Rölti í fyrrasumar með góðum hópi fólks frá Wikinger Reisen í Þýskalandi á hálendinu sunnan Kerlingarfjalla. Eitt leiðir af öðru og núna í vikunni eftir verslunarmannahelgi talaði ég lengi í síma við einn af framkvæmdastjórum þessarar ferðaskrifstofu, Moritz Mohs, í tilefni af því að hann vildi „hugsa upphátt“ um ferðamál í grein í íslensku dagblaði. Greinin varð til og birtist í Fréttablaðinu í dag.
Wikinger Reisen í Þýskalandi hafa átt farsæl og góð samskipti við Íslendinga í 48 ár og skipulagt Íslandsferðir þúsunda manna frá meginlandi Evrópu. Í fyrstu ferðuðust viðskiptavinir okkar um í Land Rover jeppum, nú leggjum við mest upp úr gönguferðum á hálendi Íslands.
Ísland er og hefur verið eftirsótt ferðamannaland. Við jukum sölu Íslandsferða um 30% á ári undanfarin ár en nú ber svo við að aukningin hefur stöðvast. Útlit er fyrir að álíka margir fari til Íslands á okkar vegum í ár og í fyrra.
Ferðafólk streymir auðvitað enn til Íslands og einhverjir lesendur hugsa því væntanlega með sér: „Er ekki bara allt í lagi og ástæðulaust að hafa áhyggjur?“ Kannski ekki. Umsvif íslenskrar ferðaþjónustu eru gríðarlega mikil og verða vonandi áfram en ég þykist sjá blikur á lofti. Þess vegna leyfi ég mér að hugsa hér upphátt. Íslendingar sjálfir orða það víst svo að vinur sé sá er til vamms segir. Ég tek þá á orðinu.
Verðlag er óstöðugt á Íslandi. Ekki síst þess vegna er erfiðara að „selja Ísland“ nú en undanfarin ár. Við vitum ekkert um gengi krónunnar á árinu 2018 og eigum því erfitt með að verðleggja Íslandsferðirnar. Viðskiptavinir heyra að Ísland sé orðið dýrt. Þeir sem áhuga hafa á norrænum slóðum fara þá að horfa frekar til Noregs, Svíþjóðar eða Finnlands.
Ég hef oft komið til Íslands, fylgist með gangi mála í ferðaþjónustunni og heyri ávæning af opinberri umræðu um ferðamál. Ég sé hótel rísa og veitingahúsum fjölgar stöðugt. Samt er hvorki auðvelt að finna laus hótelherbergi né borð á veitingastað á höfuðborgarsvæðinu. Leiðir flestra liggja um Gullna hringinn og merki fjöldaferðamennsku eru þar augljós.
Í ljósi þessa þykir mér undarlegt að íslensk stjórnvöld og ferðamálayfirvöld stuðli ekki á markvissari hátt að uppbyggingu innviða ferðaþjónustu annars staðar á landinu og hafi þannig áhrif á að ferðamenn horfi lengra en sjóndeildarhringur Gullna hringsins nær.
Wikinger Reisen kynnir hálendi Íslands sérstaklega á svæðum sínum og skipuleggur göngu- og útivistarferðir í óbyggðum. Til dæmis erum við með vikuferðir hópa sem gista einu sinni á höfuðborgarsvæðinu en dvelja annars í Kerlingarfjöllum og kynnast vel þeirri fjölbreyttu náttúruperlu í stað þess að aka frá einum áfangastað til annars.
Í Kerlingarfjöllum á sér stað uppbygging sem mér þykir vera áhugaverð og til eftirbreytni. Þar er áformað að reisa þjónustumiðstöð og gistiálmu í samræmi við nútímakröfur um aðbúnað. Framkvæmdir eru hafnar og lofa góðu. Húsin fara vel í umhverfi sínu og mér virðist augljóst að þarna sé einmitt valin farsæl leið til að styrkja og efla þjónustukjarna á hálendinu. Slíkt á að gera á fáum stöðum en standa þar myndarlega að verki, ekki aðeins í þágu ferðafólksins heldur líka og ekki síður í þágu landsins sjálfs. Kraftar starfsfólks á stærri vinnustöðum nýtast betur til að þjóna, leiðbeina, vakta og verja viðkvæmustu hluta landsins en ef þeir eru dreifðir á mörgum, smærri stöðum.
Þetta sjónarmið vekur mismikla hrifningu. Ég verð sums staðar var við undarlega tortryggni eða beina andstöðu við uppbyggingu á helstu þjónustustöðum hálendisins. Ég skynja meira að segja líka andstöðu við að vegum á hálendinu sé við haldið þannig að þeir séu akfærir og í ástandi sem samræmist merkingum á landakortum. Slíka hugsun skil ég bara ekki!
Ef íslensk stjórnvöld vilja á annað borð stuðla að vistrænni og sjálfbærri ferðamennsku, á borð við dæmið sem ég nefndi frá Kerlingarfjöllum, ætti einmitt að byggja upp þjónustu á tilteknum stöðum í sátt við umhverfið og samfélagið og hafa hálendisleiðir í boðlegu ástandi.
Erlendir ferðamenn koma auðvitað til Íslands áfram en kannski ekki í jafnstríðum straumum og undanfarin ár. Unnt er að hafa áhrif á þróun í ferðaþjónustunni með markvissri uppbyggingu innviða. Þar geta stjórnvöld auðvitað haft mikið að segja með því að marka skýra stefnu. Þau ættu jafnframt að styðja í orði og verki ferðaþjónustufyrirtækin sem taka sjálf frumkvæði að því að styrkja innviði starfsemi sinnar og þar með ferðaþjónustu Íslendinga í heild sinni.