Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623
Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624
„Ég fór aldrei út í lífið með það hugarfar að ég yrði mestur og bestur, frægur maður og ofurlaunaður. Lífið hefur leikið við mig að mestu leyti, ég er sáttur við æfina og starfsferilinn.“
Guðmundur H. Garðarsson brosir sannfærandi um leið og hann sleppir orðinu. Hann hefur mestan áhuga á því að sýna gesti sínum tilkomumið útsýni úr sólskálanum sínum á Hrafnistu í Hafnarfirði. Þar blasir hraunjaðarinn við hið næsta húsinu og svo höfnin og bærinn sem hann fæddist og ólst upp í.
Hafnarfjörður var þá eitt helsta vígi Alþýðuflokksins á landinu en Guðmundur fór í hina áttina pólitískt. Hann gerðist liðsmaður Sjálfstæðisflokks og hefur verið íhaldsmegin í stjórnmálatilverunni alla tíð.
Nýútkomin er ævisaga Guðmundar, Maður nýrra tíma, eftir Björn Jón Bragason. Í bókarkynningu segir meðal annars að Guðmundur hafi kynnt sér kornungur lífeyrismál í Bretlandi og barist fyrir umbótum á því sviði hérlendis.
Frakkaklæddur í átökum við Alþingishúsið
„Kratar og kommar í Hafnarfirði höfðu þann þroska að útiloka ekki sjálfstæðismenn frá því að vera virkir í verkalýðsbaráttu og sitja í stjórn Verkamannafélagsins Hlífar. Ég vandist því að umgangast þá eins og annað fólk. Svo hörðnuðu átök fylkinga til hægri og vinstri í aðdraganda þess að Íslendingar gengu í Atlantshafsbandalagið.
Óeirðadagurinn á Austurvelli 30. mars 1949 réði úrslitum hjá mér. Ég tók mér stöðu í sparifrakkanum framan við Alþingishúsið til að verja það árásum kommúnista og herskárra fylgismanna þeirra sem létu fúleggjum og eplum rigna yfir okkur.“
Guðmundur H. var í Verslunarskólanum þegar NATO-slagurinn átti sér stað. Hann útskrifaðist þaðan vorið 1950 og sömuleiðis unnasta hans og síðar eiginkona, Ragnheiður Guðrún Ásgeirsdóttir, dótturdóttir Hannesar Hafsteins alþingismanns og ráðherra. Hún féll frá 2008.
Guðmundur lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, fór í framhaldsnám í hagfræði í Kiel í Þýskalandi og enn síðar nam hann markaðsfræði í Harvard háskóla í Bandaríkjunum. Á milli námstarna austan og vestan Atlantshafs stundaði hann nám í endurtryggingum hjá Lloyds í Lundúnum.
Fyrir Guðmundi átti að liggja að sitja á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem kjörinn þingmaður Reykvíkinga eða landskjörinn árum saman. Helsti starfsvettvangurinn var samt Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í 26 ár samfellt og hann segir það hafa verið mikið gæfuspor að fá boð um starf í SH. Svo leið vel honum á Sölumiðstöðinni að hann tímdi ekki segja þar upp til að taka boði um starf í General Foods, stærsta matvælarisa Bandaríkjanna á sínum tíma.
Snemma varð hann virkur í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur, var kjörinn þar formaður og tók í framhaldinu sæti í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og Alþýðusambands Evrópu.
Búðarlokur á Iðnófundi
Sverrir Hermannsson, síðar alþingismaður og ráðherra Sjálfstæðisflokks, var formaður Landssambands verslunarmanna á sama tíma og Guðmundur H. gegndi formennsku í VR.
„Við Sverrir mættum einu sinni á verkalýðsfund í Iðnó og kona þar á bekk sagði eitthvað sem hvorugur okkar heyrði almennilega. Sverrir staldraði við og kváði. „Hvað erindi eigið þið hingað, þessar búðarlokur?“ spurði þá konan út í salinn!
Það var litið á okkur sem sendiboða íhaldsins í verkalýðshreyfingunni og auðvitað mátti til sanns vegar færa að Sjálfstæðisflokkurinn hafði mikil ítök í hreyfingu verslunarmanna innan Alþýðusambandsins.
Ég ætlaði aldrei að verða formaður í VR og hafnaði því fyrst þegar slíkt bar á góma. Það leið ekki langur tími þar til ég stóð á ný frammi fyrir áskorun um að taka að mér formennskuna. Þá bankaði Birgir Kjaran alþingismaður upp á hjá mér og sagði við: „Nú þýðir ekkert að segja nei, Ólafur [Thors] og Bjarni [Benediktsson] biðja að heilsa þér!“
Í framhaldinu tók ég þátt í að koma VR inn í Alþýðusambandið. Kommarnir voru á móti því en höfðu ekki sitt fram. Forysta Sjálfstæðisflokksins studdi okkur.“
Stuðningsmaður Lúðvíks í 50 mílunum
„Frjálslyndur já, sjálfstæðismaður já. Ég rakst samt aldrei vel í Sjálfstæðisflokknum og fékk stundum að gjalda fyrir það. Þegar ríkisstjórn Íslands ákvað í febrúar 1972 að færa fiskveiðilögsöguna út í 50 sjómílur var Alþýðubandalagsmaðurinn Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu. Lúðvík var eldklár og glúrinn og ég kynntist honum vel sem varamanni í stjórn Sölumiðstöðvarinnar.
Flokkurinn minn hikstaði og studdi ekki útfærslu lögsögunnar. Ég sagðist hins vegar styðja Lúðvík og gerði það af heilum hug. Þá var ég kominn í miðstjórn Alþýðusambandsins og í miðstjórn Alþýðusambands Evrópu líka þar sem var greið leið að mörgum helstu valda- og áhrifamönnum álfunnar. Jafnaðarmenn voru í ríkisstjórnum víða í Evrópu og alþýðusamböndum líka. Stjórnmálaforingjarnir urðu að reiða sig á stuðning verkalýðsforystunnar heima fyrir og með því að tala við verkalýðsleiðtoga kratanna var hægt að senda skilaboð beint í stjórnarráðin. Þetta gerði ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Persónuleg sambönd skipta alltaf miklu máli.
Í október 1975 færðu Íslendingar fiskveiðilögsöguna í 200 sjómílur og Bretar sendu herskip á Íslandsmið til stuðnings togurunum sínum. Flokksbróðir minn Matthías Bjarnason var sjávarútvegsráðherra og þingflokkurinn valdi mig með honum í samninganefnd til að ræða við fulltrúa breskra og þýskra stjórnvalda um milliríkjadeiluna sem hlaupin var í mikla hörku.
Hnúturinn leystist fyrir milligöngu utanríkisráðherra Noregs, Knuts Frydenlunds. Samningadagarnir í Osló gleymast ekki og heldur ekki atvik á Fornebu-flugvelli í Osló þegar íslenska sendinefndin kom þangað. Odvar Nordli forsætisráðherra var mættur til að taka á móti okkur og byrjaði á því að faðma mig hraustlega áður en hann heilsaði Matthíasi Bjarnasyni, formanni samninganefndarinar, með handabandi.
Matthías varð alveg bit og greinilega ekki sáttur við þessa forgangsröð norska forsætisráðherrans. Matti karlinn hafði ekki hugmynd um að við Odvar Nordli vorum nánir vinir og höfðum meðal annars ferðast saman þvert yfir Bandaríkin!“
Einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn
Guðmundur H. Garðarsson sat í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna um árabil og var formaður stjórnar um skeið. Hann flutti síðar á Alþingi þingmál um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn en fékk lítinn sem engan hljómgrunn fyrir því á löggjafarsamkomunni. Í þingræðu í nóvember 1986 sagði hann meðal annars:
„Ef við ætlum að stofna, sem við stefnum að, lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn verðum við að gera okkur grein fyrir eftirfarandi atriðum: Í fyrsta lagi: Á að vera um að ræða svokallað gegnumstreymiskerfi? Í öðru lagi: Á að vera um að ræða uppsöfnunarkerfi? Í þriðja lagi: Á að vera um að ræða sambland af uppsöfnun og gegnumstreymi?
Þá kæmi einnig til greina, sem ég held að hljóti að verða næst í umræðunni, fjórða leiðin. Það er uppsöfnun sem er óhjákvæmileg á næstu árum vegna þeirrar löggjafar sem hæstvirtir alþingismenn hafa verið að samþykkja í sambandi við íbúðamál þjóðarinnar. Þeir eru raunverulega búnir að festa þá svokölluðu uppsöfnun sem verkalýðshreyfingin framkvæmir með sínum lífeyrissjóðum.
Þá held ég að fjórða leiðin hljóti að vera nærtækust, en það er ákveðin uppsöfnun plús grundvallarendurskoðun á almannatryggingakerfinu þannig að um væri að ræða að hluta til gegnumstreymi í sambandi við endurskoðun þess tryggingakerfis sem við stefnum að á næstu árum. En niðurstaðan hlýtur að verða fyrr en síðar eitt heildarkerfi á nýjum sameinuðum grundvelli.“
Guðmundur er enn þeirrar skoðunar að rétt hefði verið að sameina alla lífeyrissjóði í einn. Hann blæs á þær röksemdir að nauðsynlegt sé að hafa fleiri lífeyrissjóði til að tryggja samkeppni en horfir sem fyrrverandi nemandi og starfsmaður í endurtryggingarfræðum í Lundúnum frekar á nauðsyn þess að tryggja eignir sjóðfélaga sem allra best í einum firnasterkum lífeyrissjóði frekar en mörgum misjafnlega sterkbyggðum eða veikburða eftir atvikum.
„Í fyrstu atrennu fékk enginn á Alþingi til að gerast meðflutningsmaður minn og málið dagaði uppi án verulegrar umræðu. Þegar ég endurflutti málið var það með stuðningi tveggja félaga minna, Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Guðmundar Karlssonar frá Vestmannaeyjum. Umræður þá voru öllu meiri en fyrr og ég minnist þess að Jóhann Hafstein var jákvæður. Málið var svæft í nefnd.
Þegar ég horfi yfir sviðið núna má segja að íslenskir lífeyrissjóðir séu í lagi í stórum dráttum. Á sínum tíma töldu Bjarni Ben eldri og Jóhannes Nordal að lífeyrissjóðir ættu ekki að eiga meira en 10% hlut í fyrirtækjum en nú eiga þeir víða miklu meira og bera auðvitað ábyrgðina þegar eignarhaldið fer yfir helming. Það er ekki skynsamlegt.
Sumir lífeyrissjóðir eru hreinlega of litlir til að vera til! Við verðum að gera ráð fyrir því að eignir tapist og reikna bókstaflega með því. Menn fá aldrei allt til baka og þá er gott að hafa stóra öfluga lífeyrissjóði, helst einn stóran fyrir landsmenn alla, til að taka höggin.
Ætli þeir sem stýra lífeyrissjóðum hafi heyrt getið um hugtakið „tapáhættustuðul“ sem við lærðum um í endurtryggingarnáminu hjá Lloyds forðum daga?
Prófaðu að spyrja! Ætli þú fáir ekki svarið „Tapáhættu … hvað?“
Frjálst útvarp og sláturtíð í prófkjöri
Guðmundi H. Garðarssyni gekk sem sagt ekkert að fækka lífeyrissjóðum landsins alveg niður í einn. Honum varð mun meira ágengt með annað umdeilt áhugamál og það var að afnema einkarétt ríkisins til ljósvakafjölmiðlunar, mál sem gjarnan var kennt við „frjálst útvarp“. Hann lagði fyrst fram frumvarp til laga um á málið á Alþingi 1976 en var svo langt úti á kanti í hugmyndum sínum að frumvarpið var svæft í nefnd og ekki tekið til atkvæða. Hann gafst ekki upp og endurflutti málið oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.
Brátt tók fylgi við hugmyndina að aukast innan Alþingis og utan þess. Árið 1985 var einkaréttur Ríkisútvarpsins til útsendinga afnuminn en lögfest tök þess sem áskriftarmiðils á auglýsingamarkaði setja hins vegar starfsemi einkarekinna ljósvakamiðla skorður áfram.
Guðmundur hætti á Alþingi eftir þingkosningarnar 1991 en gaf samt kost á sér til setu í eitt kjörtímabil í viðbót.
„Mér hefndist fyrir að vilja ekki lána lífeyrissjóðspeninga í Almenna bókafélagið sem ég taldi þá í vonlausri stöðu og gjaldþrota í raun. Afstaða mín var lögð út á versta veg og notuð til að slátra mér í prófkjöri.*
Sárt var að tapa en eftir á að hyggja var ég margfalt sáttari við að missa þingsætið en að láta hafa mig í að ausa eignum sjóðfélaga okkar í þrotabú.“
*Hef rökstuddan grun um að þetta skuli lesist svo að Davíð O og Björn B hafi komið hér við sögu hefndaraðgerða … -arh
Texti & myndir: Atli Rúnar Halldórsson
Birtist fyrst á vefnum Lífeyrismál.is