Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623

Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624

Yfirgnæfandi líkur eru á því að fjöldi þeirra er heima sátu og horfðu á leik Íslands og Englands á Evrópumótinu í fótbolta í fyrra hafi misst af því þegar Ragnar okkar Sigurðsson skoraði og jafnaði leikinn. Ástæðan var sú að fólk notaði tækifærið strax eftir að Wayne Rooney kom Englendingum yfir og stökk afsíðis til að kasta af sér vatni. Ragnar jafnaði á meðan og staðan var því 1-1 þegar þeir aðþrengdu komu til baka að sjónvarpsskjánum með tómar þvagblöðrur.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, getur sýnt fram á þetta með beinhörðum tölum um vatnsnotkun í tilteknu hverfi Reykjavíkur á meðan leikir í EM stóðu yfir og gerði það með bravúr á vísindadögum OR í Nauthóli í dag.

Kolbeinn Sigþórsson skoraði sigurmarkið í seinni hálfleik, örfáir aðþrengdir tóku samt séns á að þjóta fram til að pissa strax eftir að Ísland komst yfir en svo héldu menn í sér þar til leikurinn var blásinn af. Þá var sturtað niður oft og víða í höfuðborginni, segja vatnsmælar Veitna, dótturfélags Orkuveitunnar.

Leikurinn við Frakka spilaðist allt öðru vísi en Englandsleikurinn bæði á fótboltavöllunum í Frakklandi og á salernum í Reykjavík. Í seinni hálfleik skoraði Kolbeinn og íslenska liðið lagaði ögn stöðu sína gegn þremur mörkum Frakka.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Oliver Giroud fjórða marka Frakklands. Þá brast á mikið pissustand í Reykjavík. Íslenskir sjónvarpsáhorfendur blésu þannig leikinn af í reynd og voru margir hverjir sitjandi á stellinu og eða standandi framan við það þegar Birkir Bjarna skoraði seinna íslenska markið með skalla.

Nú er að sjá hvort og þá hvernig pissuvenjur Íslendinga breytast þegar kvennalandsliðið okkar í fótbolta tekur þátt í Evrópukeppni núna sumarið 2017. Mælendur Veitna standa klárir og lesa af mælum sínum áhrif af því á þjóðarsálina þegar okkar stelpur skora eða fá á sig mark.

Rafbílavæðing & rafbílaapp

Bjarni Már Júlíusson.

Norðmenn eru mesta rafbílaþjóð veraldar og Íslendingar koma næstir. Í Noregi eru 3,7% fólksbíla rafdrifnir en 0,6% íslenskra fólksbíla.

Þetta kom fram í erindi Bjarna Más Júlíussonar, framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar, í Nauthóli.

  • Rafbílar verða sífellt ódýrari og gert er ráð fyrir að á tímabilinu 2020-2025 verði orðið ódýrara að framleiða rafbíl en hefðbundinn bíl.
  • Í hlöðum (hleðslustöðvum) verður þá unnt að hlaða bíla nægilega mikið á þremur mínútum til að aka 100 kílómetra.
  • Miðlungsbíll nær 500 kílómetrum á einni hleðslu.
  • Rafbíllinn verður lykill að samdrætti í CO2-losun í samgöngum.

Orka náttúrunnar – ON, dótturfélag Orkuveitunnar, og N1 ætla í sameiningu að stuðla að útrás rafbílsins með því að setja upp hlöður við hringveginn.

Rafbílavæðingin kemst þannig á góðan skrið á allra allra næstu árum.

Þessu tengt er nýja appið sem Þorvaldur Árnason, vefstjóri Orku náttúrunnar, kynnti á vísindadögum OR. Byrjað var að dreifa appinu, ON hleðslu, fyrir fáeinum dögum og hver sem er getur náð sér í það nú þegar.

Rafbílaeigendur geta þrifið upp snjallsímana sína og séð á augabragði hvar er næsta hlaða, hvernig tengingarnar eru og hvort þar er laust pláss til að hlaða bíl.

Það er sem sagt allt að gerast á sviði rafbílavæðingarinnar eða í það minnsta margt og merkilegt.

Eitur í gönguskíðaslóðum í Bláfjöllum?

Fjöldamargt mætti nefna af áhugaverðum erindum á dagskrá vísindadaga og sum umræðuefnin komu á óvart. Til dæmis fjallaði Sunna Mjöll Sverrisdóttir, starfsmaður Veitna, um áhrif gönguskíða á vatnsvernd.

Ha?

Já, rétt skilið. Gönguskíðaáburður getur verið varasamur og jafnvel eitraður. Það hefur norska umhverfisstofnunin sýnt fram á og sannað.

Í sumum tegundum af þekktum skíðaáburði eru flúorefni, stórlega skaðleg að sjálfsögðu. Fundist hafa eiturefni í jarðvegi á skíðasvæðum Norðmanna og þau eru rakin til skíðagöngumanna.

Talsvert er um að gengið sé á skíðum í jaðri vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins og gefur auga leið að eitraður skíðaáburður á ekki heima neins staðar nálægt drykkjarvatni. Ástæða þykir til að kanna hvort merkjanleg séu áhrif af skíðaáburði hér á landi og til stendur að taka jarðvegssýni í Bláfjöllum. Samráð verður haft við Umhverfisstofnun og kallað eftir banni ef svo ber undir.

Eftirgrennslan í sportvöruverslunum hér bendir ekki til þess að eitraður skíðaáburður sé í umferð á Íslandi en ástæða þykir samt til að kanna hvort merki finnist um skaðlegan skíðaáburð á slóðum göngufólks í Bláfjöllum.

Allur er varinn góður.