Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623

Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624

Bók með sögulegu svarfdælsku efni verður gefin út á síðari hluta næsta árs á vegum Atla Rúnars, Jóns Baldvins, Helga Más, Óskars Þórs, Jóhanns Ólafs og Ingu Dóru Halldórsbarna og Ingibjargar frá Jarðbrú. Útgáfan verður andlega tengd vefsíðunni Svarfdælasýsli, segir Atli Rúnar.

„Hugmyndin kviknaði í systkinahópnum í kjölfar þess að fjallað var um snjóflóðaslysin 1955 í Skíðadal á Sýslinu seint á árinu 2015. Ég bauð þá góðfúslega vörumerkið Svarfdælasýsl til að nota í bókaútgáfunni líka og taldi að það myndi hjálpa til í markaðsstarfinu. Systkini mín þorðu ekki annað en fallast á það sjónarmið!

Óskar Þór hefur farið hamförum í að safna heimildum og skrifa. Við höfum nú þegar efni í eina bók og gerum ráð fyrir að gefa út aðra, ef sú fyrsta gengur þokkalega. Næsta víst er að í fyrstu bókinni verði fjallað um kvikmyndasumarið 1979 í Svarfaðardal, þegar unnið var að upptökum á Landi og sonum. Þetta er ekki aðeins merkilegur kafli í svarfdælskri sögu, heldur í sjálfri kvikmyndasögu Íslendinga og bætir þar miklu við.

Óskar Þór hefur líka grandskoðað eldri kynslóðir Göngustaðaættarinnar og komist að ýmsu sem á eftir að vekja áhuga og umtal. Fleira nefni ég ekki í bili en víst er að efnivið skortir ekki í margar bækur um síðari tíma sögu Svarfdælinga.

Lumi einhverjir á áhugaverðum ljósmyndum sem tengjast Landi og sonum eða Göngustaðasystkinum (Steinunni , Engilráð, Jonna, Rannveigu, Davíð, Páli eða Jóhanni) værum við þakklát fyrir að fá að heyra frá þeim. Við höfum sömuleiðis mikinn áhuga á ljósmyndum frá fyrstu árum Húsabakkaskóla sáluga.“

Kaflaskil verða hjá Atla Rúnari um áramót þegar hann hættir störfum hjá kynningarfyrirtækinu Athygli og starfar sjálfstætt eftir það. „Það hafði blundað í mér um skeið að vinna algjörlega á eigin vegum. Í haust ákvað ég að stíga þetta skref og sagði upp. Verkefnin verða svipuð áfram en sitthvað nýtt bætist við. Skrifstofan flyst heim á eldhúsborðið og tilveran breytist í eitt allsherjar sýsl. Vonandi nýtur Svarfdælasýsl á vef og pappír góðs af því líka.“

Sigríður Hafstað á Tjörn og Jón Sigurbjörnsson leikari á Hrafnistu í Reykjavík 6. desember 2016. Þau léku hjónin í Gilsbakkakoti í Landi og sonum, Guðrúnu og Tómas. Atli Rúnar Halldórsson kom á endurfundum þeirra í tilefni af umfjöllun í væntanlegri bók Jarðbrúarsystkina í nafni Svarfdælasýsls. Þetta var víst mögnuð og skemmtileg stund. „Guðrún“ og „Tómas“ höfðu um margt að skrafa og margs að minnast!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Texti & mynd: Atli Rúnar – birtist fyrst í Norðurslóð í desember 2016