Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623
Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624
Breki VE og Páll Pálsson ÍS eru komnir út á Miðjarðarhaf eftir siglingu um Súesskurð sem gekk út af fyrir sig vel en reyndi verulega á mannskapinn. Það þurfti að deila út Malboro-sígarettum hægri, vinstri til að komast klakklaust frá Asíu til Evrópu.
„Erfiðasti farartálminn er að baki, nú erum við komnir í evrópskt veðurfar og evrópskt umhverfi í öllum skilningi. Við stefnum á Möltu og áætlum að koma þangað að morgni þriðjudags 24. apríl. Við eigum þriðjung leiðarinnar eftir. Núna eru nákvæmlega 3.360 sjómílur til Vestmannaeyja af alls 11.300 mílna siglingarleið frá Kína til Íslands,“ sagði Magnús Ríkarðsson skipstjóri á Breka á vaktinni snemma að morgni laugardags að íslenskum tíma.
Skipið var þá í 15-16 metrum á sekúndu og vindgáru á sjó, lofthiti 20 gráður og sjávarhiti 19 gráður.
Breki og Páll Pálsson sigldu um kvöldmatarleytið í gær frá hafnarborginni Port Saíd á Miðjarðarhafsströnd Egyptalands við norðurenda Súeseiðis. Að baki var sigling um 163 km langan Súesskurðinn, þetta stórmerkilega mannvirki sem tengir saman Rauðahaf og Miðjarðarhaf Skurðurinn var grafinn upphaflega á tíu árum á nítjándu öld, frá 1859 til 1869, en oft hefur verið stækkaður og bættur verulega síðan þá.
Þarna er gríðarleg og linnulaus skipaumferð og yfirþyrmandi spilling í egypska kerfinu. Alls staðar þarf að „smyrja“ og það helst með Malboro-sígarettum. Magnús skipstjóri og félagar kynntust mörgum ágengum Malboromönnum á ferð um skurðinn.
„Svona nokkuð er mjög óþægilegt og auðvitað algjörlega framandi fyrir okkur að upplifa. Lóðsar, lóðsbátar og yfirleitt allir sem við þurftum að hafa samskipti við vildu Malboro-karton í vasann til að við fengjum að halda áfram óáreittir. Stærsti skammturinn á einum stað var 15 sígarettukarton. Ella var okkur hótað 6.000 til 7.000 dollara sekt fyrir að standast ekki kröfur sem auðvitað voru tilbúnar.
Meira að segja læknir, sem gaf út heilbrigðisvottorð, afgreiddi málið ekki nema gegn Malboo. Þegar hann hafði fengið kartonin sín máttum við flagga að allt væri í stakasta lagi í heilbrigðismálum um borð!
Malboro-faraldurinn hófst á Sri Lanka og magnaðist í Súesskurðinum. Við afhentum að minnsta kosti 50 karton til að komast gegnum Súeseiðið.
Þetta innheimtukerfi Egyptanna er skrautlegt en þegar við komum við Möltu vænti ég þess að komast í viðskiptaumhverfi sem er þægilegra og kunnuglegra!“
Sigling um Súesskurð er ævintýri út af fyrir sig, hvernig sem á er litið. Umferðin er gífurlega mikil og taugar skipstjórnarmanna þandar að vonum á köflum.
„Við fórum inn í skurðinn sunnan frá í myrkri og það reyndi á. Sumir lóðsarnir voru beinlínis leiðinlegir í umgengni. Það er ekki þægilegt en nú er þessi kafli að baki. Við teljum niður á síðasta þriðjungi heimferðar.“
Ljósmyndir frá siglingu um Súesskurð: Finnur Kristinsson