Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623
Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624
Útrás Krumma, Krónu, Loga og Flugu hófst í Austur-Húnavatnssýslu í júlímánuði 2007. Hrossin fjögur kvöddu heimahagana og lögðu upp í langferð. Fyrst voru þau flutt landleiðina til Reykjavíkur, síðan loftleiðis til Belgíu og þaðan í flutningabíl alla leið á áfangastað í Transylvaníuhéraði í miðri Rúmeníu. Þar biðu húsbændur þeirra og hjú í framtíðarheimkynnum á framandi slóðum. Seljandi hrossanna heilsaði upp á þau núna í október ásamt býsna fríðu föruneyti. Það kom á daginn að húnversku fjórfætlingarnir una hag sínum vel og sýna engin merki um heimþrá. Atlætið sem þau njóta er með miklum ágætum og reyndar svo að til fyrirmyndar hlýtur að teljast.
Húnversku hrossin eru þau fyrstu og einu, hingað til, sem seld hafa verið frá Íslandi til Rúmeníu. Níu aðrir Íslandshestar voru fyrir þar í landi. Þeir eru í eigu hollenskra hjóna sem fluttu þá með sér frá Hollandi til Rúmeníu í fyrra. Þess vegna voru þeir skráðir sem hollenskir innflytjendur hjá rúmenskum heilbrigðisyfirvöldum en húnverskir landar þeirra voru hins vegar færðir til bókar sem hreinræktaðir Íslendingar við komuna til Rúmeníu.
Glæsihús reist yfir Húnvetningana
Nýr eigandi húnversku hrossanna er umsvifamikill blaðaútgefandi í Transylvaníu, András Albert að nafni. Hann býr í borginni Odorheiu Secuesc þar sem búa um 37.000 manns, nær allt fólk af ungverskum uppruna. Þar skammt frá er Sigishoara, heimaborg Vlad Dracul, fyrirmyndar söguhetjunnar Drakúla greifa. Drakúla er með öðrum orðum skáldskaparpersóna rithöfundarins Bram Strokers, sem var Íri í aðra ætt en Englendingur í hina. Hann fann hryllingssögu sinni um blóðsuguna miklu stað í Rúmeníu. Slóðir Drakúla eru einn helsti ferðamannastaðurinn á landsbyggðinni og skyldi nú engan undra að íbúar Sigishoara hafi verið hugsi yfir því, eftir hrun kommúnistastjórnarinnar í árslok 1989, að eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna í Rúmeníu yrði uppdiktuð vampíra í mannsmynd í borginni þeirra!
Nóg um blóð og blóðsugur. Utan við Odorheiu á András og fjölskylda sumarhús af betri gerðinni og hesthús í hæsta gæðaflokki. Þetta aðsetur íslensku landnemanna i var byggt frá grunni í júní í sumar með tilheyrandi gerði og reiðgötum. Vel var vandað til verka og hvergi sparað til að búa hrossunum sem bestar aðstæður á alla lund.
András fékk þá flugu í höfuðið síðastliðinn vetur að gerast hrossabóndi í hjáverkum og færði það meðal annars í tal við íslenskan kunningja sinn, Pál Gíslason frá Hofi í Vatnsdal. Páll hefur um árabil starfað að fjárfestingum íslenskra fyrirtækja í Austur-Evrópu, meðal annars í Rúmeníu, og þannig lágu leiðir þeirra Andrásar saman. Páll stakk því að kunningja sínum að taka nú róttækt skref og kaupa hesta frá Íslandi. András tók Pál á orðinu og komst í kjölfarið í samband við Magnús Jósefsson, bónda og hrossaræktanda í Steinnesi, sem útvegaði rúmenska blaðaútgefandanum fjögur hross úr eigin ranni og annarra. Í haust hafði András orð á að gaman væri nú og gagnlegt, ef Magnús sæi sér fært að skreppa til Rúmeníu, heilsa upp á hrossin og leiðbeina sér í leiðinni um meðferð, aðbúnað og reiðlag. Andrási er nefnilega afar umhugað að gera eins vel við hestana sína og kostur er. Þannig atvikaðist það að Magnús í Steinnesi lagði upp í Rúmeníureisu. Hann taldi rétt að hafa með í för Vatnsdælinginn Pál og svo ættbókarfærðan Svarfdæling, skrifara þessarar greinar. Þrenningin heilsaði upp á András, Krumma, Krónu, Loga og Flugu og kannaði í leiðinni markað fyrir frekari húnverskan hrossabissness í Rúmeníu.
Myrkur og vegleysur
Við fengum sæti í hópferð Heimsferða til Búdapest í Ungverjalandi og héldum áfram í flugi til Cluj-Napoca, höfuðborgar Transylvaníu. Þangað komum við þegar komið var fram yfir miðnætti og síðasta áfangann fórum við í bíl sem András setti undir hina virðulegu sendinefnd frá Íslandi. Ferðalagið frá flugvellinum til Oderheiu tók um þrjár klukkustundir og tvennt vakti strax athygli við fyrstu kynni af Rúmeníu: myrkrið og samgöngukerfið. Við ókum í gegnum sveitir, þorp og borgir, oft í almyrkvaðri tilveru. Í sumum þorpum sást í mesta lagi einn og einn ljósastaur á stangli við aðalgötuna en í öðrum var hvorki ljóstýra á staur né í glugga. Rafmagn er með öðrum orðum munaðarvara og brúkað í samræmi við það. Yoko Ono gæti örugglega lýst upp heilu héruðin þarna fyrir aurana sem hún gaukar að Orkuveitu Reykjavíkur svo Lennon komist í stuð á himnum uppi með rafmagni úr bláu súlunni í Viðey.
Vegakerfið er kapítuli út af fyrir sig. Ekki þurfti að aka lengi um Rúmeníu til að sjá að umferðin er langt umfram það sem vegir anna með sæmilegu móti. Vont átti eftir að versna því þegar út í sveitir var komið, síðar í ferðinni, kynntumst við „vegum“ sem hvergi yrðu taldir boðlegir á byggðu bóli hérlendis. Ef íslenskum samgönguráðherra dytti í hug að bjóða upp á eitthvað álíka myndu háttvirtir kjósendur ekki bíða eftir næstu þingkosningum til að hreinsa til í ráðuneytinu heldur læsa hann umsvifalaust inni í svartholi og henda lyklinum.
Fagnaðarfundir og exem
Svo kom að endurfundum Magnúsar og hrossanna. Engum blöðum var um að fletta að Króna bar strax kennsl á fyrrum húsbónda sinn, enda fædd og uppalin í Steinnesi. Hin hrossin létu sér hins vegar fátt um finnast og kipptu sér ekki upp við gestagang í haganum sínum. Augljóst var að þau undu sæl við sitt, voru samviskusamlega hirt og litu afar vel út. Þá báru þau með sér að vera í góðri þjálfun, enda kom á daginn að þeim er riðið að minnsta kosti tvisvar í viku svo tugum kílómetra skiptir í hvert sinn! Magnús sá líka strax að hann hafði dottið niður á réttu hestana til að selja Andrási, „brúkunarhross“ sem væru öllu vön og hefðu meðal annars sjóast í göngum og túristaferðum. Eina skarðið í gleðina var exem sem hrjáði Krumma. Þess vegna var hann undir læknis hendi einmitt þegar okkur bar að garði. Guszti dýralæknir bar smyrsl á sárin og kvaðst vongóður um að þau myndu gróa, líkt og hliðstæð sár á öðru hrossi úr hópi íslensku innflytjendanna fyrr í haust. Doktorinn er sérhæfður í hrossasjúkdómum og hafði aflað sér vitneskju í Þýskalandi um að íslenskum hestum væri hætt við að fá svona ofnæmisexem í nýjum heimkynnum erlendis þegar framandi mýflugur bitu þá. Guszti hefur því nú þegar náð árangri í baráttunni við ófögnuðinn. Hrossin eru því í góðum höndum, enda fullvíst að András sparar ekki læknisþjónustu frekar en nokkuð annað til að þau hafi það sem best í Rúmeníu.
András ríður sjálfur út og snýst í kringum hrossin eins mikið og hann framast getur. Eiginkona vinar hans, Gabriella Dombi, sér hins vegar til þess að þau séu í stöðugri og markvissri þjálfun hvað sem öðru líður. Hún er hestamaður og kann ýmislegt fyrir sér í tamningu og þjálfun. Gabriella var efins um það uppátæki Andrásar að kaupa hesta frá Íslandi og enn meira efaðist hún þegar hún sá gripina komna til Rúmeníu. Þeir voru svo smávaxnir og pervisalegir í samanburði við stór og stæðileg heimahrossin. Núna er allur efi á bak og burt og Gabriella verður eitt einasta breitt bros þegar tal berst að Íslandshestum. Magnús bóndi gekk auðvitað á lagið og benti á að hún myndi fljótlega þroskast upp í knapa sem gerði kröfur um enn meiri gæðinga og András sjálfur myndi fyrr en varði skella sér út í ræktun. Að sjálfsögðu yrði auðsótt mál að aðstoða við að koma öllu slíku í kring – fyrir sanngjarna þóknun.
Ernö og hvunndagseplin
Síðast en ekki síst skal nefndur hér til sögu hestahirðir Andásar, Ernö. Karlinn sá býr með fjölskyldu sinni í húsi við garðshorn húsbónda síns og hefur þann starfa að passa upp á hrossin fjögur, hesthúsið og sumarhúsið – í þeirri forgangsröð. Hrossin hafa á honum matarást og ekki að ófyrirsynju. Við tókum til dæmis strax eftir því að epli eru hvunndagsfæða og lykill Ernös að hjarta þeirra. Það hefði nú þótt saga til næsta bæjar í Svarfaðardal forðum daga að hestar væru fóðraðir á eplum, þessum eðalávexti sem dreginn var í hús á aðventunni til að naga um jólin upp úr lagskiptum pappakössum. Engum lifandi manni datt í hug að nota jólaeplin í dýrafóður. Því eina sem afgangs var, steinum og hrati, var fleygt fyrir hænur. Lengra var ekki gengið í að fóðra dýr á eplum í íslenskri sveit. Í Rúmeníu eru hins vegar eilíf eplajól hjá hrossum úr Húnaþingi.
Við sáum fjölda hrossa hvar sem við vorum á ferð í Rúmeníu en öll voru þau notuð til dráttar en ekki útreiða. Hestakerrur eru helsta samgöngu- og flutningstækið til sveita og hestar draga plóga á ökrum. Tækjakostur bændanna er orf og ljár, hrífa, páll og reka, allt eftir því hvort verið er að slá og þurrka gras, moka skít eða grafa skurð. Miðaldra bændasynir af Norðurlandi giskuðu á að búskaparhættirnir líktust helst ástandi í íslenskri sveit fyrir svo sem 80 til 100 árum! Bændur í Rúmeníu eru með öðrum orðum í hreinni forneskju í okkar skilningi og vandalaust að trúa opinberum tölum um að fjórðungur landsmanna, sem eru 22 milljónir, búi við afkomu undir fátæktarmörkum. Vinur okkar Ernö, hestahirðir Andrásar, er því eins og greifi þegar hann ekur um á splunkunýju fjórhjóli húsbónda síns á sama tíma og grannar hans hossast eftir þvottabrettisslóðum í þorpinu á hestakerrunum sínum.
Land andstæðnanna
Rúmenía er samfélag andstæðnanna í ýmsum skilningi. Þeir sem fátækir eru teljast öreigar í orðsins fyllstu merkingu en svo eru aðrir sem leyfa sér allt sem almúginn lætur sig ekki einu sinni dreyma um á lífsleiðinni. Þetta sást langar leiðir. Andstæðurnar birtust okkur líka í því að fara beint úr stærstu og tæknivæddustu prentsmiðju Austur-Evrópu út í sveit þar sem tíminn hefur staðið í stað í heila öld. Í Oderheiu er með öðrum orðum risastór prentsmiðja, Infopress að nafni, í eigu Kvosar hf. (áður Odda hf.). Angi íslenskrar útrásar með öðrum orðum þarna inni í miðri Rúmeníu. Nýbakaður Íslandshrossaeigandi, András Albert, var áður einn af eigendum Infopress og Páll Gíslason annaðist um skeið um fjárfestingar og uppbyggingu á vegum Kvosar í Suðaustur-Evrópu, þar á meðal í Rúmeníu. Þannig tókst með þeim kunningsskapur og András liggur ekki á þeirri skoðun sinni að illt hafi verið fyrir Infopress að Páll skipti um starfsvettvang eftir að hafa stjórnað uppbyggingu fyrirtækisins í nánu og farsælu samstarfi við heimamenn. Húnvetningurinn hafi skilið eftir ákveðið tómarúm þegar hann hvarf á braut. Víst er að Infopress er miklu meira en meðalfabrikka í prentiðnaði. Í henni eru framleidd tímarit og bæklingar af ýmsu tagi fyrir markað tugmilljóna manna, einkum í Rúmeníu, Búlgaríu, Úkraínu og Moldavíu. Afköstin eru lygileg og vélarnar rúlla allan sólarhringinn árið um kring. Eitt kvöld á ári ríkir samt þögn í vélasalnum. Það gerist þegar blásið er til árshátíðar starfsmanna!
Breiðmél og leðurbrækur
Við kvöddum András og eiginkonu hans, Enö Lázár, með virktum, sömuleiðis Gabríellu knapa, Ernö með eplin, Krumma, Krónu, Loga og Flugu. Ferðinni var heitið til flugvallarins í Cluj-Napoca og þaðan til Ungverjalands. Í Budapest beið okkar að verja hálfum öðrum degi áður en leiðin lægi áfram heim til Íslands. András var þá snöggur til að mæla með heimsókn í tiltekna verslunin með hestavörur í Budapest þar sem hann sjálfur væri umsvifamikill viðskiptavinur. Hann reyndist ekki hafa skrökvað neinu um þessa hrossabúð, Nagylovas Uzlet. Hún er á tveimur hæðum og þar má bókstaflega finna allt sem hestamanni dettur í hug að kaupa fyrir sig eða fjórfætta vini sína. Úrvalið er mikið og verðlagið afskaplega þægilegt. Til dæmis sáum við að ódýrustu hnakkarnir kostuðu jafnvirði um 20 þúsund króna og þeir dýrustu um 80 þúsund krónur. Allra dýrasti hnakkurinn, sem hægt var að útvega ríkum og vandlátum kúnna, átti reyndar að kosta liðlega 200 þúsund krónur en það var þá engin venjuleg græja og þurfti að panta sérstaklega.
Magnús bóndi brá sér í méladeildina til að kanna hvort þar mætti finna járn sem hæfði betur kjafti íslensks hests en mél fyrir innfædd hross í Ungverjalandi eða Rúmeníu. Hann hafði nefnilega gert athugasemdir við beislin hjá Andrási hinum rúmenska og bent á að mél á beislum hans væru alltof breið fyrir Íslandshesta. Brúkhæf mél fundust hins vegar ekki í Budapest og niðurstaðan varð sú að kaupa réttu járnin á Íslandi og senda til Rúmeníu. Magnús fór samt ekki tómhentur af vettvangi heldur fjárfesti í miklum leðurbrókum til að klæðast við járningar heima fyrir. Í framtíðinni verða því allar hurðir á hjörum og skeifur undir hverri löpp í Steinnesi og hæfileg kjaftamél í Transylvaníu.
- Eftir Atla Rúnar Halldórsson frá Jarðbrú.
- Birtist í jólablaði Eiðfaxa 2007.