Hjólaði út í Skerjafjörð í blíðviðrinu síðdegis sem ekki er í frásögur færandi. Bankaði upp á hjá Oddi Helgasyni, ættfræðingi og spekingi, sem heldur heyrir ekki til tíðinda. Núna hitti ég á kappann einan á kontórnum. Þar sátum við góða stund og ræddum málin, annar eini lögskráði sýslari landsins, hinn eini lögskráði spekingurinn.

Um hvoru tveggja skráninguna gæti ríkisskattstjóri lýðveldisins vitnað ef hann væri ekki kominn í heitan föstudagspott með Stellu. Hef annars ekki hugmynd um hvar maðurinn er niðurkominn, hvort hann er vatnshræddur eða pottsækinn og allra síst hvort hann drekkur Stellu. En sé hann bjórmaður á annað borð er Stella málið og ekkert annað. Alla vega á meðan framleiðandinn selur ölið á bónusprís í vínbúðunum. Ríkið hirðir hámarksskatt af sölunni þrátt fyrir verðfallið á drykknum. Það er díll sem skattmenn landsins kunna að meta. Og jafnvel fleiri.

Nema hvað, þegar ég bjóst til að kveðja spekinginn snaraðist inn á gólf þriggja manna sendinefnd. Sá sem hafði orð fyrir gestum í fyrstu var Jorge, jarðfræðingur frá Kólumbíu, búsettur í Reykjavík. Með honum voru hjónin Margot og Geoff Briggs frá Kanada. Þau komu til landsins í morgun og ætla að dvelja hér í tvær vikur.

Rætur Margotar eru íslenskar og draumurinn var að hafa upp á ættingja eða ættingjum sem hún gæti helst hitt eða alla vega talað við í síma. Henni var snarlega bent á Odd speking. Hann væri allra manna klárastur í að rekja ættir og væri auk þess bæði KA-maður og Þórsari. Slíkir eru teljandi á fingrum annarrar handar á Íslandi og engum betur treystandi.

Gæti Oddur ekki hjálpað gæti það enginn eða þá meintir ættingjar væru bara ekki til. Ættboginn hefði gufað upp.

Hið eina sem Margot hafði margtækt meðferðis var skírnarvottorð langömmunnar, Ingiríðar Helgadóttur, dóttur hjóna í Hjarðarholti í Stafholts- og Hjarðarholtsprestakalli í Borgarfirði.

Spekingurinn rýndi í vottorðið og hóf svo að hræra í gagnagrunninum sínum á tölvuskjá, sagði fátt en tók í nefið á meðan. Þrisvar á korteri. Eftir 20 mínútur kallaði hann í sýslara og bað hann fletta upp á konu í Kópavogi. Sú fannst í símaskrá, þroskaþjálfi að atvinnu og frænka Margotar í fimmta lið, upplýsti spekingurinn.

Oddur hringdi í frænkuna, sem reyndar var á leið úr bænum í helgarfrí en brást ofurhvumsa við erindinu. Eðlilega. Samkvæmt persónuverndarlögum þarf Oddur að vera milliliður í svona tilvikum og auðvitað virða spekingar lög. Svo rétti hann Margot símtólið og rétt innan við hálftíma frá því hjónin frá Kanada stigu fæti inn fyrir þröskuld ORG ættfræðiþjónustu töluðu saman frænkur í fyrsta sinn sem hvorug vissi um hina fyrr en í dag. Þær mæltu sér mót á sunnudaginn.

Þetta var mögnuð stund og eiginlega alveg ótrúlegt að verða vitni að því að svona skuli geta gerst og gerast á fáeinum mínútum!

Íslandsdvölinni var bjargað á fyrstu klukkutímunum. Margot bókstaflega sveif af ánægju og trúði ekki að þetta væri að gerast. Bóndi hennar, Geoff, brosti líka breitt en hann hafði líka áhuga á að sjá fótboltaleik í Reykjavík um helgina. Einhver hafði bent honum á að Valur væri að spila, „langbesta liðið á Íslandi.“

Sýslari réð Kanadamanninum eindregið frá því að horfa á Valsmenn, heimildarmaðurinn væri annað hvort á röngu ári í tilverunni eða eldheitur Valsari sem neitaði að horfast í augu við að Valur væri í botnbaráttu, grútlélegt lið.

Vísaði í staðinn á Skagamenn. Þar fengi Geoff allt fyrir Kanadadollarana sína og meira til.

Svo kvaddi sýslari og hjólaði heim. Spekingur fékk sér í nefið. Kanadamenn voru bjartari yfirlitum en sjálf sólin úti.