Um Sýslarann

Atli Rúnar og Bubbi Morthens heima hjá þeim síðarnefnda haustið 2016 í tilefni af sögu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, sem sá fyrrnefndi skráði. Bubbi var nokkrum sinnum á vertíð í Eyjum og bjó meðal annars í verbúð Vinnslustöðvarinnar. Hann lýsir í bókinni dvölinni í Eyjum og lífinu í verbúð, sem var á köflum býsna skrautlegt!

Atli Rúnar Halldórsson sýslar sjálfstætt frá ársbyrjun 2017 við ýmislegt sem tengist fjölmiðlun í víðum skilningi og skrifum, útgáfu og ráðgjöf.

Sýslarinn hefur að vísu ekki ráð undir hverju rifi en þó nokkrum. Ráð undan rifi geta verið úrræði sem byggjast á áratuga reynslu í vinnu á dagblöðum, í útvarpi, við skrif tilkynninga, greina, blaða, bæklinga og bóka, verkstjórn við prentmiðla og uppsetningu vefsíðna, umsjón með rekstri vefsíðna og uppfærslu efnis á þeim.

Atli Rúnar lærði blaðamennsku í Osló og útskrifaðist 1984. Hann starfaði sem blaða- og fréttamaður á Alþýðublaðinu, Dagblaðinu og Ríkisútvarpinu frá 1976 til 1995, þar af í nokkur ár sem fréttaritari Ríkisútvarpsins í Noregi og var um skeið varafréttastjóri á fréttastofu Útvarpsins.

Hann varð starfsmaður og einn eigenda Athygli almannatengsla ehf. 1995 og var þar til ársloka 2016. Þá gerðist hann eigin húsbóndi og sýslari.

Atli Rúnar nam á sínum tíma prentverk í bókiðnadeild Iðnskólans í Reykjavík og hugðist feta þá slóð á vinnumarkaði en fékk af tilviljun starf við blaðamennsku og hélt sig þar og í fjölmiðlun af öðru tagi næstu áratugi.

Löngu áður lærði hann reyndar að úrbeina nautsskrokka á Kjötiðnaðarstöð KEA á Akureyri og starfaði um skeið sem úrbeiningarmaður á Dalvík. Grunnþekking í kjötskurði og úrbeiningu hefur reynst notadrýgri á lífsleiðinni en margur hyggur.

  • Ljósmyndirnar sem líða um forsíðu þessa vefs eiga það sameiginlegt að tengjast flestar með einum eða öðrum hætti viðskiptavinum eða einstökum verkefnum sem ARH hefur komið að og/eða kemur að nú.