfræði og fleiri iðngreinar eru ekki kynntar neitt í grunnskólanum svo heitið geti. Það er mikil synd og er skýring á því að færri sækja í iðnnám en eðlilegt er. Við erum til dæmis bara fjögur nemendur í kennsluáföngum í vélfræði í Vestmannaeyjum.

Næga atvinnu er að hafa fyrir nýútskrifaða vélfræðinga og sárvantar menntað fólk í faginu. Samt hrúgast krakkar í sálfræði og alls kyns greinar í háskólum upp á óvissu að námi loknu. Er nú ekki betra að vera vélfræðingur og geta valið um vel launuð störf í fjölda fyrirtækja frekar en að gerast atvinnulaus sálfræðingur?

Flottar móttökur í Hafnareyri

Linda Petrea fæddist í Reykjavík og bjó þar fyrstu sex ár ævinnar. Þá flutti hún til Reyðarfjarðar þegar pabbi hennar réði sig til starfa í álveri Alcoa  og þaðan lá leiðin til Vestmannaeyja árið 2013.

Nú er síðasti skólavetur Lindu í Eyjum nýlega hafinn og tími kominn til að velja hvert leiðin síðan liggur í menntakerfinu. Hún vinnur að hluta í Hafnareyri með námi.

„Ég velti þessu auðvitað fyrir mér og viðurkenni að ég horfi í augnablikinu nokkuð til rennismíði og rafsuðu. Ætli ég noti ekki á endanum aðferðina Úllen-dúllen-doff!

Hafnareyri er mjög góður vinnustaður. Hér er fín starfsaðstaða og gott fólk. Ég var boðin velkomin og fékk flottari móttökur en ég hefði getað ímyndað mér. Hér líður mér því vel.“

Um Hafnareyri

Hafnareyri er dótturfélag Vinnslustöðvarinnar, stofnað á árinu 2015 og þjónar Vinnslustöðinni til sjós og lands en einnig öðrum viðskiptavinum.

Undir Hafnareyri heyrir

  • frystigeymslan Kleifarfrost á Eiði. Þar komast fyrir 10.000 bretti í stórbrotnu rekkakerfi og tölvustýrðu umhverfi sem á sér hvergi hliðstæðu í víðri veröld.
  • nýtt verkstæði við Hlíðarveg fyrir trésmíði, vélaviðgerðir og járnsmíði. Þar er líka lager, geymsla og glæsilegar vistarverur starfsmanna.
  • löndunar- og ísþjónusta.
  • Stakkshús, saltfiskgeymsla.