Fimm tugir fyrrverandi starfsmanna Vinnslustöðvarinnar og makar blótuðu þorra í boði fyrirtækisins í Akoges í gærkvöld. Fyrsta blótið af þessu tagi var í fyrra að frumkvæði Þórs Vilhjálmssonar, fyrrverandi allsherjarreddara og starfsmannastjóra Vinnslustöðvarinnar.

Ekki kom annað til greina en að endurtaka leikinn í ár og auðvitað hélt Þór aftur í alla þræði undirbúnings og skipulagningar og stjórnaði sjálfur blótinu.

Gestir nutu stundarinnar yfir hefðbundnum þorramat. Svo sýndu Sigurgeir Jónasson ljósmyndari og Kári Bjarnason, forstöðumaður Bókasafns Vestmannaeyja, myndir úr safni þess fyrrnefnda. Þar blasti við saga Vinnslustöðvarinnar í hnotskurn með tilheyrandi mannlífi og horfnum atvinnuháttum. Þessi dagskrárliður féll nú aldeilis í plægðan akur í salnum. Umræður sköpuðust drjúga stund um sumar myndanna og samkoman breyttist á stundum í nafnaleik blótsgesta. Er þetta þessi eða hin(n)? Er þetta ekki Rannveig? spurði þulurinn Þór aftur og aftur. Rannveigu brá hins vegar aldrei fyrir, heldur systur hennar.

Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs, og Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskvinnslu, mættu á blótið fyrir hönd Vinnslustöðvarinnar og greindu frá því helstu viðburðum í starfsemi hennar og rekstri. Nú sér fyrir enda á mikilli og vel heppnaðri fjárfestingahrinu sem hófst árið 2016 og hefur að mörgu leyti valdið kaflaskilum í rekstri og starfsemi Vinnslustöðvarinnar.

Risin er frystigeymsla á Eiðinu og uppsjávarfrystihús, mjölgeymsla og hráefnisgeymar á athafnasvæði VSV. Síðast en ekki síst nefndu Sindri & Sverrir togarann Breka VE sem kom til Íslands frá Kína í fyrra, fyrstu og einu nýsmíðina í skipastóli Vinnslustöðvarinnar frá upphafi. Skemmst er frá að segja að útgerð Breka og rekstur hefur gengið eins og í sögu frá því hann fór í fyrstu veiðiferðina í júlí 2018. Allar vonir eigenda skipsins hafa gengið eftir og rúmlega það!

Síðasti stóráfangi fjárfestingarhrinunnar er nýbygging sem unnið er að núna og tengja mun saman hús Vinnslustöðvarinnar beggja vegna Hafnargötu. Með tengibyggingunni stækkar athafnarými uppsjávarvinnslunnar og henni verður að öllu komið fyrir austan Hafnargötu. Þá verður um leið rýmra um aðra vinnslu sjávarafurða í húsinu vestan Hafnargötu. Aðstaða starfsfólks breytist og batnar með skiptirými, snyrtingum og þvottahúsi.

Þarna verður nýtt eldhús og búr á 2. hæð og matsalur sem tekur 110 manns í sæti.

Á 3. hæð verður annar matsalur með rými fyrir 40-50 manns í sæti.

Núverandi stigahúsi verður breytt og nýr aðalinngangur Vinnslustöðvarinnar tekinn í gagnið fyrir alla starfsmenn og gesti.

Þorrablót fyrrverandi starfsmanna og vina Vinnslustöðvarinnar tókst afskaplega vel og verður örugglega endurtekið að ári. Orðspor samkomunnar í kvöld tryggir að enn fleiri gera tilkall til þess að mæta næst.

Og þegar aldur færist yfir byrjar gleðin fyrr og endar fyrr en ella. Gestir höfðu komið sér fyrir í sætin á slaginu klukkan 18 og þegar klukkan sló 21 var einungis eftir einn starfsmaður í Akoges með ryksugu á lofti til að hirða göturyk sem barst neðan í skósólum inn á teppi. Salurinn frágenginn og engin merki þar um samkomuhald hálftíma fyrr.

Gestirnir horfnir af vettvangi, saddir, glaðir og sælir. Ekkert næturskrall, engin eftirápartí.

Vinnslustöðin er góður vinnustaður og þorrablót fyrrum starfsmanna beinlínis heilsulind fyrir líkama og sál.