Ég áttaði mig á því núna um helgina að liðin eru 45 ár frá því ég byrjaði í blaðamennsku. Minni tilefni duga til að fá nett áfall en svona fýkur tíminn áfram.

Alþýðublaðið var fyrsti vinnustaðurinn í fjölmiðlum, dagblað sem Alþýðuflokkurinn átti lengi vel en endaði í fanginu á Reykjaprenti sem gaf líka út Vísi. Svo dó Alþýðublaðið síðar drottni sínum og Vísir sameinaðist Dagblaðinu svo úr varð DV. Og nú er DV í dauðateygjum.

Svona er nú lífið. Og dauðinn er alltaf hin hliðin á peningnum.

Á timarit.is sé ég að fyrsta fréttin mín fjallaði um launadeilu röntgentækna. Ég hafði tal af Arngrími Hermannssyni, trúnaðarmanni röntgentækna á Landspítala. Síðar hætti hann í spítalabransanum, stofnaði ferðaskrifstofuna Addis og keypti stóra jeppa á risadekkjum til að fara með ferðafólk um hálendið og jökulbreiðurnar.

Fljótlega eftir að ég flutti í Álftaland 5 varð ég var við fjallatrukka utan við Álftaland 17. Þar bjó þá Arngrímur og býr enn. Þá sjaldan að fyrir kemur að snjói svo mikið í Reykjavík að ég komist ekki frá húsinu akandi á Arngrímur það til að koma óbeðinn á fjallatrukknum sínum og troða slóð heim á hlað hjá mér. Slíkt gera bara öðlingar.

 

Þarna sé ég svo merki um hafa talað við Axel Björnsson hjá Orkustofnun um jarðhræringar á Kröflusvæðinu. Krafla var heitt fréttamál á þessum tíma og  næstu ár. Þar reis virkjun sem átti að nærast á gufu en ýmislegt gekk á sem jók á vantrú manna að gufuvirkjun væri gáfulegt uppátæki.

 

Og ekki linnti látum í pólitíkinni þegar jarðeldar kviknuðu aftur á Kröflusvæðinu. Jarðvísindamenn

notuðu sjálft stöðvarhúsið til að fylgjast með jarðrisi og jarðsigi í umbrotunum. Hélt fyrst að það væri lygasaga en sá sjálfur mælitækin í vélasalnum fyrir þremur árum eða svo. Nú hreyfist húsið ekki lengur og gufuvirkjunin býr til rafmagn og malar gull.

Heitasta fréttamálið á þessum haustdögum 1976 var annars hvarf Geirfinns Einarssonar og allt í kringum það. Ég kom aldrei nálægt Geirfinnsmálinu, það var frátekið fyrir eldri og reyndari blaðamenn. Samfélagið nötraði og beðið var nýrra tíðinda á hverjum degi. Nokkrir af innvígðum blaðamönnum drukku með rannsóknarlögreglumönnum á barnum á Borginni og ég hafði á tilfinningunni að þar væru lögð drög að næstu tíðindum málsins í samkrullinu. Hvorki fjölmiðlar né löggan hafa gert upp þessa skuggalegu fortíð sína í Geirfinnsmálinu svo ég viti.

Tveimur dögum eftir Kröflufréttina skrifaði ég um kartöfluuppskeru í Þykkvabæ. Þá var fastur liður í fjölmiðlum að fylgjast með gangi atvinnulífs til sjávar og sveita og segja fréttir aflabrögðum, heyskap, kali í túnum og kartöflurækt. Fæstir fjölmiðlamenn nútímans hafa áhuga á slíku og vita fátt um hefðbundið brauðstrit landsmanna í grunnatvinnugreinunum.

Gaman er að sjá að þarna talaði ég við Yngva kartöflubónda í Oddsparti og átti eftir að heyra oftar í honum þegar vantaði efni í kartöflufréttir.

Nú er öldin önnur í Oddsparti. Þar hafa núverandi eigendur og vinir mínir, Hrönn Vilhelms og Þórólfur Antons, tekið íbúðarhúsið í gegn, breytt útihúsum í Hlöðueldhúsið stórglæsilega og heimilisbragganum í gróðurhús.

Hver hefði nú trúað því að slíkt ævintýri gerðist í Þykkvabæ? Ekki nokkur maður og síst Yngvi í Oddsparti.

Álversbomban eyfirska

Nú verða fyrir mér forsíður Alþýðublaðsins 2. og 5. október 1976. Þar varð umtalsverður hvellur, reyndar svo mjög að nýráðinn blaðamaður titraði og skalf á köflum, blautur á bak við bæði í faginu.

Líffræðingur sem ég þekkti hafði samband og gaukaði að mér gögnum um rannsókn sem hann vann að ásamt fleirum. Þarna voru skjöl með rauðum trúnaðarmálsstimpli sem gerði málið enn meira spennandi en ella. Þarna var meðal annars um umhverfisrannsóknir vegna hugsanlegs álvers við Eyjafjörð, sex hundruð manna vinnustaðar.

Meira var þarna í gangi en fólk flest vissi um og fréttaflutningurinn í Alþýðublaðinu varð tilefni utandagskrárumræðu og fyrirspurna á Alþingi. Stjórnvöld gerðu lítið úr öllu og tónuðu málið niður.

Á ritstjórn Alþýðublaðsins mætti náungi sem kynnti sig sem fulltrúi krata í stóriðjunefnd eða einhverju álíka apparati sem Jóhannes Nordal hlýtur þá að hafa verið í forystu fyrir. Seðlabankastjórinn var alltaf innst við gafl stjórnvalda þegar línur voru lagðar í „stóru málunum“, hvort heldur voru virkjanir, orkufrekur iðnaður, heildarlöggjöf lífeyrissjóða eða hvað það mátti nú vera.

Nefndarkratinn var sár og svekktur yfir því að Alþýðublaðið skyldi rjúka í að fjalla um álver við Eyjafjörð án þess að tala við sig. Annars væri þetta í besta falli ekki-frétt sem ekki tæki því að tala. Hann kvaðst samt aðallega kominn til að „sækja pappírana“, það er að segja trúnaðargögn sem hann grunaði að blaðamaðurinn ég hefði undir höndum. Hann fékk auðvitað ekki svo mikið sem pappírssnifsi með sér og þarna reyndi mjög á þann hæfileika sem Svarfdælingum er gefinn, að segja uppáþrengjandi fólki efnislega að fara fjandans til en af stökustu kurteisi og nærgætni.

Ritstjórinn tók minn málstað og róaði nefndarkratann sem ég man ekki hvað hét eða heitir.

 

Ammendrup og myrkraverkin

Árni Gunnarsson var ritstjóri Alþýðublaðsins á þeim tveimur árum sem ég vann þar og á sumrin mætti Vilmundur Gylfason sem gustmikill afleysingaritstjóri. Þeir voru báðir kjörnir alþingismenn vorið 1978 þegar kratar náðu inn 14 mönnum. Hvorki fyrr né síðar hafa íslenskir jafnaðarmenn fengið slíkt fylgi og þá, 22% atkvæða.

Með mér vann margt fleira sæmdarfólk á Alþýðublaðinu, sumir eru farnir yfir móðuna miklu:

Aðalheiður Birgisdóttir, Axel Ammendrup, Bjarni Sigtryggsson, Bragi Jósepsson, Einar Sigurðsson, Gunnar E. Kvaran, Haukur Már Haraldsson, Jóhanna Sigþórsdóttir, Oddur Sigurjónsson og Sæmundur Guðvinsson. Ábyggilega gleymi ég einhverjum.

Með Gunnari átti ég eftir að vinna mikið síðar en ég nefni líka Axel Ammendrup sérstaklega. Hann missti heilsuna og lést langt, langt um aldur fram.

Axel var skrifandi ljósmyndari og réði ríkjum í myrkraherberginu á ritstjórn. Þá voru myndir teknar á filmu, framkallaðar og myndir færðar á pappír með tilfæringum.

Axel var fjári glúrinn við myrkaverkin og mig langaði til að prófa sjálfur. Hann féllst á að kenna mér að framkalla og stækka myndir og það tókst honum sannarlega. Ég keypti mér græjur til að föndra við myndir heima og útbjó meira að segja sérstakt myrkraherbergi í íbúðinni sem við leigðum síðar í Osló.

Í millitíðinni var ég einn vetur í bókiðnadeild Iðnskólans í Reykjavík og lærði meðal annars offsetljósmyndun og filmugerð. Það eru vissulega fög sem hurfu síðar úr prentbransanum en þekkingin kom mér óvænt vel síðar þegar ég fékk myndvinnsluforrit í tölvuna mína, þar á meðal Photoshop. Þá kom á daginn að margt sem ég lærði í offsetljósmyndun nýttist heldur betur vel  við vinnslu mynda í tölvu og meira að segja líka það sem ég lærði þar áður af Ammendrup heitnum.

Þessa þekkingu úr fortíðinni nýti ég daglega í því sem ég fæst við nú, hvort heldur er myndvinnsla fyrir vef eða til útgáfu bóka og annars prentefnis.

Ég á Axel Ammendrup mikið að þakka fyrir grunnskólamenntun í myrkraverkum og Iðnskólanum í Reykjavík fyrir að mennta mig í útdauðum prentfræðum.

Ýmislegt gagnlegt hefur safnast í sarpinn á þeim 45 árum sem liðin eru frá því ég settist fyrst við ritvél á ritstjórn Alþýðublaðsins.

Enn eru kartöflur teknar upp í Oddsparti í Þykkvabæ en við allt aðrar aðstæður en áður. Starfsumgjörð Yngva bónda Markússonar heyrir sögunni til líkt og Alþýðublaðið og ritvélin.