Freyr Sigurjónsson kom fram á heimavelli í síðasta sinn sem liðsmaður Sinfóníuhljómsveitar Bilbao í Baskalandi á Spáni í tónleikahöll borgarinnar föstudagskvöldið 10. mars 2023. Hann hafði þá verið fyrsti þverflautuleikari sveitarinnar í liðlega fjóra áratugi eða frá því listrænir stjórnendur hennar heyrðu hann spila í Manchester eftir útskrift frá Royal Northern College of Music á árinu 1982. Freyr var ráðinn á staðnum og stundinni og hefur búið og starfað í Bilbao síðan þá

Ég fékk þá flugu í höfuðið að gerast fluga á vegg í tónleikahöll Bilbao og fylgjast með því framan við tjöldin og á bak við þau þegar slík tímamót yrðu hjá tónlistarmanni og hljómsveitinni hans eftir öll þessi samstarfsár. Stjórnendur ytra samþykktu erindið umsvifalaust og mér var úthlutað aðgangskorti sem gerði mögulegt að valsa um mestallt húsið, fylgjast með æfingu að morgni dags 9. mars og vera á áskriftartónleikum þá um kvöldið og öðrum eins að kvöldi 10. mars.

Þetta þáði ég allt með þökkum, gamall rokkhundur með afar takmarkaða þekkingu á klassískri tónlist en talsverða þjálfun í að hlýða á þverflautuleik sem staðfastur aðdáandi Ian Andersons og Jethro Tull um áratuga skeið.

Ég hlustaði með öðrum orðum á heila tónleikadagskrá sinfóníunnar í Bilbao þrisvar sinnum á hálfum öðrum sólarhring! Annars vegar það konsert fyrir píanó og hljómsveit eftir Spánverjann Gabríel Erkoreka, fæddan 1969. Hins vegar sinfónía nr. 9 eftir Austurríkismanninn Anton Bruckner  (1824-1896).

Tónverkin eru ólík en reyndust bæði ljómandi notaleg á að hlýða. Það staðfestir rokkhundur fúslega og einlæglega. Sérstaklega lagði ég auðvitað við hlustir þegar Freyr og flautan höfðu völdin á sviðinu. Ég viðurkenni strax að tónarnir hans eru fágaðri og mun tilfinningaríkari en hjá Anderson í Tull.

Erik stjórnandi saknar Freys sárlega

Sinfóníuhljómsveit Bilbao fagnaði aldarafmæli fyrir ári síðan, nánar tiltekið 8. mars 2022. Afmælisveislan stóð yfir í heilt ár. Lokatónleikar Freys 10. mars mörkuðu þannig lok tónleikaraðar í tilefni 100 ára afmælis sveitarinnar. Konsert Gabríels Erkoreka var sérstaklega saminn fyrir hljómsveitina í tilefni aldarafmælisins og frumfluttur á þessum tvennum tónleikunum sem ég sótti.

Tónskáldið var viðstatt bæði kvöldin og kallað á svið að flutningi loknum en engin blóm afhent og ekkert gert til að skapa viðburðinum verðskuldaða umgjörð. Gestir í sal á fyrri tónleikunum, áskrifendur og bakhjarlar hljómsveitarinnar, fengu heldur ekki að vita að tvo liðsmenn sveitarinnar sæju þeir á sviðinu og hlýddu á leik þeirra þar í síðasta sinn. Þá á ég við Frey þverflautuleikara og fagottleikarann Malcom Wright, Englending sem hóf störf í hljómsveitinni um sama leyti og Freyr árið 1982.

Ég hefði nú sem kynningarstjóri sinfóníuhljómsveitarinnar heiðrað Erkoreka, Malcom og Frey þarna en það var ekki gert. Undarlegt og slappt.

Sagan endurtók sig að hluta á föstudagstónleikunum. Erkoreka var kallaður á svið og fékk klapp en engin blóm. Hins vegar voru Freyr og Malcom kvaddir með virktum og blómum að loknum flutningi á sinfóníu Bruckners. Freyr átti síðasta tón verksins, langan og hreinan með flautunni. Svo kom þögn í nokkrar sekúndur og síðan tóku liðsmenn hljómsveitarinnar að stappa niður fótum. Tár runnu og sumir áttu erfitt. Upp var runnin  afar tilfinningarík kveðjustund.

Ráðinn hefur verið nýr fyrsti þverflautuleikari en skarð Freys verður ekki fyllt. Það sögðu mér aðrir hljóðfæraleikarar,  einkum og sér í lagi úr blásaradeild hennar. Sama má reyndar lesa úr ummælum Eriks Nielsens, stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Bilbao. Ég hélt reyndar að sá væri danskur en hann reyndist vera Bandaríkjamaður með danskar rætur í föðurætt. Amma hans flutti á barnsaldri frá Jótlandi til Bandaríkjanna og bróderaði kveðjuna mange tak í viskastykkin sín.

Erik er sérlega geðþekkur náungi. Ég brá á loft upptökutæki baka til að leik loknum og bað hann um að lýsa samstarfi við Frey flautuleikara. Stjórnandinn svaraði að bragði.

„Ég hef þekkt Frey frá árinu 2015 og notið þess mjög að vinna með honum. Hann veiktist alvarlega af krabbameini í hálsi árið 2018 og ég sagði þá: Ef þú nærð heilsu á nýjan leik, og getur haldið áfram að starfa með okkur, heiti ég því að setja á efnisskrá hljómsveitarinnar flautukonsertinn sem Jón Ásgeirsson tónskáld samdi fyrir þig á sínum tíma. Freyr sigraðist á sjúkdómnum og ég stóð við loforðið.

Freyr er einstakur samstarfsmaður, mjög fær hljóðfæraleikari, kröfuharður og leiðtogi í sér, bæði á sviði tónlistar og mannlegra samskipta. Þannig fólk er verðmætt og þannig tónlistarmenn viljum við hafa í hljómsveitinni.

Ég mun sakna hans sárlega og vildi alls ekki missa hann frá okkur. Hann hefur verið í hljómsveitinni áratugum saman og spilar enn eins og hann væri 25 ára! Hann hefur mikla orku, rétt hugarfar, bros á vör og leikur stórkostlega á þverflautuna. Íþróttamenn gefa eftir með aldrinum og það er eðlilegt. Margir tónlistarmenn gefa líka eftir með aldrinum, sem er líka eðlilegt. Freyr gefur hins vegar ekkert eftir.

Ég vona að Íslendingar og aðrir fái að njóta flautuleiks Freys í  enn meira mæli hér eftir en hingað til. Ég hef lofað honum því að koma í Listasafn Sigurjóns Ólafssonar í Reykjavík og heilsa upp á hann þar á heimavelli. Í augnablikinu er mér hins vegar efst í huga hve erfitt það er að sætta sig við að hann hætti í hljómsveitinni.“

Fjallað um herskipasmið og þverflautuleikara

Freyr er sonur Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara (1908-1982) og kjarnakonunnar Birgittu Spur. Móðir hans og fjölskyldan annast listasafnið sem kennt er við Sigurjón á Laugarnestanga í Reykjavík. Þegar nú Freyr er orðinn flautuleikari á eftirlaunum ætlar hann að dvelja á Íslandi í allt sumar. Hann hefur ekki verið samfellt svo lengi á heimaslóðum í nær hálfa öld eða frá því hann hleypti heimdraganum til framhaldsnáms í tónlist erlendis.

Ég hitti Frey fyrst í Bilbao fyrir þó nokkrum árum og gerðist honum málkunnugur. Leiðir okkar lágu saman í Reykjavík sumarið 2022 og í spjalli þá áttaði ég mig á því að maðurinn væri ákjósanlegt og áhugavert viðtalsefni en ekki dygði annað en að heimsækja hann á Spáni til að ljúka verkefninu. Ég fór utan í nóvember og úr varð portrettviðtal sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 8. janúar 2023. Og þegar við blasti að Freyr myndi koma fram í tónleikahöllinni í síðasta sinn 10. mars í ár var óhjákvæmilegt annað en bregða sér aftur af bæ og upplifa þá stund með honum. Morgunblaðið birti afrakstur þeirrar ferðar 16. mars 2023. Þetta má allt sjá og lesa hér neðar í skjalinu.

Það sem gerði Frey að spennandi viðfangsefni var auðvitað æviferillinn og tónlistarstarfsemin heima og heiman. En svo kom á daginn, sem ég ekki vissi og reyndar fæstir af félögum hans í sinfóníuhljómsveitinni, að hann hefur í mörg ár dundað sér við það í frístundum að smíða líkan af herskipum sem Spánverjar, Danir og Englendingar gerðu út til að taka þátt í sögufrægum sjóorrustum!

Ævintýri líkast var að koma til hans á smíðaverkstæðið – skipasmíðastöðina hans – og sjá með eigin augum þessa ótrúlega flottu smíðisgripi. Handlaginn er hann með flautuna sína en greinilega ekki síður og kannski enn frekar með smíðaverkfæri í hönd. Örsmáir hlutar skipanna eru smíðaðir og þeim komið fyrir á sínum stöðum ofan eða neðan þilja.

Öllu er haldið til haga og nostrað við kapellu áhafnar ekkert síður en við vopnalagerinn og rommtunnurnar. Það tekur nokkur ár að smíða heilt herskip með rá, reiða og fallbyssum.

Baráttan við krabbameinið

Freyr greindist með krabbamein í hálsi á árinu 2018, sem að sjálfsögðu var mikið áfall í öllum skilningi. Hann hafnaði því að láta skera í meinið heldur lét reyna á stranga lyfjameðferð. Hann óttaðist það að skurðaðgerð myndi hafa þær afleiðingar að ferli í flautuleik lyki þótt tækist að fjarlægja sjálft meinið. Hann tók áhættu og vogun vinnur eða vogun tapar. Aldrei jafntefli í slíkum leik. Vogun vann sem betur fer í þetta sinn.

Áður en krabbameinið greindist hafði verið ákveðið að Freyr myndi spila með Sinfóníuhljómsveit Íslands flautukonsert sem Jón Ásgeirsson tónskáld samdi sérstaklega fyrir hann um aldamótin. Jón þráði að heyra Frey leika verkið í Reykjavík og Freyr þráði að fá að spila fyrir vin sinn og lærimeistara, tónskáldið. Jón hafði beðið í 19 ár eftir að fá þessa ósk sína uppfyllta. Þegar loksins kom að því, í tilefni níræðisafmælis Jóns (sem reyndar var ári áður), veiktist Freyr. Hann hafði strax samband við Sinfóníuhljómsveit Íslands, lagði spil sín á borðið og óskaði eftir því að flutningnum yrði frestað. Viðbrögðin komu á óvart svo vægt sé nú til orða tekið. Sá sem réði ferðinni af hálfu hljómsveitarinnar var ófáanlegur til að breyta neinu og réði staðgengil til að leika á flautuna á tónleikunum. Slík viðbrögð voru og eru hvorki mannleg, afsakanleg né skýranleg af neinu viti.

Félagar Freys í Sinfóníuhljómsveit Bilbao sýndu honum hins vegar bæði virðingu og stuðning á erfiðum tímum. Þeir buðust til að taka upp flautukonsertinn og gerðu það án þess að taka svo mikið sem eina evru fyrir. Freyr spilaði á flautuna sína þjáður og illa haldinn á ströngum lyfjakúr. Þegar hann svo mætti á ný til starfa stóð Erik Nielsen við loforðið og setti flautukonsert Jóns Ásgeirssonar á dagskrá sveitarinnar í Bilbao. Viðburðurinn var kynntur rækilega og um hann fjallað.

Enn þann dag í dag hefur Freyr ekki leikið konsertinn sinn opinberlega á Íslandi. Hann dreymir hins vegar um að taka verkið upp á nýjan leik hérlendis, hress og frískur.

Kveðjustund í tónleikahöllinni

Svo barst leikurinn á veitingahús

Á bak við tjöldin í konserthöllinni – upphitun og skraf

Hljómsveitin og tónleikarnir

Allar myndir á Flickr

IMG_7499 copy

Lokaæfing Freys í tónlistarhöllinni – hljóðdæmi úr konsert Antons Bruckner