„Hlið himinsins“ í Ólafsfirði aldargamalt

Séra Helgi Árnason vígði kirkju og kirkjugarð Ólafsfirðinga á jólaföstu 1915.

„Hér er takmarkið, kristnu menn! Hér er sá þröskuldur er vér verðum að stíga yfir til að geta komist heim til vors rétta föðurlands. Hingað stefna öll vor fótmál hvort sem vegur vor er blómstrum eða þyrnum stráður. Hér mætast vorir margvíslegu vegir, hér koma þeir saman í dauðans dimma dal og skiljast fyrst aftur hinum megin grafarinnar, til hægri og vinstri.“

Þannig hljóðuðu upphafsorð séra Helga Árnasonar þegar hann vígði nýjan kirkjugarð, sem hann kallaði „hlið himinsins“, í Ólafsfjarðarkauptúni fyrir liðlega einni öld, mánudaginn 20. desember 1915: „Ég helga þennan umgirta reit og skil hann frá öllum veraldlegum glaumi.“

Daginn áður vígði hann Ólafsfjarðarkirkju, á síðasta sunnudegi í aðventu 1915.

Séra Helgi var frumkvöðull að kirkjubyggingunni en það virðist vera nokkuð á reiki í seinni tíð hvenær hann nákvæmlega vígði guðshúsið. Í sögu Ólafsfjarðar, Hundrað ár í Horninu, og einnig í bókinni Forn frægðarsetur (í kafla um kirkjusetrið Kvíabekk í Ólafsfirði) er sagt að kirkjan hafi verið vígð sumarið 1916. Helgi H. Árnason, verkfræðingur í Reykjavík og sonarsonur séra Helga, varðveitti ræðusafn afa síns frá prestsárum hans í Ólafsvík og Ólafsfirði. Búferlaflutningar snemma árs 2016 urðu til þess að farið var að glugga í skjölin og fundust þá vígsluræður tvær frá Ólafsfirði. Þar kemur skýrt fram að athafnirnar voru tvær. Kirkjan var vígð 19. desember 1915 og kirkjugarðurinn daginn eftir.

Hvað sem öðru líður minntist þáverandi Ólafsfjarðarprestur 90 ára afmælis kirkjunnar (réttilega!) á aðventu 2005 og núverandi prestur aldarafmælisins núna í desember 2015. Þá minntist Jón Þorsteinsson, tenórsöngvari og Ólafsfirðingur, 100 ára vígsluafmælisins á sinn hátt seint á árinu 2015 með því að gefa út disk með jóla- og nýárssálmum, Inn er helgi hringd, og tileinka gömlu sóknarkirkjunni sinni.

 Endist Ólafsfirðingum í hálfa öld í viðbót

Kirkjugarður Ólafsfirðinga hefur verið stækkaður oftar en einu sinni og oftar en tvisvar á öldinni sem liðin er frá vígslunni. Byggðin hefur líka breitt heilmikið úr sér og umlykur garðinn á alla vegu.

Það er eftir því tekið hve áberandi vel hirtur og snyrtilegur kirkjugarðurinn er og umgjörð hans öll. Dæmi eru um að fólk úr öðrum héruðum komi Ólafsfjarðar til að kynna sér hvernig eigi að hugsa um kirkjugarð svo vel fari! Það segir sína sögu.

Óskar Finnsson, umsjónarmaður kirkjugarðs Ólafsfjarðar.

Heiðurinn af þessu verki, framar öðrum, á Óskar Finnsson. Hann er umsjónarmaður kirkjugarðsins í hálfu starfi og sinnir umsjónarmennsku í sóknarkirkjunni í hinum helmingi starfs síns. Gjaldkeri sóknarnefndarinnar er ekki langt undan, Júlíanna Ingvadóttir, eiginkona Óskars.

„Ég byrjaði í þessu starfi árið 1999 og fór að merkja og skrá óskráðar grafir eins og unnt var, plantaði síðar trjárunnum og klippi þá og snyrti. Í seinni tíð hefur langstærsta verkefnið verið að steypa veggi í kringum kirkjugarðinn. Fyrir voru ónýtir, hlaðnir veggir. Þetta er mikil framkvæmd og dýr, spurðu bara gjaldkerann! Bæjarsjóður borgar steypuna en annan kostnað ber sóknarsjóðurinn. Lokaáfanginn við Aðalgötuna er eftir en það er alveg óráðið hvenær ráðist verður í hann.“

Kirkjugarður Ólafsfirðinga hefur nú verið stækkaður eins og unnt er. Óskar telur að garðurinn gegni hlutverki sínu sem „hlið himinsins“ næstu 40 til 50 árin og þá taki við annar reitur ljóss og sælu hvar svo sem sá verður afmarkaður. Séra Helgi orðaði það nefnilega svo við vígsluna forðum að í kirkjugarðinum legði ferðamaðurinn af sér „hinn jarðneska hjúp, til þess óhindraður og frjáls í fullkomnunarinnar heimi að stíga frá ljósi til ljóss, frá sælu til sælu.“

Messað yfir söfnuði í tvennum skilningi

Óskar Finnsson í kirkjugarðinum í Ólafsfirði í febrúar 2016.

Séra Helgi Árnason kallaði nýju kirkjuna í Ólafsfirði „musteri handa fámennri sókn á útkjálka landsins“ þegar hann vígði hana 19. desember 1915. Hann hafði áður verið prestur í Ólafsvík en fékk embætti á prestssetrinu Kvíabekk í Ólafsfjarðarsveit. Þangað fluttu þau María Ingibjörg Torfadóttir árið 1906.

Í vígsluræðunni sagði hann að liðin væru meira en sjö ár frá því samþykkt var með meirihluta atkvæða á safnaðarfundi að „færa kirkju safnaðarins þangað sem um helmingur allra sóknarmanna var saman kominn á sama stað“ og bætti við:

„En óánægja sumra, deyfð og áhugaleysi annarra og almenn hræðsla við fjárskort lamaði um nokkurra ára bil allar framkvæmdir í þessu efni. Það eru ekki nema þrjú misseri síðan framkvæmdastjórn var kosin og almenn samskot hafin. Og þegar afráðið var á síðastliðnu vori að ráðast í þetta fyrirtæki og tekið var að leggja stein á stein ofan í musteri Drottins, var útlitið næsta ískyggilegt þar sem þá varla mátti telja vísan fjórðung hins nauðsynlega fjár og hins vegar vaxandi dýrtíð, samgönguleysi og haf- og þurrlendi umvafið heljargreipum hafíss.“

Úr rættist og fjármunir söfnuðust og „einnig alveg óvænt fé“, eins og prestur orðaði það án þess að skýra frekar. Kirkjan reis en umtalsverðu verki hefur trúlega verið ólokið þegar hún var vígð.

Séra Helgi þakkaði gefendum fyrir peningana og eilífum Drottni fyrir „frámunalega góða haustveðráttu sem óumflýjanlega var til þess að þetta hús gæti opnast“ þann daginn. Þá þakkaði prestur Drottni fyrir að halda verndarhendi yfir smiðunum og öðrum sem störfuðu við kirkjubygginguna og hlífa þeim við „öllum slysunum sem byggingar oftlega hafa í för með sér.“

Presturinn sagði að með nýju kirkjunni hefðu íbúarnir glatað vegalengdinni fram í Kvíabekkjarkirkju sem afsökun fyrir að sækja ekki messu og notaði drjúga stund í vígsluræðunni til að brýna fyrir söfnuði sínum að skerpa sig í kristnihaldi og mannasiðum: „Dýrð þessa nýja musteris verður meiri en hin fyrri ef vér útrýmum frá því öllum þeim ósiðum sem allri sannri guðrækni er til hindrunar“.

Séra Helgi nefndi sérstaklega óstundvísi kirkjugesta. Í stað þess að allir kappkostuðu að mæta á tilteknum tíma til guðsþjónustunnar væru menn að „smátínast til hennar þangað til hún er ef til vill hálfnuð eða komið undir enda hennar. Og á þann andlausa og leiðinlega hátt byrjar oft guðsþjónustan að fólkið er með ysi og þysi að ryðjast til sæta sinna eða ef til vill að skeggræðast á meðan kórbænin er lesin.“

Ekki nóg með það. Sóknarpresturinn bætti því við að fleiri kirkjugestir yrðu að „hirða um að eignast sálmabókina og hafa hana með sér í guðs hús.“ Hann vildi að fleiri tækju undir í sálmasöngnum en lét þess samt getið að aðrir ættu ekki að syngja en „þeir sem gera það hneykslislaust og án þess að spilla listinni“!

María Ingibjörg Torfadóttir og séra Helgi Árnason í stofu heima í Reykjavík sem var endastöð þeirra á æviferlinum eftir að hafa búið í Ólafsvík, Ólafsfirði og á Patreksfirði. Séra Helgi var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Ingibjörg Sigríður Torfadóttir. Hún lést 1888 og ári síðar kvæntist hann systur hennar, Maríu Ingibjörgu.

Aldargamlar vígsluræður séra Helga frá jólaföstu 1915, fyrirsagnir og inngangsorð með eigin hendi prestsins.

Myndir frá Ólafsfirði & texti: Atli Rúnar.

Samantektin birtist fyrst í Bautasteini, tímariti Kirkjugarðasambands Íslands, í maí 2016