Andi kyrrðar og friðar svífur yfir kúm í lausagöngu og kálfum í stíum. „Hér ríkir himneskur friður“, orti Pétur Sigurgeirsson biskup forðum í sálmi sínum. Hann hefði örugglega fallist á að í fjósinu á Brúsastöðum í Vatnsdal ríkti himneskur friður. Þar búa og starfa margfaldir Íslandsmeistarar í mjólkurframleiðslu.

Afrekaskrá Gróu Margrétar Lárusdóttur, Sigurðar Ólafssonar og kúnna á Brúsastöðum er lyginni líkust.

  • Kýrnar hafa skilað Brúsastöðum í toppsæti afurðamestu búa landsins þrisvar sinnum á undanförnum fimm árum.
  • Á árinu 2016 setti Brúsastaðabúið Íslandsmet þegar tæplega 51 árskýr mjólkaði 8.990 kg mjólkur að jafnaði.
  • Af sex afurðamestu kúm landsins á árinu 2016 eru þrjár í fjósinu á Brúsastöðum: Nína í fyrsta sæti, Stebba Dýra í þriðja sæti og Pollýanna í því sjötta!

Engin kýr á Íslandi hefur mjólkað annað eins á einu ári og Nína í fyrra. Hún er enn að og mjólkar bara og mjólkar. Frökk, dóttir Nínu er í hjörðinni og mjólkar líka vel. Hún stefnir ótrauð á sæti í úrvalsdeildinni og að gerast helst móðurbetrungur.

Þetta er allt með miklum ólíkindum. Ef til væru Ólympíuleikar í mjólkurframleiðslu væri íslenska landsliðið sótt að Brúsastöðum. Þegar spurt er um hvort lykillinn að velgengninni teljist til iðnaðarleyndarmála hrista bændur höfuð, brosa og svara eins og fótboltaþjálfarinn Lars Lagerbäck hinn sænski forðum: „Hugarfarið þarf að vera í lagi og hyggja þarf að öllum þáttum, smáum og stórum, með markvissu og öguðu starfi.“

Lars veit hvað hann syngur, það vita Gróa Margrét og Sigurður líka.

Tveir tugir hektara túna endurunnir árlega

Brúsastaðahjón tóku ljúfmannlega á móti svarfdælskum gesti á leið suður af þorrablóti á Rimum, ræddu málin við eldhúsborðið og buðu í heimsókn í fjósið. Þetta var virkilega áhugavert og eftirminnilegt spjall.

„Allir þættir í rekstrinum eru mikilvægir og verða að vera í lagi. Allt gekk nánast eins og í sögu á árinu 2016, sem birtist í miklum afurðum. Þegar kýr mjólka vel verðum við strax vör við það ef eitthvað er athugavert við fóðrið. Við skynjuðum til að mynda að kjarnfóður vildi setjast innan í stút fóðursílósins og þegar „skánin“ losnaði var hún lakari að gæðum en efni stóðu til. Þá tókum við upp þá vinnureglu að hreinsa alltaf sílóið og gefa kálfum fóðurskánirnar og lokagusuna áður en ný áfylling kemur. Þetta kann að virðast lítið atriði en er það ekki.

 

Mikilvægt er líka að gróffóðrið (heyið) sé vel verkað og lystugt; það sé stöðugt aðgengilegt og kýrnar geti étið að vild.

 

Við kaupum kjarnfóður frá Landstólpa og sömuleiðis fræ til sáningar til að fá gott gróffóður. Innifalið í fóðurkaupunum er að tekin eru sýni af heyinu og efnagreind til að fá rétta kjarnfóðurblöndu á móti gróffóðri.

 

Við höfum besta reynslu af hreinu vallafoxgrasi, endurvinnum um 20 hektara af túnum á hverju ári til að sá í þau og fá hámarksafrakstur þeirra við heyskapinn.“

Eiga allar vélar sjálf og nota ekki verktaka

Algengt er að bændur notfæri sér þjónustu verktaka til að sinna vor- og sumarstörfum: bera á tún, slá gras, þurrka og rúlla heyi í plast. Brúsastaðabændur prófuðu verktakaþjónustu en hættu því og annast nú heyskap að öllu leyti sjálf. Þau reka reyndar búið ein árið um kring.

Hér um árið var hjá þeim finnskur vinnumaður. Samstarfið gekk svona og svona. Þegar Finninn fór var keyptur ómennskur vinnumaður í fjósið, mjaltaþjónn sem starfar allan sólahringinn, er alltaf í vinnustuði og heldur heldur jöfnu geðslagi að nóttu sem degi.

„Verktakarnir hafa eðlilega mörgum hnöppum að hneppa, oft samtímis. Þeir komu hingað eftir dúk og disk og það hentaði okkur ekki. Það er ekki nefnilega ekki nóg að sá réttum fræjum á réttum tíma, heldur verður að slá grasið á réttum tíma, verka heyið á réttan hátt og rúlla á réttum tíma – án þess að rífa gat á plastið þegar glímt er við að koma rúllunum heim af túnunum!

 

Við höfum stúderað rakastigið í heyinu til að finna út hvenær best er að rúlla svo það verði sem lystugast við gjöf í fjósinu.“

Af sjálfu leiðir að verklagið á Brúsastöðum þýðir að bændur þar eiga sjálfir allar vélar sem þarf til heyskapar og annarra verka. Þá kemur sér vel að Sigurður er þaulvanur og þjálfaður vélamaður, hann var með bíla- og vélaútgerð áður en hann gerðist bóndi og bjargar sér með margt.

Gróa Margrét er af fjórðu kynslóð sömu ættar á Brúsastöðum, útskrifaðist sem búfræðingur frá Hvanneyri og man tímana tvenna. Hún handmjólkaði sem krakki í torffjósi og blandaði fóður handa kúnum í tréstampa, hrærðu í vatni. Núna er kjarnfóðurgjöfin tölvustýrð og mjaltirnar sömuleiðis.

Fjórar eftirlitsferðir dag í fjósið

Í fjósinu á Brúsastöðum eru jafnan um 50 mjólkandi kýr, 47 núna en 53 þegar flestar voru í fyrra. Það er rúmt um þær í lausagöngunni og þær mjólka sig þegar þeim sýnist, þrisvar til fjórum sinnum á sólarhring. Mjaltaþjónninn gæti annað fleiri kúm og fleiri kýr gætu verið í fjósinu rýmisins vegna en bændurnir vilja hafa þetta svona.

„Við viljum ekki yfirlesta fjósið og hafa ekki fleiri kýr en svo að þær hafi mikið rými og geti gefið sér góðan tíma í mjaltaþjóninum. Sérstaklega er mikilvægt fyrir kvígur að þær hafi tímann fyrir sér og horfi inn í „róbótinn“ í rólegheitum áður en þær ganga inn í hann til að láta mjólka sig.

 

Mjaltaþjónninn sér um fjósverkin, við förum fjórum sinnum á dag til að fylgjast með og þrífa. Komum um áttaleytið að morgni í fyrstu heimsókn en um tíuleytið að kvöldi í þá síðustu. Erindið er aðallega að fullvissa sig um að allt sé í lagi en svo sópum við bása og þrífum eitthvað í hverri ferð. Hreinir básar jafngilda hreinni mjólk og þar með verðmætari vöru. Þetta er enn eitt atriðið sem skiptir máli.

 

Á kvöldin sjáum við best dulbeiðsli á kúnum. Kvöldferðinar eru því oft árangursríkar þótt ró hafi færst yfir hjörðina svona yfirleitt!“

Smáatriðin skipta máli líka

„Tölvukerfið safnar miklum og verðmætum upplýsingum um kýrnar, mjólkurframleiðsluna, kjarnfóðurnotkunina og fjöldamargt sem hægt er að vinna með. Meira að segja fylgjumst við með líkamsþyngd kúnna og höfum séð þær grennast við breytingar á fóðurgjöf!

 

Þegar spurt er hvað við gerum til að ná árangri er svarið hreint hvorki eitt né einfalt heldur í mörgum liðum. Bókstaflega allt þarf að vera í lagi og ganga upp. Eitt smáatriði getur farið úrskeiðis um hríð án þess að það valdi skaða en ef mörg smáatriði eru í ólagi skapar það vandræði til lengri tíma.

 

Við veltum stöðugt fyrir okkur samhengi hlutanna í smáu og stóru og hvernig megi gera betur. Þess vegna horfum við stöðugt á heildarmyndina, ekki aðeins á einstaka liði eða þætti í búrekstrinum.“