Grímur kokkur Gíslason og Geir Jón Þórisson eru í sístækkandi hópi Vestmannaeyinga sem láta sjá sig árlega á Fiskideginum mikla á Dalvík. Grímur og starfsmenn hans buðu gestum að smakka á framleiðslu sinni og mokuðu hreinlega út plokkfiski og fiski í raspi. Geir Jón var ræðumaður í Dalvíkurkirkju við Fiskidagsmessuna, kraftmikill og leikandi léttur í predikunarstólnum. Honum var afar vel tekið.

Salan tekur kipp um allt land eftir Fiskidaginn mikla

Grímur kokkur „í aksjón“ á Dalvík.

„Þetta er ellefti Fiskidagurinn okkar og við tökum örugglega þátt í honum næstu árin og áratugina! Dalvíkingar eru afskaplega gestrisið og hlýlegt fólk. Þarna hef ég eignast marga vini og óhætt að segja að Eyjamenn og Dalvíkingar nái vel saman. Þeir eru líkir um margt,“ segir Grímur kokkur Gíslason.

„Okkur var sérlega vel tekið og höfðum vart undan að gefa plokkfisk og þorskstangir í raspi á báða bóga í sex klukkutíma samfleytt.

Áhrifin láta ekki á sér standa, vörurnar taka sölukipp í verslunum um land allt vikurnar eftir Fiskidaginn mikla og við þurfum að fjölga starfsfólki í framleiðslunni. Það segir manni líka að gestirnir eru ekki einungis Norðlendingar heldur tugir þúsunda manna víðs vegar að af landinu.

Betra tækifæri fáum við hvergi til að kynna það sem við erum að gera í milliliðalausu sambandi við landsmenn. Við erum þreytt en glöð að Fiskidegi loknum og alltaf er þetta jafn skemmtilegt og gefandi.

Reyndar er bókstaflega allt tengt Fiskidaginn mikla jákvætt. Meira að segja veðrið er undantekningarlaust gott.

Þjóðfélagsumræða um sjávarútveginn er á köflum ekki beinlínis uppbyggileg en stemningin á Dalvík og stuðningur allra þessara fyrirtækja við Fiskidaginn mikla er jákvætt innlegg sem vonandi hefur góð áhrif á þjóðarsálina.“

Andrúmsloftið svipað á Dalvík og í Eyjum

Geir Jón messar yfir Dalvíkingum og gestum Fiskidagsins mikla.

„Ég fór fyrst á Fiskidaginn mikla 2006, þá yfirlögregluþjónn í Reykjavík, og skynjaði þá að andrúmsloftið á Dalvík var öðru vísi en ég hafði kynnst annars staðar á útisamkomum og bæjarhátíðum. Mér bara létti og ég endurnýjaði kraftana andlega og líkamlega! Eftir það hef ég sótt Dalvíkinga heim nær árlega og sé að margir aðrir Eyjamenn eru orðnir fastagestir Fiskidagsins líka,“ segir Geir Jón Þórisson..

„Á Dalvík skynja ég svipað andrúmsloft og í Eyjum þegar ég flutti þangað fyrst 1974 og aftur þegar ég sneri þangað á ný eftir tveggja áratuga búsetu í höfuðborginni í millitíðinni. Báðir eru bæirnir veiðimannasamfélög vinnandi og skapandi fólks og margt sameiginlegt með samfélögunum þar.

Fiskidagurinn er alveg sér á báti og menn verða að upplifa hann til að trúa því sem það heyrir frá okkur gestunum. Kærleikur, samhugur, samheldni og gjafmildi einkenna bæjarbraginn og andrúmsloftið. Dalvíkingar taka okkur gestum fagnandi og við erum innilega velkomnir í hús þeirra og garða.

Ég sagði í Dalvíkurkirkju og meina hvert orð: Almættið verðlaunar þetta gjafmilda fólk með góðviðri ár eftir ár þegar mest á ríður. Alveg sama hve mikið rignir og vindar gnauða fyrir Fiskidagshelgina, alltaf göngum við að blíðviðri á sjálfum Fiskideginum mikla!“

Myndir & texti: Atli Rúnar Halldórsson

Birtist fyrst í blaðinu Eyjafréttum 23. ágúst 2017

Dalvíkingurinn Sigurlína Steinsdóttir – Lína hefur verið ritari yfirstjórnar lögreglunnar í Reykjavík og síðar höfuðborgarsvæðisins í áratugi. Fagnaðarfundir urðu með þeim Geir Jóni í kirkjunni. Hann fór ekki dult með það í ræðustólnum að Lína væri öllu yfirsetti löggunnar ráðholl mjög og að hún stjórnaði í reynd öllum lögregluskaranum á höfuðborgarsvæðinu!

 

 

 

 

 


 

Þessir eru EKKI sérlega miklir Eyjamenn að uppruna svo vitað sé en fá að fljóta hér með. Súpukarlarnir voru í garði við Skíðabraut.