Það er svo sem margt líkt með kjörbúðinni í fjallabænum á Ítalíu og í Hagkaup eða Bónus heima (í síðarnefndu búðunum fæst að vísu ekki áfengi!). Þar til kemur að því að borga við kassann. Þá kemur sjokkið. Hlutirnir kosta þriðjungi minna, helmingi minna eða enn minna en maður er vanur að sjá á strimlinum. Nefni nokkur dæmi af handahófi sem börn og gamalmenni skilja og flestir þar á milli.

  • Jógúrt: stórar dósir, 200 kr.
  • Sælkeraostar: 1.600-2.400 kr. kg.
  • Appelsínur/perur: 360-370 kr. kg.
  • Pylsupakkar: 400-1.200 kr., mismunandi þyngd.
  • Chivas Regal, 12 ára: 3.500 kr.
  • Lítri af alþýðurauðvíni: 240 krónur.
  • Dýrasta rauðvínsflaskan í búðinni: 6.800 (sá enga fara í efstu rauðvínshilluna nema ríka og drukkna Rússa).
  • Algengt verð á rauðvínsflösku: 1.000-1.200 krónur
  • Og svo framvegis, og svo framvegis.

Svo fór ég í apótekið og sýndi apótekaranum lyfseðil frá heimilislækninum, þökk sé Heilsuveru. heilsuvera.is er vefur sem sannar stöðugt notagildi sitt. Heima kostaði skammtur af þessum sömu lyfjum liðlega 5.000 krónur seint á nýliðnu ári, vel að merkja af samheitalyfjum af því frumlyfin eru svo ofboðslega, hrikalega, agalega dýr, segja stjórnvöld og lyfsalar á Íslandi. Ég borgaði 630 krónur fyrir sama skammt í ítalska fjallabænum af frumlyfinu. Þar með hætti  verðsamanburðurinn að vera fyndinn.