Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623

Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624

„Lífi Skarphéðins Andra lauk með þessum fallegu, óeigingjörnu gjöfum sem skiptu mun meira máli en við höfðum áður leitt hugann að. Þær voru ljósið í myrkrinu og við verðum honum ævinlega þakklát fyrir að hafa greint frá afstöðu sinni,“ sagði Steinunn Rósa Einarsdóttir, móðir líffæragjafa, á fundi landlæknis um líffæragjafir á Hótel Natura í Reykjavík laugardaginn 26. janúar sl.

Steinunn Rósa Einarsdóttir.

Ávarp Steinunnar Rósu var áhrifamikið og boðskapurinn skýr:

„Ræðum líffæragjafir innan fjölskyldna og verum ekki feimin við að tala um hvernig við viljum haga fráfalli okkar. Upplýsum aðstandendur um viðhorf okkar og vilja.“

Kærustuparið Anna Jóna Sigurbjörnsdóttir og Skarphéðinn Andri Kristjánsson lentu í bílslysi 12. janúar 2014. Hún lést samstundis en hann lá stórslasaður á Landspítala í hálfan mánuð og lést 28. janúar. Fjölskyldan hafði áður oft rætt líffæragjafir. Skarphéðinn Andri lýsti vilja sínum til að gefa líffæri ef til kæmi og hann útvegaði sér líffæragjafakort til að hafa í veskinu sínu. Þetta viðhorf var í samræmi við lífsmottóið hans, fermingarversið sem hann hafði húðflúrað á vinstri síðu sína: Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.

Síður en svo vafðist því fyrir Steinunni Rósu og Kristjáni S. Ingólfssyni, foreldum Skarphéðins Andra, að samþykkja líffæragjafir hans og raunar líta þau svo á að hann hafi sjálfur ákveðið að gefa líffæri sín og bjarga lífi fimm karlmanna, á meðal 16 ára drengs í Noregi sem hjarta íslenska piltsins var grætt í:

„Eitt stendur upp úr og það er að líffærin eru gjafir Skarphéðins Andra sjálfs. Við ákváðum ekkert fyrir hann.“

Siðferðilega reynir mest á samþykki og sjálfræði

Salvör Nordal.

Salvör Nordal, heimspekingur og umboðsmaður barna, lagði líka ríka áherslu á samtal fólks og upplýst viðhorf um líffæragjafir í erindi sínu á málþinginu.

„Siðferðilega reynir mesta á að virða samþykki þeirra sem málið varðar og mikil áhersla er lögð á sjálfræði fólks. Upplýst samþykki er „tækið“ til að virða sjálfræðið. Hver var vitund og vilji hins látna til líffæragjafa í lifanda lífi?

Hagsmunir nánustu aðstandenda eru ríkir og fyrirvarinn í nýju lögunum um afstöðu þeirra mikilvægur. Samtalið skiptir gríðarlega miklu máli.“

Salvör nefndi í tvígang að ungt fólk væri sérlega áhugasamt um líffæragjafir, það hefði meðal annars komið fram í ráðgjafarhópi á vegum embættis umboðsmanns barna. Ungmennin hefðu meðal annars kvartað yfir því að þeim gengi ekki vel að átta sig á því hvert ætti að snúa sér til að skrá sig sem líffæragjafa og fá líffæragjafakort til að hafa á sér. Þar var Salvör að vísa til umræðna sem áttu sér stað áður en lögum var breytt hér á landi um nýliðin áramót.

Sá sem aldrei verður veðurtepptur þroskast ekki til fulls!

Jóhannes Kristjánsson, landsþekktur skemmtikraftur, fékk grætt í sig hjarta í byrjun september 2009 á Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg. Hann ávarpaði málþingið sem líffæraþegi eða gerðist þar öllu heldur uppistandari með spaugi, spéi og eftirhermum sem gestir í sal kunnu vel að meta með tilheyrandi hláturrokum.

Jóhannes Kristjánsson.

Jóhannes fór fögrum orðum um samskipti sín við starfsfólk á sjúkrahúsum og kvaðst vera stórfeginn yfir því að hafa kynnst læknum og öðrum vegna hjartaígræðslunnar. Þessi reynsla hafi beinlínis gert sig betri manni því góð heilsa sé ekki alltaf og ævinlega sjálfgefin frekar en að menn komist alltaf leiðar sinnar vegna veðurs eða færðar. Jóhannes fæddist og ólst upp á Ingjaldssandi vestra og þegar varð ófært var þar þýddi ekkert að fjasa um það, heldur bíða betri tíðar og sjómoksturs. Svo bætti grínarinn við: „Sá sem aldrei hefur orðið veðurtepptur nær ekki fullum þroska“!

Hjartaígræðslan tók þrettán klukkustundir og tókst afar vel. Jóhannes er auðvitað gangandi og skemmtandi vitnisburður um það. Hann var vakinn eftir aðgerðina, steig í fætur á fyrsta sólarhring og gekk þá hring í kringum hjúkrunarfræðing.

„Á fjórða degi gekk ég 750 metra úti og segi bara að þetta var allt saman meira en skáldsaga í kollinum mínum, alveg ótrúlegt. Fáfræðin í samfélaginu er samt mikil og útbreidd, líka meðal svokallaðs menntafólks. Sumir halda að ég sé enn með annan fótinn á spítala, tíu árum síðar. Aðrir eru gáttaðir á því að ég hafi smjör eða kjöthakk í innkaupakörfunni þegar ég hitti þá í kjörbúðum. Slíkt fæði geti varla gert mér neitt gott. Og ef ég segist hafa gengið á Esju hef ég fengið viðbrögð á borð við: „Þú hefur þá ekki misst hæfileikann að ljúga við að fá nýtt hjarta!“

Spurningum svarað og meira til

Alda Möller landlæknir stýrði málþinginu sem hófs kl. 11 á laugardaginn og margir sóttu. Samkoman heppnaðist vel og var í senn fræðandi, áhugaverð, áhrifamikil og skemmtileg.

Læknarnir Kristinn Sigvaldason og Runólfur Pálsson á Landspítala fjölluðu í upphafi málþings um líffæragjafir og líffæragræðslur á Íslandi.

Í auglýsingum um málþingið var varpað fram spurningum:

  • Hvað breyttist um áramót þegar landsmenn urðu sjálfkrafa líffæragjafar samkvæmt nýju lagaákvæði sem tók þá gildi?
  • Hver er réttur þeirra sem ekki vilja gefa líffæri?

Víst er að þeir sem mættu á vettvang fengu greið og skýr svör og að auki margvísan annan fróðleik í sarpinn en líka brýningu um að hugsa um líffæragjafir, taka afstöðu og umfram allt að tala opinskátt um málið heima fyrir og annars staðar.

Alda Möller.

Runólfur Pálsson.

  • Kristinn Sigvaldason.

  • Umfjöllunin birtist fyrst á vef landlæknisembættisins, landlaeknir.is

  • Texti & myndir: Atli Rúnar Halldórsson