Warning: Undefined array key "margin_above" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 623
Warning: Undefined array key "margin_below" in /home/sysl/public_html/wp-content/plugins/ultimate-social-media-icons/libs/controllers/sfsiocns_OnPosts.php on line 624
Hugó Jónsson er lágvaxinn, vinalegur fýr sem talar og sér, skýtur sýndarveruleikaskjá með þrívíddarmyndum upp úr hausnum á sér, skilur einfalt táknmál en hefur nánast ekki áhuga á öðru en mat heimafólks og að stuðla að því að börn á heimili sínu fái sér eitthvað fjölbreytt og hollt við heimkomu úr skóla.
Hugó er vélmenni, hugmynd og afurð Jóns Reys Jóhannessonar, eina Íslendingsins sem stundar nám í vöruhönnun í listaháskólanum í San Francisco í Bandaríkjunum, Academy of Art University. Hugó varð til sem skólaverkefni í fyrravetur og var valinn á sýningu í vor. Vélmennið vingjarnlega vakti þar mikla og verðskuldaða athygli.
Jón Reyr segir að öll tækni við hönnun stráksa sé þekkt en sýndarveruleikinn í kolli hans eigi eftir að þroskast og þróast nokkuð til að unnt sé að skapa Hugó til fulls.
Hugó – hin ráðholla hjálparhella
„Okkur var sett fyrir að hanna gagnlegar vörur eða hluti sem tengdust stórum fyrirtækjum í ýmsum greinum. Ég valdi Elektrolux og þóttist sjá að fyrirtækið framleiddi og seldi margvísleg eldhústæki fyrir fjölskyldufólk með tekjur yfir meðallagi í Evrópu og Ameríku en beindi lítið sjónum að tilteknum þörfum barna og unglinga.
Þekkt er að krakkar koma svöng heim úr skóla um miðjan dag, foreldrarnir í vinnu og enginn fullorðinn til að gefa þeim að borða. Oftar en ekki er grípa þeir brauðsneið með sultu eða súkkulaðihnetusmjöri og drekka kókómjólk með, einhæft fæði og óhollt líka. Þetta fékk ég staðfest með hringingum og viðtölum við barnafjölskyldur á Íslandi og í Bandaríkjunum í rannsóknarvinnunni til undirbúnings verkefninu
Ég valdi mér aldursflokkinn 12 til 14 ára. Eftir miklar vangaveltur og pælingar varð til vélmenni til að hafa í eldhúsinu í því skyni að leiðbeina krökkum að búa til hollan mat. Fyrst var vélmennið merkt Elektrolux en rektor skólans míns vildi að ég setti eigið vörumerki á það fyrir sýninguna í vor til að Elektrolux hirti ekki hugmyndina og gerði að sinni. Vélmennið fékk þá nafnið Hugo og hefur starfsheitið sérleg hjálparhella ungmenna í eldhúsi.
Hugó er vinalegur og skilur bæði talmál og fingramál án snertingar. Hann er úr endingargóðum efnum og nettengdur öðrum tækjum og tólum í eldhúsinu. Hugo veit hvað er til í ísskápnum hverju sinni og veit að það þýðir til dæmis ekki að hjálpa krökkum að búa til mexíkóska pönnuköku (tortilla) ef ekki er til grillaður kjúklingur, ostur, grænmeti og fleira sem til þarf á heimilinu. Hugó gæti reyndar hafa séð þetta fyrir, pantað matvörur sem vantar og fengið heimsendar úr hverfisversluninni áður en krakkarnir koma heim!
Hugó hefur innbyggðan hreyfiskynjara og horfir í kringum sig með myndavélarauga. „Skjárinn“ sem hann getur skotið upp úr kollinum er gerður með ljóseindatækni sem reyndar hefur ekki verið þróuð nema að takmörku leyti. Hugó er því ekki fullmótað vélmenni fyrr en ljóseindatækninni fleygir frekar fram.“
Fastur maður í fótboltaliði skólans
Jón Reyr hóf nám í vöruhönnun í San Francisco haustið 2014, námi sem er allt í senn: hugmynda- og þróunarvinna, uppfinningar og sköpun í tengslum við markaðsstarf. Hann var heima í Reykjavík í sumar og starfaði á þróunardeild Össurar og segir að sá tími hafi verið bæði afar gagnlegur og lærdómsríkur.
Hann er knattspyrnumaður, uppalinn Víkingur og spilaði upp alla yngri flokka félagins alveg upp í meistarflokk. Knattspyrnan var í raun aðgöngumiði hans að náminu í Bandaríkjunum því hann fær námsstyrk gegn því að leika í knattspyrnuliði skólans og er fastamaður í byrjunarliði þess. Hann fór utan um verslunarmannahelgina og stundaði æfingar með liðinu fram í byrjun september.
Síðan tók við sjálft keppnistímabilið í háskólaknattspyrnu Bandaríkjanna með tilheyrandi álagi. Æft er daglega og stundum tvisvar á dag og á dagskrá eru tveir leikir á viku fram í nóvember. Jón Reyr og félagar fara meðal annars til Hawai núna á haustönninni og spila í þrígang á einni viku.
Í sama háskóla og Jón Reyr lærir vöruhönnun stunda tveir Íslendingar nám í vefhönnum, Kristófer Karl Jensson og Davíð Steinn Sigurðarson. Þeir eru líka á knattspyrnusamningi við skólann og þremenningarnir leigja reyndar saman íbúð í miðborg San Francisco.
Skór sem hæfa hugsunarhætti og stöðu miðjumanns
Jón Reyr er djúpur miðjumaður háskólaliðsins og þekkir líka þá stöðu á knattspyrnuvellinum afar vel frá fyrri tíð. Hann veltir fyrir sér að búa til fótboltaskó fyrir mismunandi stöður og hefur nú þegar sérhannað skó fyrir djúpa miðjumenn!
„Það er ekkert því til fyrirstöðu að fá einhverja skóverksmiðju til að búa til skóna eftir teikningum frá mér en kostar meira en ég hef ráð á, enn sem komið er. Ég hugsaði mér skóna með merki ítalska skóframleiðandans Lotto, án þess að þeir viti af því Ítalirnir sjálfir. Ég tók mið af ítalskri hönnun við útlit skónna og hafði líka í huga tiltekna hugmyndafræði Sergio Busquets, snillingsins sem spilar sem djúpur miðjumaður í Barcelona og landsliði Spánar.
Markmiðið var að hanna skó í samræmi við hugsunarhátt djúps miðjumanns. Skórnir þurfa að vera þægilegir og henta fótboltamanni sem hleypur í allar áttir, breytir hratt um stefnu, er ekki mikið með boltann en tekur við bolta og sendir frá sér. Takkarnir eru hringlaga og rúnnaðir en það sem er sérstakt er að á ákveðnum stað á sólanum er snúningstakki. Svo set ég reimarnar til hliðar til að skapa betra rými til innanfótarskota.
Skóframleiðendur hafa mikið stúderað hvernig best sé að hanna skósóla og mjóa takka til að ná sem bestri viðspyrnu þegar leikmaður tekur skarpt af stað. Það hæfir ágætlega sóknar- og varnarmönnum en ég horfi frekar á hringlaga takka og snúningstakka fyrir miðjumennina.“
Fleiri iðkendur í fótbolta en körfubolta
Jón Reyr segir að gríðarlegur áhugi sé fyrir knattspyrnu í kringum hann í Kaliforníu. Þar fylgist menn meðal annars stíft með enska boltanum og rífi sig upp úr rúmi fyrir allar aldir um helgar til að horfa á ensku leikina. Fyrstu leikir dagsins í Englandi eru um miðjar nætur í Kaliforníu að staðartíma!
Svo er nú komið í henni Ameríku að fleiri iðka fótbolta en körfubolta en körfuboltinn hefur enn vinninginn þegar rýnt er í tölur um sjónvarpsáhorf.
Ekkert er því til fyrirstöðu að Jón Reyr Jóhannesson hanni heilabúið í Hugo sínum þannig að vélmennið spjalli við ungmennin um fótbolta við eldhúsbekkinn að matseld lokinni. Höfundur hjálparhellunnar er alla vega ekki þannig þenkjandi að Hugo tjái sig um hafnarbolta við börn og því síður um hnefaleika.
Texti & (flestar) myndir: Atli Rúnar Halldórsson
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. september 2017