Kínverskir fiskitöfrar í Eyjum

Wang Shong Yi

Máltíð á veitingastaðnum Canton í Vestmannaeyjum er meira en nægilegt tilefni Eyjaferðar af fastalandinu, að minnsta kosti fyrir þá sem vilja kynnast listagóðri eldamennsku að kínverskum hætti með fisk og fleira góðmeti úr hafinu.

Hallgrímur Rögnvaldsson á og rekur Canton. Hann fékk Wang Shong Yi til landsins til að annast eldamennskuna. Það er víst meira en segja það að fá atvinnuleyfi fyrir kokk frá Kína en góðu heilli er Wang að finna í þessu eldhúsi í Eyjum og þar verður allt hráefni í höndum hans að veislu fyrir augu og bragðlauka.

Steiktur eða gufusoðinn fiskur, gellur, humar, sæbjúgu, þorskhausar. Ósvikin matarupplifun og á þann lista er hægt að bæta við súlukjöti! Fæst af því sem hér er talið upp er að finna á matseðlinum á Canton en matgæðingar ættu einfaldlega að gera boð á undan sér og kanna hvað Wang getur galdrað handa þeim á diska. Hann leikur sér til dæmis að því að útbúa veisluborð með hvítlauksmaríneruðum þorskhausum.

Sæbjúgu ættu menn að prófa líka. Það er afurð sjávar sem Íslendingar flytja út og selja, aðallega til Kína. Þar í landi eru sæbjúgu talin heilnæm fyrir húð, augu og þvagfæri. Sæbjúgu eru meira að segja kynorkuaukandi eða svo segja Kínverjar. Hafa þessi náttúruaukandi undur íslenskrar náttúru farið fram hjá heilbrigðisráðuneytinu og Kristjáni Þór?

Hallgrímuer Rögnvaldsson og Wang Shong Yi á Canton.

Maríneraður þorskhaus.

Sæbjúgu.

Hallgrímur Rögnvaldsson á og rekur Canton.

Texti & myndir: Atli Rúnar – birtist fyrst í Sóknarfæri í september 2016