Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623
Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624
Þjóðþekkt norsk gönguskíðakona, Ida Eide, hné niður í hlaupakeppni í september 2018 og lést skömmu síðar á Ullevål sjúkrahúsinu í Osló. Hún var þrítug og fékk hjartastopp.
Núna í janúar 2019 birtu foreldrar hennar og sambýlismaður sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur að Ida hafi gefið sex manns líffæri: lungu, lifur, bris, nýru og hornhimnur.
Þau röktu aðdragandann og hvöttu í leiðinni aðra til að taka hliðstæða ákvörðun til að bjarga lífi eða lengja ævi, bæta heilsu og líðan annarra með líffæragjöf.
Um ákallið var mikið fjallað í fjölmiðlum í Noregi og málið vakti gríðarlega athygli, enda Ida Eide þekkt og systir hennar enn þekktari, Mari Eide. Sú síðarnefnda er í landsliði Noregs í skíðagöngu kvenna.
Foreldrar og sambýlismaður Idu Eide greindu frá því að fulltrúar líffæragjafateymis á Ullevål hefði greint þeim frá að Ida væri á förum en gæti bjargað lífi og heilsu annarra með því að gefa líffæri. Fjölskyldan hafði aldrei rætt líffæragjafir í sínum ranni en í farsíma Idu fannst smáforrit (app) þar sem hún lýsti vilja til að gefa líffæri ef svo bæri undir. Nánustu aðstandendur töldu einboðið að fara að vilja hennar.
Það kom svo á daginn að sex manns fengu grædd í sig líffærin og allar aðgerðirnar tókust vel. Flestir líffæraþegar hafa haft samband við foreldra og sambýlismann Idu Eide til að þakka fyrir og votta þeim samúð sína.
Fjölskylda Idu Eide nefnir sérstaklega í ákalli sínu að líffæragjöfin hafi beinlínis hjálpað henni að takast á við sorgina og söknuðinn eftir skyndilegt fráfall hennar. Fjölskyldan hrósar jafnframt læknum og starfsliði sjúkrahússins fyrir hvernig staðið var að því að upplýsa hana.
Fyrst og síðast þótti fjölskyldunni ástæða til að kynna Norðmönnum að Ida Eide hefði ekki dáið til einskis. Hún gaf öðrum líf líkt og eins og hún sjálf vildi, ef það skyldi gerast sem því miður gerðist.
- Ljósmyndin af Idu Eide, sem fylgir með greininni, er úr safni fjölskyldunnar og birtist með opinberu ákalli hennar í Noregi.
Lögin um líffæragjafir í Noregi eru hliðstæð nýju lögunum sem tóku gilti á Íslandi í ársbyrjun 2019. Í báðum ríkjum er þannig kveðið á um ætlað samþykki (allir eru líffæragjafar nema þeir sem skrá sig andvíga líffæragjöf). Í báðum ríkjum er náið samráð og samskipti við nána aðstandendur. Líffæragjöf á sér ekki stað nema þeir séu því samþykkir.
Ísland er aðili að norrænu ígræðslusamtökunum Scandiatransplant. Eistland hefur nýlega fengið aðild að norrænu samstarfi um líffæraskipti og það nær því til svæðis þar sem búa 28,4 milljónir manna.