Akkerinu af nýsköpunartogaranum Ingólfi Arnarsyni RE 201 var fyrir sjómannadagshelgina 2017 komið fyrir við aðalinngang Sjávarklasans á Grandagarði.

Sigrún, dóttir Sigurjóns Stefánssonar, skipstjóra á Ingólfi Arnarssyni frá 1952-1972, afhenti Sjávarklasanum á dögunum akkerið til varðveislu og nýstofnað fyrirtæki innan Sjávarklasans, Knarr Maritime, lagði sitt af mörkum til að flytja, sandblása og hreinsa þennan sögulega grip áður en honum var fenginn þarna framtíðarstaður.

Sigrún býr á Austurbrún 33 í Reykjavík og í sama húsi bjuggu líka foreldrar hennar, Sigurjón skipstjóri og Ragnhildur Jónsdóttir. Akkerið hefur verið þar í garðinum alla tíð síðan Ingólfur Arnarson var seldur til niðurrifs árið 1974.

„Ég fór að velta því fyrir mér fyrir tveimur til þremur árum að finna akkerinu framtíðarstað og hingað er það komið. Ég er afar þakklát Sjávarklasanum fyrir, að sýna akkerinu og minningu föður míns svo mikla virðingu sem raun ber vitni en viðurkenni alveg að dálítið tómlegt er í garðinum heima!“

Ingólfur Arnarson RE var smíðaður í Selby í Bretlandi 1947 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. Hann var fyrsta fiskiskipið í heiminum með ratsjá og allur vélbúnaður og aðbúnaður var allur annar, betri og fullkomnari en sést hafði fyrr í íslenska fiskiskipaflotanum.

Sigurjón Stefánsson var meðal þekktustu og farsælustu skipsjóra á öldinni sem leið. Það fórst aldrei maður af skipinu í tíð hans. Ragnhildur, eiginkona hans, gaf síðan nýjum Ingólfi Arnarsyni, skuttogaranum, sem smíðaður var í San Sebastian á Spáni, nafn, árið 1974.

HB Grandi varðveitir bæði stýri og skipsbjöllu bv. Ingólfs Arnarsonar RE 201.

Sigrún Sigurjónsdóttir og Ragnhildur, dóttir hennar, við akkeri Ingólfs Arnarsonar á Grandagarði.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Texti & myndir: Atli Rúnar Halldórsson

Birtist fyrst í Morgunblaðinu í júní 2017