Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623
Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624
„Mál skipuðust þannig að ég söðlaði um á vinnumarkaði og það oftar en einu sinni. Ég kann afskaplega vel við að starfa utan dyra, fá hreint loft í lungun og hreyfingu fyrir kroppinn. Hjá Hafnareyri er gott að vera í góðum félagsskap og nóg við að vera.“
Hjálmar Jónsson, nemi í húsasmíði og starfsmaður Hafnareyrar, gaf sér tæplega tíma líta upp þar sem hann kepptist ásamt félögum sínum við að skipta um klæðningu utanhúss á eldri hluta Kleifarfrosts, frystigeymslu Vinnslustöðvarinnar á Eiði.
Já, það er víst ekki of sterkt að orði kveðið að talað er um að kappinn sá hafi söðlað um starfsferli sínum!
Hjálmar er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur. Hann fór suður til framhaldsnáms en flutti á heimaslóðir mörgum árum síðar og birtist þá í allt öðrum hlutverkum en upphaflega var stofnað til.
Endurnýjun húss varð örlagavaldur
„Ég flutti til Reykjavíkur 23 ára gamall til að læra viðskiptafræði í Háskóla Íslands, útskrifaðist í greininni og vann eftir það hjá Kaupþingi í átta ár að undanskildu einu ári þegar ég dvaldi í Skotlandi og lauk meistaraprófi í fjármálum.
Að því búnu vann ég um hríð við endurskoðun í Arion banka í Reykjavík en ákvað þá að venda kvæði mínu í kross og gerast framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV heima í Vestmannaeyjum.“
Hjálmar starfaði hjá ÍBV í um þrjú ár en tók jafnframt í gegn gamalt hús sem hann keypti hér í Eyjum og naut við það aðstoðar og leiðsagnar föður síns sem er húsasmiður. Endurnýjun hússins reyndist örlagavaldur.
Hjálmar og Marsi samferða frá Eykt til Hafnareyrar
„Neisti kviknaði þarna því ég fann fljótt að smíðar áttu vel við mig. Þegar verktakafyrirtækið Eykt auglýsti eftir starfsmönnum í verkefni fyrir Vinnslustöðina sótti ég um og fékk vinnu sem átti að vara í sex mánuði en reyndust verða nær þrjú ár. Ég var eini heimamaðurinn í hópnum og þar var líka Marsi, Pólverji sem bjó í Eyjum og býr enn. Eyktarmenn unnu í tíu daga í beit og tóku sér svo fjögurra daga frí. Við Marsi vildum ekki sitja aðgerðarlausir hér alla þessa frídaga og svo fór að okkur var trúað fyrir verkum til að fylla í eyðurnar með tilheyrandi ábyrgð.
Svo fór að við Marsi fórum að vinna sjálfstætt fyrst eftir að verkefnum Eyktar lauk í Eyjum snemma árs 2019 og starfsmenn fyrirtækisins hurfu á braut. Eitt leiddi af öðru og við gerðumst fljótlega starfsmenn Hafnareyrar, báðir tveir, og ég var þá orðinn nemi í húsasmíði.“
Pyþagórasarreglan reyndist aldeilis ekki fánýt
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum auglýsti smíðanám og Hjálmari fannst liggja beint við að skrá sig þar. Bóknámshlutinn var honum líka auðveldur eftir að hafa lokið stúdentsprófi og útskrifast sem viðskiptafræðingur og fjármálameistari úr háskólum.
Fyrsta húsasmíðanámskeiðið var í Eyjum en eftir það tók við fjarnám í samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki.
„Þetta gengur ágætlega, enda er ég einn í heimili, laus og liðugur og hef ekki annað við tímann að gera en að vinna og læra! Viðskiptafræði og fjármálafræði nýtast mér kannski ekki beinlínis í húsasmíði en allt nám, reynsla og þekking gagnast yfirleitt fólki á einhvern hátt í lífinu.
Fyrir margt löngu lærði ég til dæmis Pyþagórasarregluna í rúmfræði sem fjallar um tengsl milli lengdar hliða í rétthyrndum þríhyrningi. Ég man vel að ég hugsaði þá hve fánýtt það nú væri að læra forngrískar reiknikúnstir, þetta myndi ég aldrei nota.
Viti menn, þegar við pabbi vorum að gera upp húsið mitt forðum kom sér vel að geta gripið til reglu Pyþagórasar. Hún kom sér vel eftir allt saman.“
Félagarnir hjá Hafnareyri sem klæddu Kleifarfrost að utan. Frá vinstri: Ágúst Ingi Jónsson, Marsin hinn pólski, Hjálmar Jónsson og Egill Arngrímsson.