Einn stærsti hraunrásarhellir veraldar, Víðgelmir í Hallmundarhrauni í Borgarfirði, er nú vel aðgengilegur almenningi í fyrsta sinn. Hann er um 148 þúsund fermetrar og um 1.600 metra langur.
Gestum verður boðið að skoða hellinn í fylgd leiðsögumanns sjö sinnum á dag í sumar til að kynnast betur þessu merkilega sköpunarverki náttúrunnar en nokkru sinni hefur verið mögulegt áður. Fyrir augu ber einstakar hraunmyndanir og ísmyndanir sem eiginlega teljast frekar til listaverka en náttúrufyrirbæra!
Stefán Stefánsson og Þórhalla Laufey Guðmundsdóttir eignuðust Fljótstungu í Hvítársíðu í fyrra, tæplega 2.100 hektara jörð á milli Litlafljóts og Norðlingafljóts. Í landi hennar er Víðgelmir og þar hafa þau stofnað til ferðaþjónustu með það að markmiði að gera skoðunarferð í helli auðvelda, aðgengilega og ógleymanlega upplifun. Þannig hefur ekki verið staðið að hellaskoðun hérlendis fyrr en er þekkt erlendis.
Fjölskyldan hefur verið tengd ferðaþjónustu í mörg ár. Elsti sonur Stefáns og Þórhöllu, Hörður Míó, er staðarhaldari í Fljótstungu; menntaður ævintýraleiðsögumaður frá Kanada.
Fjölskyldan gerði strax mikla og metnaðarfulla áætlun um framkvæmdir í og við hellinn til að stórbæta þar aðgengi og aðstöðu gesta. Í vetur hafa verið reistir göngupallar langt inn eftir hellinum og sett upp raflýsing á nokkrum stöðum svo fólk fái notið betur litríks og óvenjulegs umhverfis. Þessum hluta framkvæmdanna lauk núna seint í maí og jafnframt var flutt nýtt liðlega 100 fermetra hús á svæðið frá trésmíðaverkstæðinu Erlingsson ehf. á Stokkseyri og sett niður skammt frá inngangi hellisins. Þar er miðstöð ferðaþjónustu í Víðgelmi til húsa.
- Í boði eru fimm ferðir á dag þar sem farið er um 700 metra inn í hellinn og tvær meira krefjandi ferðir daglega alveg inn í botn Víðgelmis, nær 1,6 km leið.
Ferð í Víðgelmi er upplifun, sjón er sögu ríkari! Um það voru fyrstu gestirnir í ár sammála. Sumarið í Víðgelmi hófst með látum og aðsókn langt umfram þar sem búist var við strax í upphafi.