Ólafur Benediktsson, Óli Ben. Pabbi hans tók myndina dularfullu af Háhesti sumarið 1950. Mynd: ARH.

Sumarið 1950 tók Benedikt Ólafsson, framkvæmdastjóri Dúns og fiðurs, í Reykjavík, ljósmynd af fimm manna hópi undir klettinum Háhesti í landi jarðarinnar Botna í Meðallandi í Skaftafellssýslu. Þetta átti verða venjuleg mynd af fjölskyldu og vinum fyrir heimilisalbúmið. Benedikt hafði varla snert áður á myndavél, enda eiginkonan, Svava Árnadóttir, jafnan i hlutverki heimilisljósmyndara. Í þetta skiptið kaus hún hins vegar að vera fyrirsæta á mynd ásamt Ólafi syni sínum, 6 ára gutta sem þá var í sveit á bænum í fyrsta sinn. Heimafólk í Botnum, hjónin Ólafur Sveinsson og Sigrún Runólfsdóttir, voru með á myndinni og svo Jóhanna Jóhannsdóttir í Bakkakoti í Meðallandi.

Þegar Svava og Benedikt fengu myndirnar úr framköllun síðar um sumarið kom meira í ljós en Benedikt sá með berum augum þegar hann smellti af. Óhætt er að segja að þau hafi rekið upp stór augu og það áttu fleiri eftir að gera. Því miður var myndin yfirlýst og reyndar svo óskýr að fólkið á henni er ekki þekkjanlegt. Miklum tíðindum sætti hins vegar skýr andlitsmynd af barni með sérkennilegt höfuðfat ofar á klettinum til hægri og við hlið barnsins drúpti önnur mannvera höfði. Þeir sem rýndu í myndina þóttust sjá fleiri andlit á klettinum.

 Enginn bar kennsl á barnið

Myndin varð ráðgáta sumarið 1950 og er enn. Þáverandi og fyrrverandi ábúendur í Botnum velktust ekki í vafa um að Háhestur og nágrenni hans væri aðsetur huldufólks og að einhverjir þessara góðu granna sinna hefðu einfaldlega notað tækifærið til að sýna sig á mynd. Tíðindin um andlitið á Háhesti spurðust út víða og vöktu mikla athygli. Fólk tengt Sálarrannsóknafélaginu fékk að skoða myndina og þótti hún merkileg. Ýmsir aðrir létu sér hins vegar fátt um finnast og töldu skýringuna á andlitunum nærtækari en svo að hennar þyrfti að leita allt til hulduheima. Pískrað var um að Benedikt hefði einfaldlega tvítekið á filmuna eða jafnvel föndrað eitthvað við hana til að gera myndina „yfirnáttúrlega“.

Benedikt eyðilagði filmuna

„Pabbi tók mjög nærri sér allt tal um að hann hefði fiktað við myndavélina eða filmuna, enda var það alveg fráleitt. Hann kunni engin trix í þessum efnum og tæknilega var ekki mögulegt að spóla til baka og taka ofan í. Hvers vegna skyldi hann hafa staðið í því að falsa myndina? Ég veit þess utan að hann hafði nákvæmlega enga þekkingu til slíkra hluta,“ segir Ólafur Benediktsson, sonur ljósmyndarans.

„Í vélinni var tólf mynda filma og allar myndir á henni voru teknar í Meðallandi í þessari sömu ferð. Segjum nú sem svo að pabba hefði á óskiljanlegan hátt tekist að taka mynd ofan í aðra mynd; hvaða barnsandlit var þá á klettinum? Enginn kannaðist við barnið eða ættarsvip þess, hvorki í Meðallandi né annars staðar. Auðvitað er myndin ekta. Pabbi fékk sig hins vegar fullsaddan af umræðunni, eyðilagði filmuna og ræddi málið lítið eftir það.“

Dúnn, fiður og tónlist

Ólafur Benediktsson tók við rekstri Dúns og fiðurs af foreldrum sínum 1975 og hefur verið þar að síðan þá. Margir þekkja hann líka sem trommarann Óla Ben í þekktum og vinsælum hljómsveitum á árum áður þegar dansstaðir stóðu undir nafni. Óli byrjaði að tromma í JJ og Rúnari, var síðar í hljómsveitunum Lúdó og Sóló og rak um skeið eigið dansband, hljómsveit Óla Ben. Síðast en ekki síst ber að nefna að hann spilaði með Gretti Björnssyni harmónikkuleikara. Og svo má skjóta því hér inn að Geir Ólafs söngvari er næstyngstur sjö barna Ólafar Ragnhildar Ólafsdóttur og Ólafs Benediktssonar.

Tilefni þessa samtals við Óla Ben var hvorki dúnn, fiður né dansmúsik heldur myndin af andlitunum á Háhesti og yfirnáttúrlegir viðburðir í Meðallandi. Óli á að sjálfsögðu ljósmyndina margumtöluðu og heldur mikið upp á hana. Myndin er í hávegum höfð víða og hangir á veggjum í Meðallandi og í híbýlum margra Skaftfellinga annars staðar á landinu.

„Mamma var ættuð úr Meðallandi og átti ættingja þar víða um sveitir. Hvorki Sigrún né Ólafur í Botnum voru í skyldmennahópnum en mamma og Sigrún þekktust vel og Sigrún var viðstödd þegar ég fæddist. Hún á að hafa sagt að ef fyrir henni ætti að liggja að verða bóndakona yrði nýfæddur sveinninn vinnumaður hjá sér. Það gekk eftir og ég var í Botnum í 14 sumur.“

Álfabyggðum ber að sýna virðingu

Kjartan Ólafsson bóndi í Botnum í Meðallandi og Kjartan Halldórsson, stofnandi veitingastaðarins Sægreifans í Reykjavík, við Háhest sumarið 2012. Kjartan Sægreifi var fæddur og uppalinn þarna í sveitinni, á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi. Hann lést í febrúar 2015, 75 ára að aldri. Mynd: ARH.

Ólafur ólst upp við það í Botnum að ekki væri allt sem sýndist og það þótti honum sjálfsagt og eðlilegt.

„Ólafur bóndi brýndi fyrir mér að umgangast Háhest með virðingu og ekki skemma neitt á klettinum eða í grennd við hann. Ég mátti príla upp á Háhest og gerði það. Einhvern tíma losnuðu grjótflísar undan fótum mér og hrundu til jarðar. Ég þorði ekki annað en upplýsa bónda strax um atvikið en hann sagði að öllu væri óhætt af því þetta hefði gerst fyrir slysni en ekki af ásetningi.

Stranglega var bannað að skjóta fugla í landi Botna af tillitssemi við þá ábúendur sem tilheyrðu hulduheimum jarðarinnar. Það situr líka í mér sorgarsagan um Gunnar frumburð hjónanna í Botnum. Hann var nýfæddur þegar þau fluttu úr Langholti að Botnum árið 1950 en dó á barnsaldri úr krabbameini á sjúkrahúsi í Reykjavík.

Mörgum árum síðar kom Ólafur bóndi til mín í Dún og fiður í Reykjavík. Örlög sonarins bar á góma og Ólafur velti því fyrir sér í alvöru hvort veikindi Gunnars hefði mátt rekja til þess að hann veiddi silung í vatninu Fljótsbotni. Gamlar sagnir hermdu að þar væri kynjaskepnan silungamóðir sem refsaði veiðimönnum svo grimmilega að þeir reyndu aldrei aftur að ná sér í fisk úr vatninu, ef þeir á annað borð lifðu af veiðiferðina. Svona hafði sambýlið við hulduheima sterk áhrif á mannfólkið.“

Hver bjargaði lífi Óla Ben?

Bærinn á Botnum í Meðallandi 1954. Lengst til hægri stendur Benedikt Ólafsson, gestkomandi þar. Hann tók myndina af andlitunum á Háhesti. Þarna eru líka hjónin á bænum, Ólafur Sveinsson, sem heldur á Kjartani syni sínum, og Sigríður Runólfsdóttir. Þessi ljósmynd birtist í Dynskógum, riti Vestur-Skaftfellinga, 1988.

Óli Ben býr sjálfur að reynslu frá Botnum sem hann segir afar sterka og jafnframt yfirnáttúrlega.

„Strákur frá Langholti, Skúli að nafni, var í heimsókn og við lékum okkur nálægt árkvísl meðfram hrauninu út í Eldvatn. Állinn var straumharður og í honum djúpir hyljir. Snarbrattur bakki, þrír til fjórir metrar, var þar og fyrir neðan hringiða í vatninu. Ég gáði ekki að mér og fór of tæpt. Skipti engum togum að stykki losnaði úr bakkanum og ég húrraði með því niður og á bólakaf. Ég náði að spyrna mér upp á yfirborðið, fór niður á nýjan leik og man síðast eftir mér undir vatnsborðinu, Allt í einu var sem ég gæti andað í vatninu. Það var skrítið! Í sömu andrá var gripið fast í hárið á mér og ég er rifinn á augabragði langt upp úr vatninu og að bakkanum. Mér tókst að krafla mig upp og skil ekki enn hvernig ég fór að því. Þegar ég hafði bjargað mér lagðist ég á hliðina, upp úr mér gengu vatnsgusur og svo steinsofnaði ég. Þegar ég vaknaði aftur rölti ég að fjárrétt skammt frá og fann þar Skúla skelfingu lostinn. Hann ríghélt sér í girðingarstaur, horfði á mig og spurði: „Ertu dáinn, Óli?“ „Nei,“ svaraði ég. Svo röltum við heim að bæ, þar sem Ólafur bóndi var utan dyra. Honum brá í brún, tíndi af mér hverja spjör og vafði mig inn í teppi og gæruskinn til að fá yl í kroppinn.

Mamma mín sagði að atvikið sýndi að ég væri ekki feigur. Mörgum árum síðar vék Ólafur bóndi orðum að þessu þegar hann kom til mín í Reykjavík. Hann sagðist aldrei hafa skilið hvernig mér hefði tekist að lifa af fallið í ána. Sjálfur er ég ekki í minnsta vafa um að björgunin kom að handan. Aðrir mega hafa aðra skoðun á því en komið hefur líka fyrir að því sé haldið blákalt fram að ég skáldi upp söguna. Það sárnar mér, bæði fyrir mína hönd og ósýnilegu handarinnar sem bjargaði mér við dauðans dyr í kraumandi hylnum. Minningin er svo skýr að þetta hefði getað gerst í gær.“

Kristmann kannaðist við höfuðbúnaðinn

Vilhjálmur Eyjólfsson – Villi á Hnausum. Hann lést 21. júlí 2016. Mynd: ARH.

„Fólk hér um slóðir tók ljósmyndina hans Benedikts alvarlega og það gerðu fleiri,“ segir Vilhjálmur Eyjólfsson, fræðimaður og fyrrum hreppsstjóri á Hnausum í Meðallandi. „Ég man til dæmis eftir því að Kristmann Guðmundsson, skáld í Hveragerði, kannaðist strax við höfuðbúnað barnsins á Háhesti þegar hann sá myndina og sagði þetta vera hátíðarbúning huldubarna. Kristmann var skyggn sem krakki og lék sér við börn úr hulduheimum til sjö ára aldurs. Þá fór hann til dvalar í Noregi og ætlaði eftir heimkomuna að heilsa upp á þessa leikfélaga sína en sá þá ekkert til þeirra. Hann virtist hafa misst skyggnigáfuna við Noregsdvölina.“

Afi Vilhjálms flutti að Botnum 1886 og bjó þar lengi. Hann komst fljótlega að því að rétt væri að umgangast granna sína úr hulduheimum af nærgætni og virðingu.

„Afi fór fljótlega að veiða silung í Fljótsbotni, stöðuvatni í kverk í Skaftárhrauninu frá 1783. Alla tíð hafði fylgt því ótrú að veiða þarna og enn frekar eftir að Olgeir Þorsteinsson í Króki reri út á vatnið til veiða árið 1875. Fyrstu ferðirnar gengu vel en svo kom að því að skepna ein ófrýnileg, líkust stórri skötu, kom upp á yfirborðið og reyndi að hvolfa kænunni. Þar var komin kynjaskepnan silungamóðir og Olgeir mátti þakka fyrir sleppa undan henni lifandi. Hann náði landi, lagði veiðarfærin á hilluna og kvaðst ekki ráða neinum til veiða í Fljótsbotni.

Afi minn byrjaði á því að veiða þarna silung og fljótlega drapst reiðhesturinn hans og betri kýrin í fjósinu. Hann tengdi áföllin beint við veiðarnar í Fljótsbotni, lét silunginn eiga sig eftir það og varð farsæll bóndi.“

Vilhjálmur á Hnausum man vel eftir því að litið var á Háhest sem bústað huldufólks og menn umgengust klettinn í samræmi við það.

„Það mátti ekki hreyfa við neinu á Háhesti eða við hann. Á klettinum var fallegur mosi sem freistandi var að tína og nota til að lita með ull en engum datt samt í hug að taka litunarmosa af Háhesti. Litið var á klettinn sem helgan stað huldufólks.

Svo man ég eftir sögnum um að huldufólk hefði kirkju í Krummhóli í landi jarðarinnar Leiðvallar. Í túninu er jökulruðningur sem myndar hóla þar sem gamla hraunið rann hjá. Hæstur þeirra er Krummhóll. Einar, afi Sigurbjörns Einarssonar biskups, sat messu í Krummhóli hjá huldufólkinu og sagði sjálfur frá. Menn lögðu við hlustir, enda var Einar sérlega vandaður maður og rammskyggn.“

Raunverulegt og eðlilegt

„Það er fullkomlega eðlilegt að huldufólk eða álfar sjáist á ljósmyndum af og til,“ sagði Erla Stefánsdóttir sjáandi þegar hún skoðaði myndina af Háhesti.

„Fyrirsæturnar geta hafa verið þarna af tilviljun en hugsanlegt er líka að þær stilli sér beinlínis upp til myndatöku. Nærtækt dæmi er afi minn sem birtist á fjölskyldumynd, þá farinn. Hann hafði einfaldlega stillt sér upp með öðrum í fjölskyldunni.

Kjánalegt er að draga í efa að ljósmyndin sé raunveruleg. Við Íslendingar erum einungis liðlega 300 þúsund, gestir á landinu eitt andartak í eilífðinni. Huldufólk og álfar eru hins vegar frumbyggjar Íslands, miklu fleiri en mennirnir og halda til um allt land. Þeirra er landið í raun.

Höfuðbúnaður barnsins á steininum er mér ekki kunnuglegur sem slíkur en álfar og huldufólk eru með alls kyns húfur á höfði, sumir bera meira að segja kórónur. Ljósmyndarinn hitti á rétta augnablikið þegar veran í steinum sýndi sig, kannski einfaldlega fyrir forvitni sakir. Mér sýnist reyndar að fleiri andlit séu á steinum en þau tvö sem sjást þar skýrast, ef að er gáð.“

Ljósmyndin frá 1950 sem allt snýst um. Skýrt barnsandlit á klettinum hægra megin við fólkið og vinstra megin við barnsandlitið sést höfuð annarrar veru sem horfir niður. Erla Stefánsdóttir sjáandi sá strax enn fleiri andlit þegar hún fékk myndina af Háhesti í hendur.

Texti: Atli Rúnar – birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. apríl 2015