Árið 1996 lásu 53% norskra ungmenna á aldrinum níu til fimmtán ára eitthvað í prentuðu blaði dag hvern.
Árið 2016 var hlutfallið komið niður í 7% og að meðaltali „lásu“ krakkarnir dagblöðin í eina mínútu á dag (!).
Núna um áramótin 2016/2017 efndu stjórnendur norska Dagblaðsins til allsherjarfundar starfsmanna og bjuggu þá undir að dagar þess í núverandi mynd væru senn taldir. Það er svo sem skiljanleg ályktun út frá staðreyndum. Árið 1994 kom Dagbladet út í tæplega 230 þúsund eintökum að meðaltali en árið 2015 í einungis 57.000 eintökum! Hrunið heldur áfram, suma daga fór víst upplagið niður fyrir 40.000 eintök á dag á árinu 2016. Nákvæmar tölur hafa ekki verið birtar.
Þegar þessi þróun Dagblaðsins er sett upp grafískt minnir myndin helst á hlutabréfavísitölur í kauphöllum á tímum efnahagshruns eða á fylgishrun Samfylkingarinnar (og hugsanlega líka fylgishrun annarra ónefndra stjórnmálaflokka í framhaldi af ríkisstjórnarmyndun á Íslandi 2017?).
Samdráttur á norskum dagblaðamarkaði er verulegur og lygilega hraður. Dæmið um hrun Dagblaðsins er einna dramatískast en fallið er mikið hjá öðrum blaðaútgefendum líka. Fjölda starfsmanna dagblaða hingað og þangað í Noregi hefur verið sagt upp. Vefútgáfur vega ekki upp á móti því sem hallast á pappírsklárunum.
Menningarritstjóri Dagblaðsins efast um að blaðið skrimti í núverandi mynd nema til 2020. Kannski verður það gert að helgarblaði miklu fyrr. Þróuninni verður ekki snúið við. Það er vonlaust.
Vefdagblaðið (Nettavisen) var stofnað í Noregi í nóvemberbyrjun 1996. Frumkvöðull útgáfunnar, Knut Ivar Skeid, spáði því að dagblöð á pappír heyrðu sögunni til í Noregi fyrir 2020. Mörgum þótti sá spádómur fjarstæðukenndur, allt bendir til að hann hafi verið býsna sannspár um þróun mála í blaðaútgáfu Norðmanna, óþægilega sannspár reyndar. Hann orðaði það svo í viðtali einu sinni að með hverjum Norðmanni sem minnst væri í dánartilkynningum í dagblaðinu Aftenposten fækkaði lesendum þess blaðs og í daglegum dálki um barnsfæðingar væri greint frá nýjum þegnum norska konungsríkisins sem aldrei yrðu lesendur Aftenposten! Kaldhæðnisleg sannindi.
Norska ríkið mokar milljörðum króna í útgáfustyrki dagblaða og fjöldi blaða tórir reyndar aðallega vegna ríkisstuðnings. Án ríkisspenans væru þau ekki gefin út.
Nettavisen tekst að lifa bærilega án ríkisstuðnings og hefur verið rekinn með hagnaði undanfarin sex ár samfleytt. Lengi vel var erfitt að fá auglýsendur í viðskipti við vefmiðla en Nettavisen tókst það. Sá miðill þrífst ágætlega. Þar á bæ fjölgar lesendum og auglýsingatekjur aukast.
Íslenski blaðamarkaðurinn er að ýmsu leyti ólíkur þeim norska. Fríblaðaútgáfa er til dæmis mun umfangsmeiri hér en í Noregi. Svo eru miklar opinberar upplýsingar fáanlegar í Noregi um dagblaðaútgáfu, um upplag, auglýsingar, tekjur og afkomu langt aftur í tímann. Sambærilegar tölur hér eru fátæklegar eða alls liggja alls ekki á lausu svo takandi sé mark á.
Eitt er samt öruggt og það skiptir kannski mestu máli þegar upp er staðið. Íslensk ungmenni kaupa helst ekki dagblöð á pappír og hafa upp til hópa ekki áhuga á að lesa blöð. Óhætt er að fullyrða að þróunin að því leyti er svipuð á Íslandi og í Noregi. Tíminn vinnur gegn blaðaútgáfu á pappír til lengri tíma litið.
Norskir útgefendur eru fyrir löngu hættir að gera gys að spádómum um að svartadauða á markaði prentaðra blaða.