Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623
Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624
Vinnslustöðin frystir með blæstri og horfir til Asíu
Óhætt er að segja að Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum hafi tekið nýtt uppsjávarfrystihús í gagnið með stæl laugardaginn 15. október. Yfir 400 manns skoðuðu húsið og kynntu sér starfsemina, bæði heimamenn og boðsgestir að sunnan.
Um kvöldið var fjölmennasta árshátíð Vinnslustöðvarinnar í sögu félagsins og það á merku afmælisári því 30. desember 2016 verða nákvæmlega 70 ár liðin frá stofnun þess.
Uppsjávarhúsið sætir tíðindum í íslenskum sjávarútvegi því það er hið fyrsta sinnar tegundar hérlendis sem er eingöngu búið vélum, tækjum og tólum til heilfrystingar með blæstri í stað hefðbundinnar plötufrystingar.
Að hlýða kalli markaðarins
Vinnslustöðvarfólk vinnur markvisst að því að auka umsvifin á mörkuðum í Asíu. Kaupendur þar í álfu vilja frekar uppsjávarfisk úr blástursfrystingu en plötufrystingu og borga þá jafnframt meira fyrir vöruna. Tæknin í nýja frystihúsinu er beinlínis valin til að hlýða kalli mikilvægs markaðar og Vinnslustöðin herðir jafnframt kynningar- og markaðssókn sína í Asíu og víðar.
Fleira er að segja af fjárfestingum Vinnslustöðvarinnar nú um stundir. Í smíðum er ísfisktogarinn Breki VE í Kína, væntanlegur til heimahafnar vorið 2017.
Í fyrra keypti Vinnslustöðin tvö uppsjávarskip af HB Granda og nefndi þau Ísleif VE og Kap VE. Með þeim fylgdi 0,7% hlutdeild í loðnukvóta landsmanna.
Þá má nefna að hráefnisgeymum hefur verið fjölgað á athafnasvæði Vinnslustöðvarinnar og framkvæmdir eru hafnar við að stækka frystigeymslu fyrirtækisins á Eiðinu, þrefalda afköst hennar úr 4.000 í 12.000 tonn.
Í samræmi við stjórnunarstíl VSV
Þessar fjárfestingar eru alls upp á um sjö milljarða króna og munu væntanlega skila félaginu enn traustari og betri afkomu á næstu árum. Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar, segir að vissulega hafi verið tími til kominn að endurnýja í framleiðslutækjum til lands og sjávar en menn hafi samt viljað gefa sér góðan tíma til undirbúnings og ákvarðana.
„Mörgum þótti biðin löng eftir fjárfestingum til lands og sjávar. Fyrir kom á aðalfundum hjá okkur að spurt væri: Á ekki að kaupa skip eða smíða skip? Á ekki að reisa ný hús og láta þau gömlu víkja.
Út af fyrir sig skildi ég fyrirspyrjendur vel og gat verið þeim sammála að einhverju leyti en við í stjórninni og stjórnendur félagsins höfðum sett sem forgangsverkefni að styrkja það og efla með því að sameinast öðrum félögum og stækka, kaupa aflaheimildir og síðast en ekki síst að greiða niður skuldir áður en horft yrði til verulegra fjárfestinga.
Þannig gekk þetta fyrir sig og eftir á að hyggja: Það sýndi sig og sýnir sig enn hverju það skilar til lengdar að vera varkár, staðfastur og fyrirhyggjusamur í rekstri fyrirtækis, lesa rétt í stöðuna og umhverfið og vanda undirbúning afdrifaríkra ákvarðana. Þannig stjórnunarstíll ríkir í brú Vinnslustöðvarinnar.“