Skemma fyrir Eimskip við Sundahöfn í Reykjavík, skemmur handa verktökum á Húsavík og Ísafirði, fiskeldishús í Ölfusi, iðnaðarhús í Árnesi, fjós hér og þar á landinu.

Allt eru þetta verkefni sem samið hefur verið um og eru í deiglunni hjá Landstólpa ehf., fyrirtæki með höfuðstöðvar í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Þetta eru í öllum tilvikum stálgrindarhús frá H.Hardeman í Hollandi sem Landstólpi flytur inn og selur um víðs vegar um landið (og til Færeyja líka ef því er að skipta!).

„Mesta athygli vekur hve uppgangur er mikill og framkvæmdahugur víða á landsbyggðinni líka, ekki bara á Suðvesturhorninu og í stærstu þéttbýliskjörnum annars staðar. Byggingarþörf í landbúnaði er til dæmis gríðarlega mikil, enda var lítið byggt til sveita árum saman eftir bankahrunið,“ segir Arnar Bjarni Eiríksson framkvæmdastjóri, sem stofnaði Landstólpa árið 2000 ásamt eiginkonu sinni, Berglindi Bjarnadóttur.

Heildarlausn er hagkvæmdari og ódýrari

Landstólpi hefur frá upphafi afgreitt á annað hundrað stálgrindarhús af öllum stærðum og gerðum: fjós, fjárhús, hesthús, reiðhallir og hús fyrir starfsemi fyrirtækja í iðnaði, flutningaþjónustu, fiskeldi, orkuframleiðslu og sjávarútvegi. Já, að ógleymdri þjálfun ökumanna því Landstólpi reisti snemmsumars 2016 hús fyrir höfuðstöðvar Ökuskóla 3 ehf. í Kapelluhrauni í Hafnarfirði.

„Við erum önnum kafin núna við að hanna ný fjós, gera kostnaðaráætlanir og undirbúa fjósbyggingar á mörgum stöðum á næsta ári. Við höfum byggt mörg nútímaleg lausagöngufjós undanfarið, oft samkvæmt heildarsamningum um verkin frá upphafi til enda. Við hönnum þá húsin og undirbúum bygginguna, komum með húshlutana á vettvang, reisum húsin, innréttum þau og göngum frá þeim. Slík heildarlausn er hagkvæm, fljótleg og ódýr leið fyrir viðskiptavinina, það höfum við sannreynt margsinnis.“

Umsvif í fóðursölu aukast jafnt og þétt

Landstólpi er með á sínum snærum tvö teymi starfsmanna sem reisa stálgrindarhúsin með krönum og öðrum sérhæfðum tækjum fyrirtækisins og slá hvergi slegið slöku við. Húsin þjóta svo hratt upp að með ólíkindum þykir en Arnar Bjarni tekur skýrt fram að verkhraði sé aldrei á kostnað gæða.

Bankahrunið setti strik í reikninginn hjá Landstólpa forðum eins og fleirum. Eigendur fyrirtækisins brugðust við annars vegar með því að stofna eigin vélsmiðju í Gunnbjarnarholti og framleiða innréttingar í fjós sem áður höfðu verið fluttir inn; hins vegar með því að hefja innflutning á kjarnfóðri frá Hollandi og síðar bætiefna- og gæludýrafóðri frá Þýskalandi.

Fóðurþáttur starfseminnar vex hratt. Nú skipar Landstólpi upp fóðri í Reykjavík, á Akureyrin og Reyðarfirði og dreifir um allt land til bænda, smásala og í eigin verslanir í Gunnbjarnarholti, á Egilsstöðum og í Vélaval í Skagafirði.

Það er því í þó nokkur horn að líta í Gunnbjarnarholti.

  1. Steypuvinna á vegum Landstólpa í áburðarskemmu sem fyrirtækið reisti fyrir Sláturfélag Suðurlands í Þorlákshöfn sumarið 2016.

Texti & myndir: Atli Rúnar – birtist fyrst í Sóknarfæri í nóvember 2016