Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623
Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624
„Lífeyrissjóðir sæta miklum og sívaxandi þrýstingi að axla sinn hluta af samfélagsábyrgð vegna umhverfis- og loftlagsmála og stuðla að sjálfbærni. Breyttir tímar í þessum efnum er ekki framtíðarmúsik heldur í hæsta máta hugsun og umhverfi nútíðar með tilheyrandi áhrifum samfélagsmiðla!
Ábyrgð gagnvart samfélaginu er þáttur sem eigendur og stjórnendur fyrirtækja og lífeyrissjóða búa við og verða að taka alvarlega.“
- Lára Jóhannsdóttir, lektor í umhverfis- og auðlindafræði við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hefur skýra sýn á samfélagslega ábyrgð og ábyrgar fjárfestingar í atvinnulífinu. Alþýðusamband Íslands fékk hana á dögunum til að fjalla um málið á fundi með fulltrúum ASÍ í stjórnum lífeyrissjóða og Lára er reyndar sjálf á heimavelli í lífeyrissjóðakerfinu. Hún situr í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. og býr að reynslu úr atvinnulífinu sem fyrrverandi gæðastjóri Sjóvár og skrifstofustjóri líftryggingafélagsins Samlífs. Hún var fyrst kvenna til að verja doktorsritgerð við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fjallaði þar um áhrif umhverfismála á rekstrarumhverfi norrænna vátryggingafélaga.
Umhverfis– og loftlagsmál séu ofarlega á „tékklistanum“
„Við blasir að lífeyrissjóðir fari með meiri fjármuni úr landi til ávöxtunar hér eftir en hingað til. Það kallar á að sjóðirnir búi yfir víðtækri þekkingu og geti horft á hlutina í samhengi ábyrgra fjárfestinga og umhverfis- og loftlagsmála sem verða sífellt veigameiri þættir í samfélagsumræðu og fjármálastarfsemi.
Vissulega má gera ráð fyrir að íslenskir lífeyrissjóðir fjárfesti í eignasjóðum frekar en einstökum fyrirtækjum erlendis en hugsunin er sú sama. Umhverfis- og loftlagsmál eiga líka að vera ofarlega á „tékklistanum“ við fjárfestingar sjóðanna hér heima.
Þetta getur til dæmis birst í því að fjárfesta í endurnýjanlegum orkugjöfum og verkefnum sem spara orku og draga þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda frekar en í verkefnum tengdum jarðefnaeldsneyti.
Til dæmis kann að virðast álitlegur ávöxtunarkostur fyrir lífeyrissjóð að fjárfesta beint eða óbeint í olíuhreinsunarstöð en þegar að er gáð vakna áleitnar spurningar:
- Hvaða áhrif hefur slíkur atvinnurekstur á nærumhverfi sitt, bæði atvinnuþróun og heilsufar sjóðfélaga til lengri tíma litið?
- Sitja lífeyrissjóðirnir ef til vill uppi með verðlitlar eða verðlausar eignir eftir tiltölulegan skamman tíma á mælikvarða langtímafjárfestinga lífeyrisjóða þegar aðrir og umhverfisvænni orkugjafar leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi?
Olíuhreinsunarstöð kann að virðast góður fjárfestingarkostur til skamms tíma en er mikil áhættufjárfesting þegar betur er að gáð.
Samfélagið getur samþykkt starfsemi sem því er að skapi, en getur einnig hafnað starfsemi sé hún ekki í samræmi við viðtekin gildi. Þá skiptir engu hvort viðkomandi fyrirtæki hafi tilskilin rekstrarleyfi og uppfylli önnur lagaleg og tæknileg skilyrði stjórnvalda fyrir starfseminni.
Brúnegg misstu til dæmis samfélagslegt rekstrarleyfi sitt og mál þeirra er nærtækt dæmi um breytta tíma. Aðeins liðu þrír mánuðir frá því fjallað var um fyrirtækið í Kastljósi þar til það lýsti sig gjaldþrota.
Storeband birtir nöfn félaga sem fyrirtækið sniðgengur
Lára nefnir norska vátrygginga- og fjármálarisann Storebrand sem dæmi um fyrirtæki sem tekur samfélagsábyrgð sína alvarlega og útfærir hana á gegnsæjan og aðgengilegan hátt, fyrir opnum tjöldum. Hún kynnti sér starfsemi Storebrand í tengslum við doktorsritgerð sína forðum og hlýddi á fulltrúa fyrirtækisins í málstofu á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París 2015.
„Storebrand hefur yfirlýsta aðferðafræði við fjárfestingar og lítur svo á að umhverfis- og loftlagsstefna fyrirtækisins dragi úr áhættu og að áhersla á sjálfbærni skapi því mörg tækifæri. Storebrand skimar eignasafnið sitt til að meta kolefnisfótspor einstakra fjárfestinga og eignasafnsins í heild, meta loftlagsáhættu og losa sig við eignir sem fyrirtækið vill ekki hafa í safninu sínu.
Storebrand telur til dæmis tiltekna áhættu fólgna í því að binda fjármuni í starfsemi tengdri jarðefnaeldsneyti. Storebrand fjárfestir ekki í fyrirtækjum sem valda verulegum umhverfisskaða og sniðgengur fyrirtæki sem koma við sögu spillingarmála, fjármálabrota, tóbaksframleiðslu og mannréttindabrota. Svo langt gengur fyrirtækið að það birtir á vefnum sínum lista yfir félög sem það fjárfestir ekki í og tilgreinir hvers vegna þau falla ekki að settum markmiðum Storebrand um umhverfi, samfélag og stjórnarhætti.“
Þjóðríkjum stefnt
Loftlags- og umhverfishugsunin er í eðli sínu hnattræn og á sér engin landamæri.
- Skógareldar í Rússlandi hafa kallað á útflutningsbann á korni og það leiddi til þess að matvælaverð hækkaði á heimsmarkaði, líka á Íslandi.
- Flóðbylgja í Tælandi eyðilagði eina fyrirtæki veraldar sem framleiðir tiltekinn íhlut í tölvubúnað og það skapaði tímabundin vandræði um alla veröldina, líka á Íslandi.
Sjálf þjóðríkin eru heldur ekki eylönd í umhverfis- og loftlagsmálum.
- Stjórnvöld í Hollandi fengu á sig dóm fyrir að hafa ekki sett sér nógu metnaðarfull markmið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í anda stefnu Evrópusambandsins.
- Stjórnvöld í Bretlandi töpuðu líka loftmengunarmáli á æðsta dómstigi.
- Í Bandaríkjunum er rekið umhverfistengt mál gegn stjórnvöldum fyrir hönd barna og komandi kynslóða.
- Stjórnvöldum í Noregi kann að verða stefnt fyrir dóm vegna áforma um rannsóknarboranir í leit að olíu á hafsbotni á norðurslóðum.
Lára segir að umhverfissamtök séu sterk og áhrifamikil og fái til liðs við sig lögmenn sem lögsæki þjóðríki, stundum með góðum árangri frá þeirra bæjardyrum séð.
Tapi stjórnvöld ríkja málum af þessu tagi eykst þrýstingur á þau enn frekar og víðar í samfélaginu. Hugmyndir fleira og fleira fólks mótast í þessu anda og hefur áhrif á ríkisstjórnir og stjórnmálamenn.
Sænsk stjórnvöld boða nýjar áherslur í loftlagsmálum og hafa lögfest ferli þar sem fylgst er með að settum markmiðum sé náð og viðurlögum beitt ef út af er brugðið.
Jákvæð breyting á lögum um ársreikninga
„Alþýðusambandið á hrós skilið fyrir að telja það nauðsynlegt að stjórnarmenn verkalýðshreyfingarinnar í lífeyrissjóðum kynni sér sjálfbærni og tileinki sér viðhorf sem eru alls staðar í sókn varðandi umhverfis- og loftlagsmál. Forystumenn í lífeyrissjóðakerfinu verða að passa upp á og hafa tvennt á hreinu í starfi sínu:
- Þeim ber að standa vörð um að fólk á eftirlaunum sæti ekki skerðingu eftirlauna.
- Loftlagsmálin hafa mun meiri áhrif til lengri tíma á yngri, greiðandi sjóðfélaga en þá eldri. Starfseminni ber að haga í samræmi við það.
Svo vil ég segja að alls ekki er sjálfgefið að hagsmunir lífeyrissjóða annars vegar og ríkisins, sveitarfélaga eða fyrirtækja hins vegar fari saman, hvorki til skamms né lengri tíma! Vissulega ber að halda til haga markmiðum um 3,5% jafnaðarávöxtun eigna lífeyrissjóða en að hugsa um ávöxtunina eina í þröngum skilningi er úrelt. Nútíma stjórnarhættir lífeyrissjóða verða að standast kröfur um sátt við umhverfi og samfélag og nálgunin er því önnur en áður tíðkaðist,“ segir Lára og bendir á að lagabreytingar í seinni tíð styðji við þessa þróun hérlendis.
„Í nýlegum lögum um ársreikninga er kveðið á um að fyrirtæki með tiltekinn fjölda fólks í vinnu, og félög með starfsemi sem varða almannahagsmuni, taki tillit til samfélags og umhverfis í starfseminni og geri grein fyrir þeim þætti opinberlega. Slíkar skýrslur gagnast auðvitað lífeyrissjóðum til að meta viðkomandi félög sem fjárfestingarkosti eða til að vera virkir eigendur í félögum sem þeir eiga hluti í. Upplýsingamiðlun af þessu tagi stuðlar að því að fjárfestar fylgist betur með og taki vandaðri ákvarðanir en ella.“
Texti og myndir: Atli Rúnar Halldórsson
Birtist fyrst á vefnum lifeyrismal.is