Ólafsfirðingurinn Sigurður Pálmi Randversson tók þátt í að stofna brúarhönnunarfyrirtækið Konfem Byggkonsult AB í Stokkhólmi ásamt fjórum félögum sínum árið 2001. Þeim vegnaði vel, reyndar svo vel að þegar eitt stærsta verkfræði- og ráðgjafarfyrirtæki Svíþjóðar, ÅF, ákvað að stofna brúarhönnunardeild í aðalstöðvum sínum nokkrum árum síðar valdi ÅF álitlegasta kostinn í stöðunni og keypti einfaldlega Konfem með húð og hári og gerði að brúarhönnunardeild sinni.

Nú starfar Sigurður Pálmi á nær þúsund manna vinnustað í Stokkhólmi, í brúarhönnunardeild yfir 30 starfsmanna. Konfem ávaxtaðist sem sagt ágætlega og Ólafsfirðingurinn undir hag sínum afar vel.

ÅF er stórveldi í verkfræði og ráðgjöf, líka á sænska vísu, með þúsundir starfsmanna í Svíþjóð og um víða veröld. Í þeim ranni fæst starfsfólk við margt merkilegt sem varpað er ljósi á að hluta eftir heimsókn á dögunum en með sérstakri áherslu á vaxtarsprotann í brúarhönnunardeildinni ÅF-Konfem.

„Framtíðin“ er orðin nútíð!

Martin Jonsson, svæðisstjóri innviðauppbyggingar á vegum ÅF í Austur-Svíþjóð.

„Mörg þróunar- og tækniverkefni á dagskrá hjá okkur flokkast undir það sem fólk flest talar um sem „framtíðarmúsík“ en þau eru miklu frekar nútíð en framtíð. Á götum Gautaborgar eru til dæmis á annað hundrað sjálfkeyrandi ökutæki, liður í stærstu tilraun veraldar með bíla án bílstjóra í borgarumferð. Í bílstjórasætunum situr samt fólk sem fylgist með og getur gripið inn í.

Þetta er samstarfsverkefni okkar i ÅF, Volvo bílaverksmiðjanna, borgarstjórnarinnar í Gautaborg og sænskra samgönguyfirvalda.

Þróunin er ótrúlega ör og á fleygiferð. Sérfræðingar á okkar vegum koma ekki bara að tæknilegri hönnun bíla og búnaðar heldur spá þeir líka í samfélagsáhrif og lagalega stöðu, tryggingamál og margt fleira.“

Martin Jonsson er svæðisstjóri innviðauppbyggingar í Austur-Svíþjóð í sænska verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækinu ÅF í Stokkhólmi, félagi sem stofnað var 1895 og er nú með yfir 9.000 starfsmenn heima og heiman. Verkefni ÅF eru fjölbreytt og sum svimandi stór í sniðum, á hvaða mælikvarða sem er. Fyrirtækið kemur til dæmis mjög víða við sögu í gríðarlegri uppbyggingu samgöngumannvirkja í Svíþjóð: hraðbrauta, hraðlestarkerfa, jarðganga og brúa.

Höfuðstöðvar AF Í Stokkhólmi.

ÅF hannar líka tæknibúnað í farsímum frá Ericson og Nokia og starfar með japanska fyrirtækinu Denso að því að þróa skynjara fyrir bíla til að gera ökumenn óþarfa. Hönnun sjálfra bílanna og búnaðarins í þeim er einn liður í því að gera þá sjálfkeyrandi, hönnun samgöngumannvirkja er annar liður, skynjarar og fjarskiptabúnaður sá þriðji og svo mætti áfram telja.

ÅF-menn líta á hvern þátt sem hluta af heildarmynd. ÅF er á kafi í öllu saman og miklu meiru til og kemur að verkefnunum sem sjálfstæður og óháður ráðgjafi.

Í þróunarferli umferðar án bílstjóra er allt undir: fjölskyldubílar, strætisvagnar og flutningatæki af ýmsu tagi, til dæmis vörubílar sem flytja efni úr námum. Ef námavinnsla og flutningar verða sjálfvirkir er hægt að gera einfaldari jarðgöng og leggja minna í loftræstingu en ef þar væri fólk við störf og á ferð! Svo myndu tækin ganga allan sólarhringinn og lítið kæra sig um matar- og kaffipásur, hvað þá um hvíldar- og svefnstundir. Það kallast hagræðing og sparnaður svo um munar.

Samgönguverkefni sem um munar

Kjell Windelhed jarðverkfræðingur og Sigurður Pálmi Randversson við teikningu af nýju og risavöxnu hraðbrautarverkefni við Stokkhólm.

Þrjú risavaxin samgönguverkefni eru í gangi eða við það að fara í gang í Svíþjóð um þessar mundir og ÅF kemur að þeim öllum með rannsóknum, mati á umhverfisáhrifum, undirbúningi, hönnun, verkefnisstjórn eða framkvæmdaeftirliti.

  • Í Gautaborg er unnið að jarðlestarkerfi í 6 km göngum með nýjum brautarstöðvum.
  • Í jaðri Stokkhólms standa yfir framkvæmdir við hraðbraut sem hönnuð er fyrir 120.000 bíla á sólarhring og tengir saman norður- og suðursvæði borgarinnar. Leiðin er 21 km, þar af 18 km í jarðgöngum og 10 brýr verða reistar. Þetta er stærsta og dýrasta samgönguverkefni sænskrar sögu til þessa með kostnaðaráætlun upp á jafnvirði um 340 milljarða íslenskra króna.
  • Síðast en ekki síst ber að nefna áform um nýtt hraðlestarkerfi sem á að tengja saman Stokkhólm, Málmey og Gautaborg. Fyrsti áfanginn verður tekinn í gagnið 2028, 150 km milli Järna og Linköping, þar af 20 km í jarðgöngum og 200 brýr! Lestir munu bruna þar á yfir 320 km hraða á tvöföldu spori. Kostnaðaráætlun fyrir verkefnið í heild hljóðar upp á jafnvirði 3.000 milljarða íslenskra króna.

Stofnuðu eigið hönnunarfyrirtæki

Sigurður Pálmi Randversson brúartæknifræðingur við mannvirki sem Konfem Byggkonsult, fyrirtæki sem hann tók þátt í að stofna árið 2001, hannaði í Stokkhólmi.

Fjórir Íslendingar eru í hópi 1.000 starfsmanna ÅF í höfuðstöðvunum í Stokkhólmi, þar á meðal er tæknifræðingurinn og brúarhönnuðurinn Sigurður Pálmi Randversson frá Ólafsfirði. Hann lærði húsasmíði á Akureyri og starfaði þar sem slíkur en flutti til Stokkhólms 1981, vann fyrst við smíðar en settist fljótlega á skólabekk og lærði tæknifræði með brúarhönnun sem sérsvið. Að námi loknu fékk hann vinnu hjá verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækinu Brokonsult AB sem fékkst við að hanna bæði hús og brýr.

„Ég teiknaði eingöngu hús fyrstu árin en 1992 skall á kreppa í Svíþjóð og nýsmíðar húsa lögðust af að miklu leyti. Við snerum okkur þá að því að hanna brýr fyrir bíla og járnbrautir. Það hefur verið mitt fag síðan þá. Brokonsult farnaðist vel framan af en svo gerðist það af ýmsum ástæðum á árinu 2001 að leiðir skildu. Við tókum okkur saman, fimm starfsmenn, og stofnuðum eigið brúarhönnunarfyrirtæki, Konfem Byggkonsult AB.

Við vorum tólf starfandi í Konfem þegar flest var, þar af sjö eigendur. Viðskiptavinir komu til okkar án þess við hefðum neitt fyrir því að kynna okkur eða auglýsa. Við fengum verkefni fyrir stærstu byggingarverktaka Svíþjóðar, ríkið og sveitarfélög. Starfsemin gekk mjög vel en þegar á leið höfum við dálitlar áhyggjur af framtíðinni og því að yngja upp á vinnustaðnum. Bækistöðvarnar voru í úthverfi en þangað vildi ungt fólk helst ekki koma til starfa. Það horfði frekar til miðbæjarsamfélagsins. Við fengum fáeinar fyrirspurnir um samstarf eða sameiningu við önnur fyrirtæki en aldrei nógu spennandi til að málin væru rædd frekar.“

Farsæl starfsmannapólitík

Þau vinna hjá ÅF í Stokkhólmi. Frá vinstri: Rut Kristjánsdóttir byggingaverkfræðingur, Óskar Bragi Guðmundsson byggingaverkfræðingur og Ásdís Ólafsdóttir samgönguverkfræðingur.

Einn góðan veðurdag var hringt í Konfem frá ÅF, ráðgjafarfyrirtæki sem Konfem-félagarnir þekktu vel til en höfðu aldrei starfað með. ÅF kom umbúðalaust að erindinu og vildi kaupa fyrirtækið til að gera að brúarhönnunardeild hjá sér. Samningar tókust og niðurstaðan varð einskonar Öskubuskuævintýri Sigurðar Pálma og félaga.

„Þetta reyndist mjög farsæl lausn og mér líkar afar vel að starfa í ÅF. Við vorum 10 starfsmenn í brúarhönnunardeildinni þegar ég kom kom hingað 2013 en erum nú yfir 30 í spennandi og þróttmiklu starfsumhverfi. Stærstu verkefnin eru brýr í nýja hraðbrautarkerfinu við Stokkhólm.

Starfsmannapólitík fyrirtækisins til fyrirmyndar. Markvisst er unnið að því að ráða ungt fólk til ÅF og í starfsmannahaldinu er maður af írönskum uppruna sem aðstoðar innflytjendur sem fá hér vinnu.

Við ráðum vinnutímanum að miklu leyti sjálf og fyrirtækið nýtir reynslu og þekkingu eldri starfsmanna svo lengi sem þeir vilja sjálfir vinna. Hér er engum vísað á dyr vegna aldurs, elsti starfsmaðurinn á Stokkhólmskontórnum er 82 ára og sýnir ekki á sér fararsnið!“

Sigurður Pálmi og Kristjana Krüger Níelsdóttir frá Akureyri hafa komið sér vel fyrir í Sollentuna á höfuðborgarsvæði Svíþjóðar. Dóttir þeirra, Rannveig, er sálfræðingur og býr með fjölskyldu sinni í Ástralíu. Synirnir tveir eru fjölskyldumenn í Stokkhólmi: Níels Hólm hagfræðingur og starfar í banka en er jafnframt því tennisþjálfari; Magnús Múli er ráðgjafi hjá sænska umboðinu fyrir BMW bíla.

Ekkert verkefni á Íslandi

Hátt til lofts og vítt til veggja í aðalstöðvum ÅF.

ÅF er með skrifstofur, starfsmenn og verkefni víða um álfur en hefur ekki drepið niður fæti á Íslandi, enn sem komið er að minnsta kosti. Kjell Windelhed jarðverkfræðingur þekkir hins vegar vel til jarðgangagerðar á Íslandi og tekur þátt í norrænu samstarfi við upplýsingamiðlun og samráð á því sviði. Hann segir að jarðgangaverkefni séu mun fleiri í gangi núna í Svíþjóð en nokkru sinni fyrr, reyndar svo mörg að erfitt sé að fá þjálfaða og reynda gangagerðarmenn til starfa.

„Undir Stokkhólmi er unnið að margvíslegum jarðgöngum fyrir bíla, jarðlestir, frárennsli og strengi fyrir rafmagn og fjarskipti. Það þarf reyndar að skipuleggja betur þetta ganganet sem er ekkert smáræði að umfangi. Ef hægt væri að sjá göngin í þversniði liti landið undir fótum okkar út eins og svissneskur ostur!

Jarðgangagerð í stórborg er sérlega vandasöm í mörgu tilliti. Við verðum að gæta þess að hafa göngin vatnsþétt til að lækka ekki grunnvatnsyfirborð með tilheyrandi afleiðingum á yfirborði jarðar og halda akbrautum í göngunum þurrum í nafni umferðaröryggis.

Hávaði og jarðhræringar tengdar sprengingum geta valdið ónæði og svo er vandasamt að flytja bergmulning burt um stræti í stórborgarumferðinni.

Við lítum hins vegar á þetta allt saman sem áskoranir og viðfangsefni til að leysa en alls ekki sem vandamál!“ 

Texti & myndir: Atli Rúnar Halldórsson

Birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. júní 2017

Vinnufélagarnir Sigurður Pálmi og Kjell Windelhed jarðverkfræðingur.

 

Starfsmenn AF í fótboltaspili. Þeir eru beinlínis hvattir til þess á vinnustaðnum og líta upp úr verkefnum sínum annað slagið og bregða á leik!