Ægir Ólafsson lengst til vinstri og Atli Rúnar Halldórsson lengst til hægri með þeim sem fengu í heiðursskyni fyrstu bækurnar í útgáfuhófinu mikla. Frá vinstri: Guðný Ágústsdóttir, Aðalsteinn G. Friðþjófsson, Jón Jónsson – Onni, Gunnar Sigvaldason, Svavar B. Magnússon og Sigríður Ingvarsdóttir.

Viðbrögð lesenda við bókinni um Sjómannafélag Ólafsfjarðar gleðja og ylja okkur sem að verkefninu stöndum. Skemmtilegustu athugasemdirnar eru eitthvað á þessa leið:

Bókin er allt öðru vísi en við bjuggumst við að fá í hendur. Við höfum lesið hana alla á okkar heimili og höfðum gaman af.
Gerðum allt eins ráð fyrir að hún færi beint upp í hillu lítið eða ekki lesin eins og oft vill verða með sögur félaga og fyrirtækja sem oftar en ekki eru frekar þurr lesning og líflítil. Þessi iðar hins vegar af lífi og er bæði fróðleg, léttlesin og áhugaverð!

Ægir Ólafsson, formaður Sjómannafélags Ólafsfjarðar, segir frá því í formála að hann hafi fengið umboð stjórnar sinnar til að fá mann til að skrifa og gefa út átta síðna blað í brotinu A4 til að dreifa í hús í Ólafsfirði um sjómannadagshelgina 2023 í tilefni af fertugsafmæli félagsins í janúar 2023. Hann bar hugmyndina upp við Atla Rúnar Halldórsson, blaðamann, rithöfund og bekkjarbróður sinn í Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar á öldinni sem leið.

Atli Rúnar tók vel í erindið en hóf fyrsta fund um verkið á því að rífa í tætlur riss á blöðum sem Ægir lagði fyrir hann og  leggja til að gefin yrði út bók en enginn blaðsnepill! Stjórn Sjómannafélagsins tók hann á orðinu en vék samt aldrei frá upphaflegri hugmynd um að dreifa bókinni ókeypis í hús í Ólafsfirði.

Útgáfuteiti var í Tjarnarborg 2. júní og strax á eftir gengu félagsmenn í hús í bænum og bókarhöfundur reyndar með þeim og afhentu bækur. Ólafsfirðingar voru í senn hissa og þakklátir þegar þeir tóku við bók sem reyndist í hæsta máta veglegur og vandaður prentgripur.

Svarfdælasýsl forlag sf. sá um útgáfuna að öllu leyti í samstarfi við Sjómannafélag Ólafsfjarðar. Forlagið er hvorki stórt né fjölmennt en áhrif þess eru samt meiri en ætla mætti ef horft er til umfangs starfsemina,  rétt eins og segja má með sanni um Sjómannafélagið!

Myndir sem Guðný Ágústsdóttir tók í útgáfuhófinu í Tjarnarborg

Um Svarfdælasýsl forlag

Forlagið er í eigu Atla Rúnars og systkina hans frá Jarðbrú í Svarfaðardal – Jóns Baldvins, Helga Más, Óskars Þórs, Jóhanns Ólafs og Ingu Dóru Halldórs- og Ingibjargarbarna.

Útgáfubækur:

  • Svarfdælasýsl. Söguþættir úr Svarfaðardal. Höfundar: Óskar Þór og Atli Rúnar.
  • Undir kelduna. Sagan um Hvalfjarðargöng 1987-2019. Höfundur: Atli Rúnar.
  • Lífshlaup athafnamanns. Saga Péturs Péturssonar alþingismanns og athafnamanns. Höfundur: Magnús Pétursson.
  • Beckmann. Líf og list Wilhelms Ernst Beckmanns, þýsks útskurðarmeistara sem flýði ofsóknir Hitlers og leitaði skjóls á Íslandi. Ritstjórn og umsjón: Atli Rúnar. Bókin er kveikja að heimildamynd um Beckmann sem væntanlega verður sýnd RÚV og í sjónvarpi í Þýskalandi síðar á síðari hluta árs 2023.
  • Flýgur tvítug fiskisaga. Fiskidagurinn mikli 2001-2020. Höfundur Atli Rúnar.
  • Hittumst á Horninu. Sagan um Hornið í Reykjavík, fyrsta eiginlega ítalska veitingastaðinn á landinu. Höfundur: Atli Rúnar.
  • Sjávarplássið Dalvík. Höfundur Jóhann Antonsson.
  • Kennari og vegagerðarmaður á Húsavík lítur um öxl. Æviminningar Jóhannesar Guðmundssonar. Ritstjóri og umsjón: Atli Rúnar.
  • Fullveldisróður í 40 ár. Sjómannafélag Ólafsfjarðar 1983-2023.

Annað útgáfuefni Atla Rúnars

  • Gísli á Hofi vakir enn. Ævisaga Gísla Pálssonar á Hofi í Vatnsdal. Meðhöfundur Jóns Torfasonar og umsjón með útgáfu. Bókaútgáfan á Hofi.
  • Orkubrunnur á Austurlandi. Saga Kárahnjúkavirkjunar. Útgefandi: Landsvirkjun.
  • Framfarir í 50 ár. Saga verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækisins Mannvits. Útgefandi: Mannvit.
  • Sjötug og síung. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum 1946-2016. Útgefandi: Vinnslustöðin.
  • Tjarnarkvartettinn – sagan öll frá 1989 til 2000. Birt á vefnum svarfdaelasysl.com.
  • 60 ár frá mannskaðaflóðinu á Auðnum í Svarfaðardal. Birt á vefnum svarfdaelasysl.com,
  • Harmafregn frá Hjaltastöðum í Skíðadal á Þorláksmessu 1955. Birt á vegnum svarfdaelasysl.com.
  • 60 ár frá því Helgi á Másstöðum í Skíðadal fórst í snjóflóði. Birt á vefnum svarfdaelasysl.com.