Hverjum gæti dottið í hug að eldsvoði í prentsmiðju í Kanada sumarið 2016 leiddi til þess að umsækjendur um vegabréf á Íslandi yrðu að sætta sig við bráðabirgðaúrræði, neyðarvegabréf, til að ferðast um Evrópu í maí og júní 2017?
Þannig er það nú samt. Prentsmiðjan umrædda er reyndar ekkert venjuleg. Í henni eru prentaðir peningaseðlar og svo vegabréfabækur fyrir stjórnvöld hingað og þangað.
Ísland er eina Evrópuríkið með samning við prentsmiðjuna um vegabréfabækur. Bruninn í fyrra setti þessa starfsemi Kanadamanna nógu mikið úr skorðum til að áhrifanna gætir nú löngu síðar af umtalsverðum þunga hjá Þjóðskrá Íslands.
Í maíbyrjun 2017 voru væntanlegar 30.000 vegabréfabækur til landsins. Ekkert bólaði á þeim þegar afhendingardagur nálgaðist og að kvöldi miðvikudags 10. maí kom endanleg staðfesting frá Kanada: Engar vegabréfabækur verða sendar til Íslands fyrr en í byrjun júní, takk.
Þá voru góð ráð dýr, í orðsins fyllstu merkingu. Sumarleyfistíminn framundan og umsóknir um ný vegabréf flæddu inn til Þjóðskrár Íslands, 400 á dag að jafnaði. Alltof fáar vegabréfabækur til á lager svo unnt væri að gefa út fyrir alla.
Niðurstaðan varð sú að nota lagerinn til búa til almenn vegabréf handa þeim sem hyggjast ferðast utan Evrópu frá 12. maí til 10. júní en gefa út neyðarvegabréf fyrir þá sem ferðast á sama tíma í Evrópuríkjum.
Fyrirbærið neyðarvegabréf þekkja ekki sérlega margir af eigin raun en það lítur af færi út eins og ósköp venjulegt vegabréf. Þegar að er gáð kemur hins vegar í ljós að textinn er handskrifaður, enginn örgjörvi með fingrafari og öðrum upplýsingum finnanlegur, færri blaðsíður og síðast en ekki síst texti í hástöfum á heiðblárri forsíðunni: NEYÐARVEGABRÉF.
Við Þjóðskrá Íslands blasti við ástand sem flokkaðist miklu frekar sem viðfangsefni og áskorun en neyð af neinu tagi. Margir starfsmenn Þjóðskrár Íslands lögðu tvær nætur við dag, frá miðvikudagskvöldi til föstudagsmorguns, við að skipuleggja viðbrögð og framkvæmd vegabréfaútgáfunnar. Málið þurfti að leggja fyrir tvo ráðherra ríkisstjórnarinnar og embættismenn. Gefa þurfti út reglugerð í snarheitum af þessu tilefni. Að sjálfsögðu þurfti að ræða líka við utanríkisþjónustuna, enda vegabréf út gefin í sendiráðum og hjá ræðismönnum Íslands um veröld víða.
Opinber kynning á vef Þjóðskrár Íslands og gagnvart almenningi/fjölmiðlum kom að sjálfsögu við sögu á seinni hluta þessa spretthlaups. Þar kom Sýslarinn til skjalanna, enda Þjóðskrá Íslands viðskiptavinur hans.
Nú er fréttin sprungin út og vegabréfakerfið byrjað að rúlla á nýjum brautum bráðabirgðaframkvæmdar. Mikið álag á símakerfi þjónustuvers en þar er harðsnúið lið til svara og aðstoðar. Fyrstu neyðarvegabréfin voru gefin út fyrir hádegi og á þremur klukkustundunum eftir að mbl.is birti frétt um málið höfðu yfir 250 væntanlegir ferðalangar sent Þjóðskrá Íslands nauðsynlegar upplýsingar um ferðir sínar í maí og júní.
Nýja kerfið svínvirkar, enda vaskir starfsmenn, þrautreyndir og klárir, á öllum póstum Þjóðskrár Íslands.
Flestir umsækjendur fá neyðarvegabréf, aðrir almennt vegabréf. Allir komast þangað sem hugur og farseðill stefnir. Enginn fer í ferðaköttinn.
Þegar kemur fram í júní hverfur snurðan sem hljóp á þráðinn. Vegabréfaútgáfan hrekkur á ný í venjulegan gír. Þjóðhátíð handan hornsins.
Texti & myndir: Atli Rúnar Halldórsson