Margt afar fróðlegt og merkilegt bar fyrir augu kvikmyndajöfranna Jóns Atla Guðjónssonar og Stefáns Loftssonar frá framleiðslufyrirtækinu REC studio í september þegar konur brenndu listmuni úr leir af miklum móði í Ölfusi, í þúsund gráða hita í sérsmíðuðum ofni eða urðuðu munina í eldholum í möl eða mold. Í þjóðtrúnni var gengið út frá því að flöktandi logi, vafurlogi, brynni þar sem fjársjóður væri fólginn undir í jörðu. Það sannaðist í Ölfusi. Snarkandi vafurlogar vísuðu á fjársjóði sem grafnir voru síðan upp, listmuni sem vonandi munu prýða mörg heimili og hvers kyns vistarverur þegar þær rata til kaupenda sem kunna gott að meta.

Sýslarinn fylgdi kvikmyndajöfrunum við upptökur í nokkra daga og skráði meðfylgjandi grein. Sú birtist í héraðsfréttablaði Sunnlendinga, Suðra. Upptekið efni jöfranna verður hins vegar að kennslumyndbandi og gæti vonandi orðið líka uppistaða í kynningarmyndbandi um listgrein sem konur einar stunda hérlendis af því körlum er ekki gefið að fást við glóandi gull.

Námsskeiðshópurinn og ofninn góði. Frá vinstri: Hrönn Waltersdóttir, Anders Fredholm, Hólmfríður Arngrímsdóttir, Þórdís Sigfúsdóttir, Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Guðbjörg Björnsdóttir, Katrín Karlsdóttir, Ólöf Sæmundsdóttir, Steinunn Helgadóttir, Ingibjörg Klemensdóttir.

„Leirlistin er mjög ung listgrein hér á landi og því var það mikill fengur að fá hingað sænskan kennara og fagmann með áratuga reynslu til að koma og upplýsa um nýjustu strauma, fræða, leiðbeina og kenna. Námskeiðið tókst reyndar glimrandi vel og skapaði ýmis sóknarfæri. Við lærðum mikið af Svíanum og hann sagðist reyndar hafa lært sjálfur eitt og annað af okkur!“ segir Steinunn Aldís Helgadóttir leirlistarmaður í Hveragerði.

Hún og leirlistarmennirnir Ingibjörg Klemenzdóttir í Ölfusi og Hrönn Waltersdóttir í Hveragerði undirbjuggu og skipulögðu námskeið á og við heimili Ingibjargar í september þar sem alls níu listamenn sköpuðu listmuni og fræddust daga langa um litameðferð, mótun, efnafræði og glerungagerð af Anders Fredholm hinum sænska. Hann er þekktur keramiker og eftirsóttur kennari í glerungagerð og rakúbrennslu í heimalandi sínu Svíþjóð (rakú er japönsk leirbrennsluaðferð). Í vinnustofu sinni í Ölserud vinnur Anders að stærstum hluta með nytjahluti út steinleir sem hann saltbrennir í viðarofni og selur víða í Svíþjóð og einnig í Japan.

Anders hefur farið um Svíþjóð á sumrin til að kenna réttu handtökin við að búa til ofna til leirbrennslu í hita frá viðareldi og telur að ofnarnir sínir séu orðnir um 30 talsins. Sá fyrsti utan Svíþjóðar varð til á lóðinni að Hellugljúfri 2 í Ölfusi og virkaði ljómandi vel, nákvæmlega eins og til var ætlast.

Þátttakendur á námskeiðinu voru starfandi leirlistarmenn í Hveragerði, Ölfusi, á höfuðborgarsvæðinu, í Ólafsfirði og í Dölum, allt konur. Anders segir að svipaða kynjasögu megi segja frá Svíþjóð. Þar hafi leirlistin lengst af verið iðja kvenna en nú sjáist merki í seinni tíð um áhuga karla á greininni.

Það hlýtur að breyta snarlega grónum staðalhugmyndum um hvað teljist störf kvenna annars vegar og störf karla hins vegar að fylgjast með listakonunum níu fást við glóandi leirmuni í þúsund gráða heitum ofni á námskeiðinu í Ölfusi með svuntur, hanska, grímur og hlífðargleraugu! Þær gengu fumlaust að verki og framleiddu hvern glæsihlutinn á fætur öðrum í nýja ofninum eða með því að grafa leirmuni í jörðu og brenna þá við eins frumstæðar aðstæður og hugsast getur.

Öll vinna við að koma ofninum upp og brenna í honum var tekin upp á myndband til að setja saman kennslumyndband. Raunar er til myndefni af öllum brennsluaðferðum sem prófaðar voru á námskeiðinu. Það gæti augljóslega orðið fyrirtaks grunnur að heimildarmynd um leirbrennslu sem listgrein hér á landi. Verkefnið nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs Suðurlands, Svensk-Íslänska samarbetsfonden og Hveragerðisbæjar.

„Við erum ríkar af reynslu og þekkingu eftir námskeiðið en ákváðum að gera okkur enn meiri mat til framtíðar úr heimsókn Svíans með því að taka upp vinnuferlið við að búa til brennsluofninn og nota hann. Slíkt kynningar- og kennslumyndband verður ómetanlegt til að halda þekkingu Anders eftir í landinu og nýta við að kynna og kenna vinnubrögðin hér heima í framhaldinu,“ segir Steinunn Aldís.

Sjálf lærði hún og starfaði að listsköpun sinn þegar hún bjó í Svíþjóð á sínum tíma. Kerstin Lövgren, eiginkona Anders Fredholm, var samtíða henni í náminu. Hún kynntist þeim hjónum vel og notaði sambönd sín til að koma á námskeiðinu í Ölfusi.

Texti & myndir: Atli Rúnar Halldórsson

Greinin birtist fyrst i héraðsfréttablaðinu Suðra 23. nóvember 2017